16.10.1972
Efri deild: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Geir Hallgrímason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var lagt fram á síðustu dögum siðasta þings, og var þá ekki tilefni til eða tækifæri að ræða það efnislega. Ég ætla mér heldur ekki að gera það nú við 1. umr, málsins nema að mjög litlu leyti, en langar þó að benda á nokkur atriði, sem ég vænti, að hv. n., sem frv. fær til athugunar, muni taka til meðferðar.

Það fer ekki á milli mála, að mikil nauðsyn er á byggingu og rekstri dagvistunarheimila, eins og nútímaþjóðlífsháttum er komið. Um það er ekki ágreiningur. Ég hygg, að vegna þessa sé eðlilegt, að ríkisvaldið hér eins og víða erlendis taki nokkurn þátt í þeim kostnaði, sem samfara er byggingu og e.t.v. rekstri dagvistunarheimila, en kem þó að því nánar síðar.

Í þessu frv. felst að vísu, að hér er eitt verkefni, sem sveitarfélög hafa hingað til ein haft á sínum vegum, falið hvoru tveggja ríki og sveitarfélögum. Að því leyti til horfir það ekki til einföldunar á verkaskiptingu á milli þessara aðila, en ég tel þó frv. horfa til rétts vegar, vegna þess að ekki er óeðlilegt, að með einhverju hætti séu líkar reglur um stofnun og byggingu dagvistunarstofnana og um stofnun og byggingu skóla. Það er þó til íhugunar að þessu leyti, hvort ekki er ástæða til að leggja megináherzlu á þátttöku ríkisins í byggingu dagvistunarstofnana og láta fremur bíða hlutdeild ríkisins og þátttöku í rekstrarkostnaði þeirra. Sérstaklega meðan verið er að fullnægja eftirspurninni eftir dagvistunarstofnunum. Hæstv. menntmrh. vék að því, að mikill skortur væri á þessum stofnunum og vísaði til kannana, sem um það hefðu farið fram. Þar sem aths. við frv. þetta eru prentaðar óbreyttar frá því í vor, þá er ekki von, að þar sé getið um niðurstöðu af könnun, sem fór fram á vegum Reykjavíkurborgar að því er snertir dagvistunarstofnanir og eftirspurn eftir þeim í Reykjavík. Mér þykir þess vegna hlýða, sérstaklega ef það gæti varpað ljósi á umfang þessa vandamáls og þeirrar fjárfestingar, sem þörf er á á þessu sviði, að geta um þær niðurstöður.

Samkv. könnun, er fór fram á vegum félagsmálastofnunar og félagsmálaráðs borgarinnar og Þorbjörn Broddason lektor annaðist, þá kom í ljós, að miðað við þá daga, sem könnunin fór fram, sem mun vera seint á síðasta ári, þá skorti 3000 vistrými í dagvistunarstofnunum hér í borginni. Þessi eftirspurn skiptist þannig, að 3/10 eftirspurnarinnar voru eftir dagheimilarými, þ.e.a.s. 900 rými vantaði. Þá voru rúmlega 600 rými fyrir í dagheimilum borgarinnar, þannig að heildareftirspurn var rétt rúmlega 1500. Nú hefur bætzt við nokkurt dagheimilarými eða hátt á 100 rými, þannig að til staðar eru 700 rými, en rúmlega 800 skortir. Mér telst lauslega til, að það muni kosta rúmlega 300 millj. kr. að reisa stofnanir til þess að fullnægja þessari eftirspurn eftir dagheimilum. Ef við lítum á leikskólana, þá var talið, að eftirspurn eftir leikskólavist væri um 4/10 af þessum 3000 vistrýmum eða 1200 rými, sem vantaði. Þá voru fyrir í fyrra rúmlega 1100 rými þannig, að heildareftirspurnin var rúmlega 2300 rými. Þar sem þrír nýir leikskólar, er hver tekur 120 börn á dag, hafa verið teknir í notkun á þessu ári, þá eru nú til staðar í þorpinni 1500 rými og skortir rétt rúmlega 800 til þess að fullnægja eftirspurninni eftir leikskólum. Að byggja leikskóla, sem rúma muni þessi börn, mun kosta um það bil 100 millj. kr.

Sú eftirspurn eftir dagheimilavist og leikskólavist, sem þessi könnun leiddi í ljós, kom mönnum ekki á óvart hjá Reykjavíkurborg. Aftur á móti má segja, að könnunin hafi leitt í ljós meiri eftirspurn eftir skóladagheimilum heldur en búizt hafði verið við. Talið var samkv. könnuninni, að 3/10 af þeim vistrýmum, sem á skortir til að fullnægja eftirspurn, væri fólgin í skóladagheimilarýmum. Samkvæmt því þyrfti að koma á fót 900 þannig rýmum, en aðeins 20 voru fyrir, þegar könnunin var gerð. Þau eru nú 40 og vantar því um 880 til þess að eftirspurninni væri fullnægt að þessu leyti. Kosta mun nær 200 millj. kr. að fullnægja þeirri eftirspurn.

Ef við lítum á þessar tegundir dagvistunarstofnana hér í Reykjavík, þá er verkefnið það að byggja fyrir um það bil 600 millj. kr. Reykjavíkurborg leggur til þessara mála 50 millj. kr. á yfirstandandi ári, og mun væntanlega ekki leggja minna fram á næsta ári, líklega sem nemur 60 millj. kr. þannig, að búast má við, að þáttur ríkisins verði á ári að því er til Reykjavíkur tekur um 50–60 millj. kr., þar sem hér er aðallega um dagheimili og skóladagheimili að ræða.

Ég legg áherzlu á það, að þessi könnun, sem ég hef gert að umtalsefni, byggist á eftirspurn. Það er ekki metið, hver sé þörf á þessum stofnunum, heldur byggt á upplýsingum mæðranna sjálfra, hvað þær mundu kjósa sér börnum sínum til handa og ekkert farið út í mat á heimilisástæðum eða hvort annað eða bæði foreldrar vinna úti eða önnur slík atriði, sem nú hafa ráðið um forgangsflokka, meðan ekki er unnt að svara eftirspurninni. Ef það er markmið okkar að fullnægja þessari eftirspurn, þá er þetta fjárfestingarþörfin. Og því held ég, að því fjármagni, sem ríkisvaldið getur látið í té á þessu sviði, sé bezt varið til stofnkostnaðar þessara stofnana, og það sé þá fremur hægt að ætlast til þess af sveitarfélögunum og aðstandendum barnanna að standa undir rekstrarkostnaði. Ég tel því, að í fyrstu megi ríkisvaldið gjarnan spara eða nota það fé, sem fæst með því að fella niður eða lækka þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaði dagvistunarheimila, til þess að taka meiri þátt í stofnkostnaði slíkra heimila. Það er líka svo, að félagsleg samhjálp er komin svo langt á veg hér á landi, í það minnsta tel ég svo vera í Reykjavík, að óhugsandi væri, að aðstandendur barna, sem þyrftu á slíkri vistrými að halda, fengju það ekki vegna fjárhagserfiðleika eða fjárskorts. Ég vildi koma þessu sjónarmiði nú þegar á framfæri og geta þess um leið, að fyrir um það bil ári var samþykkt till. í borgarstjórn Reykjavíkur um tilmæli til ríkisvaldsins um að taka þátt í stofnkostnaði þessara heimila. Þar var sérstaklega tekið fram, að æskilegt væri, að sá þáttur væri ekki minni en helmingur og enn fremur var talið æskilegt, að á vegum ríkisins færi fram heildaráætlun um þörf slíkra bygginga í landinu. Mun vera auðvelt að gera slíka áætlun að því er Reykjavík snertir með hliðsjón af þeirri könnun, sem fyrir hendi er og vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort slík áætlun hafi verið gerð á vegum rn. umfram það sem segir í aths. n., er undirbjó frv.

Það er líka ástæða til þess að hafa orð á því, að nauðsynlegt er að gera meðferð þessara mála eins einfalda og unnt er. Ég óttast nokkuð, að sú málsmeðferð, sem IV. kafli gerir ráð fyrir, nefnilega að sækja þurfi fyrst um leyfi til rn. og síðan að fá sérstaka fjárveitingu, tvær umferðir að þessu leyti, verði til þess að seinka undirbúningi og byggingu dagvistunarstofnana og beini því til hæstv. ráðh. og n. að flýta meðferð málsins til þess að unnt megi verða að taka upp í fjárlög næsta árs einhver framlög í þessu skyni.

Það er svo, að óskýrt sýnist vera í 6. gr., hvort að því er leikskólaframlög snertir gildi sama regla og um dagheimila- og skóladagheimilaframlög, þ.e.a.s. byggt verði á ákvæðum í reglugerð um stofnkostnað skóla. Ég tel rétt að bæta því við í 2. tl., ef það er ætlunin. Þá er rétt að minnast á það í lokamgr. 15. gr. er sagt að áætlun um byggingarkostnað skuli miðað „við þær kröfur (norm), sem reglugerð kveður á um varðandi gerð og búnað hvers heimilis. Í áætlun þessari skal miðað við byggingarkostnað og verðlag á þeim tíma, sem áætlunin er gerð, og miðast ríkisframlag við það: Hér sýnist ekki vera ætlunin að bæta við byggingarkostnað samkv. áætlun verðhækkunum vegna eðlilegra verðlagsbreytinga eins og er gert í skólabyggingum. Þyrfti auðvitað að hafa sömu reglur að því er þessar byggingar snertir og skólabyggingar. Og þá sýnist mér einnig, að til mála geti komið, að ríkissjóði sé gert að greiða þetta á skemmri tíma en 15. gr. gerir ráð fyrir eða hafa að öllu leyti sömu reglu eins og um skólabyggingar er nú.

Þá vildi ég aðeins taka það fram, ef að því verður horfið að halda áfram þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaði, að þá sýnist vera eðlilegt, að í 4. gr. frv. sé bætt við 4. tölul. um einkaheimili, sem stunda barnfóstrun, enda séu heimilin undir eftirliti opinberrar stofnunar og starfsfólk þess hafi hlotið tilskilda menntun samkv. nánari reglum þar um. Það hefur verið horfið að því ráði hér í Reykjavík fyrir milligöngu Félagsmálastofnunar borgarinnar að fá einkaheimili til þess að taka þátt í dagvistun barna og hefur það gefið svo góða raun, að nú munu um eða yfir 80 slík heimili hafa um 200 börn á sínum vegum og skiptir það miklu máli, ef við rifjum það upp, sem ég gat um í ræðu minni áðan, að eftirspurn eftir 800 dagheimilaplássum er ekki fullnægt, og þá koma þessi 200 börn, sem eru á einkaheimilum, þar til frádráttar eftirspurninni. Hér væri sjálfsagt hægt að uppörva fleiri einkaheimili til slíkrar starfsemi. Með því er sparaður stofnkostnaður fyrir hið opinbera og rekstrarkostnaður í heild sinni mun vera hærri en á vegum opinberra aðila, þótt hingað til hafi ekki verið farið út í það af borginni, t.d. að greiða vist þessara barna niður í líkingu við það, sem gert hefur verið um dagheimili. Sú regla hefur gilt um margra ára skeið og ekki verið ágreiningur um það í borgarstjórn Reykjavíkur, að að því er rekstrarkostnað við dagheimili snertir, greiðir borgarsjóður 50°ó og foreldrar sem næst 50%. Að því er leikskóla snertir greiðir borgarsjóður 25%, en foreldrar 75%. Nú hefur ríkisstj. neitað beiðni þess efnis að hækka þessi vistgjöld til þess að halda þessari viðmiðun og mun því þáttur borgarinnar hafa aukizt að því er dagheimili snertir allt að 60–65% og leikskólana um 35%. Ég tel, að hér sé illa farið. Það sé eðlilegra að gefa sveitarfélögunum sjálfdæmi að þessu leyti, svo að þau geti, að svo miklu leyti sem þau spara í rekstrarkostnaði, lagt meiri áherzlu á að koma þessum stofnunum upp, til þess að sem fyrst megi fullnægja eftirspurninni, og vísa ég þar sérstaklega í þá þróun, sem orðið hefur í félagslegri aðstoð hér í borg og víðar hér á landi.

Ég vildi, herra forseti, koma þessum sjónarmiðum fram þegar við 1. umr. málsins og vænti þess, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, taki þessi atriði til athugunar.

Hér á eftir mun svo verða rætt frv. til l. um Fósturskóla Íslands, sem er nauðsynlegt, að nái lagagildi einmitt vegna þeirrar þarfar, sem er á sérmenntuðu fólki til starfa í þessum dagvistunarstofnunum og raunar í ýmsum öðrum uppeldisstofnunum landsins. Fósturskólinn hefur verið rekinn með styrk frá ríkinu, en meginþungi af rekstrarkostnaði skólans hefur hvílt á Reykjavíkurborg, og m.a. hefur Reykjavíkurborg í raun séð skólanum fyrir húsnæði allt frá stofnun hans og það enda þótt þar menntist fjölmargir nemendur til starfa utan sveitarfélagsins. Við skulum gera okkur grein fyrir því hins vegar í sambandi við bæði þessi mál, að þau munu krefjast aukinna útgjalda ríkissjóðs og raunar sveitarfélaga frá því, sem nú er. Ég sé við fljótan yfirlestur í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, að öll fjárframlög í þessu skyni eru sem næst óbreytt frá því, sem var í fjárl. yfirstandandi árs. Til barnavinafélagsins Sumargjafar er t.d. óbreytt framlag, 1.5 millj. kr. Til byggingar dagvistunarstofnana fyrir allt landið er aðeins 1 millj. og hrekkur þess vegna mjög skammt. Ég held, að þetta sé eitt dæmi um það, að hér er ekki kannað ofan í kjölinn, hvaða kröfur samþykkt frv. og stefnumála ríkisstj. hafa í för með sér, og vandinn að þessu leyti enganveginn leystur á þessu stigi eða með þessum frv. En við skulum vona, að úr rætist.