20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

8. mál, kosningar til Alþingis

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Sem 1. flm. þessa máls vil ég þakka n. fyrir afgreiðslu hennar. Þegar málið kom til umr. á sínum tíma í haust, gat ég ekki mælt fyrir till. sakir þess, að ég var fjarverandi í opinberum erindagjörðum. Það kom raunar ekki að sök, þar eð till. á fleiri aðstandendur en mig og 2. flm. hennar, hv. 5. þm. Austurl. fylgdi henni þá ítarlega úr hlaði. Og nú hefur frsm. n, gert henni skil, svo að ég hef í rauninni engu við málið að bæta efnislega.

Ég vil aðeins minna á, að íslenzkir námsmenn erlendis hafa sótt það af kappi undanfarin ár, að breytingar yrðu gerðar á kosningalögunum með það fyrir augum að auðvelda þeim að neyta kosningaréttar erlendis. Mér heyrist á undirtektum hv. þm., að þeir séu sammála um, að ákvæði núgildandi kosningalaga um utankjörfundaatkvgr. séu of þröng, enda koma annmarkar þeirra æ berlegar í ljós, eftir því sem námsmönnum fjölgar erlendis og þeir dreifast um fleiri lönd. Óhjákvæmilega hefur farið svo, að kvartanir berast helzt, þegar kosningar standa fyrir dyrum, og þá hefur ekki unnizt tími til að gera þær lagfæringar, sem að gagni mættu koma.

Með flutningi þessarar till. höfum við, sem að henni stöndum, viljað stuðla að gagngerri endurskoðun þessara mála, þannig að unnt sé að vinna rólega og yfirvegað að þeim breytingum, sem allir telja nauðsynlegt að gera. Þá höfum við, svo sem fram kemur í till., viljað að fylgdist að endurskoðun fyrirkomulags á utankjörfundaatkvgr. erlendis og athugun á því, á hvern hátt megi gera þeim, sem dveljast á sjúkrahúsum og hliðstæðum stofnunum, kleift að neyta kosningarréttar. Á þennan tvíþætta tilgang minni ég vegna þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir á þskj, 336, flutt af hv. 6. þm. Reykv. og hún var að enda við að gera grein fyrir. Brtt. þessa hv. þm. felur í sér, að frv. um breyt. á kosningalögum með tilliti til þessara tveggja þátta verði lagt fram þegar á þessu þingi, þ. e. a. s, fyrir þinglok í vor og nú er kominn 19. marz. Ég hygg, að ég hafi jafnmikinn áhuga á því og hv. síðasti ræðumaður, að rösklega verði unnið að þessu máli, En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að ég er hrædd um, að þessi þröngu tímatakmörk, sem hún vill setja þeirri vinnu, sem fram undan er, verði einmitt til þess að ýta undir þau flýtisvinnubrögð, sem sérstaklega ber að forðast og var einmitt ætlunin að forðast. Ég hygg, að það hefði engu breytt frá minni hálfu, þó að till. hefði komið til framhaldsumræðu strax upp úr 10. febr., þegar nál. var lagt fram. Ég byggi þá skoðun mína á því, að mér virðast mál heldur sein í meðferð hér á Alþ., og það er í rauninni ekki ástæða til þess að ætla, að þetta mundi ganga neitt fljótar en önnur mál. Enn fremur hygg ég ekki, að sú undirbúningsvinna, sem þó er að nokkru unnin, sé það langt komin, að frv. hljóti að vera svo til sjálfsamið. Ég vil minna á atriðið varðandi utankjörfundaatkvgr. vegna sjúklinga. Mér vitanlega er engin undirbúningsvinna fyrir hendi um það atriði nú. Þar hljóta að koma fram ýmiss konar hugmyndir, sem tíma þarf til að íhuga og vinna að, enda eru slík mál afar viðkvæm og vandmeðfarin.

En hvort undirbúningur að frv. vegna utankjörfundaatkvgr. erlendis er svo langt kominn, að það réttlæti þá meðferð málsins, sem hv. 6. þm. Reykv. leggur til, er líka allsendis óvíst. Sú undirbúningsvinna er í rauninni ekki lengra komin núna en hún var í janúarmánuði 1971, þegar hv. 6. þm. Reykv. var dómsmrh., og hafði þá ekki þótt fært að leggja fram frv. á grundvelli nefndarvinnunnar fyrir þinglok þá og kosningar. Er þess varla að vænta að tími vinnist til þess núna, þegar komið er fram í marzmánuð. Þess má líka geta, að n., sem starfaði að endurskoðun kosningal. og skilaði grg. í jan. 1971, hafði bundnar hendur varðandi athugun á breytingum á utankjörfundaatkvgr. erlendis. Till. hennar áttu að miðast við það, að notuð yrðu sams konar kjörgögn og kosningal. nú gera ráð fyrir. Utanrrn. treysti sér ekki til að mæla með neinum till. n., sem bornar voru fram á þessum grundvelli. Afleiðingin varð sú, að aðeins ein hugmynd liggur fyrir, og enda þótt hún virðist aðgengileg í fljótu bragði, hygg ég, að það sé ekki nema sanngjarnt að fara fram á, að nánari athugun verði gerð á málinu. Það verður ekki heldur séð, að kosningalaganefndin eða dómsmrn. hafi tekið afstöðu til þeirrar hugmyndar, sem ráðuneytisstjóri utanrrn. lagði fram. Þegar ég lagði málið fyrir í haust, aflaði ég mér upplýsinga í dómsmrn., hvort nokkuð hefði verið unnið frekar, og fékk þær upplýsingar, að svo hefði ekki verið. Ég hef þau gögn undir höndum, sem þá voru fyrir hendi. Ég er sammála hv. 6. þm. Reykv. um, að fróðlegt hefði verið að fá svar hæstv. dómsmrh. við því, hvort unnið hefur verið að því síðan, enda þótt mig gruni, að það hreki ekki þær staðreyndir málsins, sem ég hef hér verið að segja frá.

Ég hlýt að lýsa undrun minni á því, að svo þingvanur þm., sem hv. 6 þm. Reykv. skuli í rauninni telja raunhæft að fara fram á, að frv. verði flutt þegar á þessu þingi. Ég geng út frá því, að hún hafi ætlazt til, að það yrði afgreitt á þessu þingi, og mér þykir í rauninni nánast óvirðing við málið, ef á að flaustra því af, sem ætlað er að bæta rétt manna í svo mikilvægu og viðkvæmu máli.

Ég get ekki tekið alvarlega hugleiðingar hv. síðasta ræðumanns um, að kosningar standi fyrir dyrum. Ég minni af því tilefni á vantrauststill., sem hv. þm. Sjálfstfl. báru fram hér ekki alls fyrir löngu og var felld. Ég mun í ljósi þess, sem ég hef nú sagt, greiða atkv. gegn brtt.