20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

157. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði til að leggja hér aðeins orð í belg. Þetta er merkismál, sem hér er til umr., enda hafa margir hv. þm. mikið um það talað. Ég er meðflm. að till. um sama málefni, sem mun koma til umr. á næstunni, og mun því hafa mál mitt ekki allt of langt nú. Mig langaði bara til að vekja athygli á því, að þrátt fyrir langt mál virðist í raun og veru engum hv. þm. hafa komið til hugar, að það væru ýmsir kostir því fylgjandi að búa úti á landsbyggðinni, það gæti kannski verið jafngott eða kannski betra að búa á vissum stöðum úti á landsbyggðinni. Við höfum heyrt mikið talað um annmarka þess, mikið talað um skort á ýmsum hlutum, mikið talað um, hvað það væri miklu örðugra, hver forréttindi við hefðum hér á Faxaflóasvæðinu. Aftur á móti hefur undir öðrum kringumstæðum allmikið verið talað um ýmis verðmæti, sem fólkið úti á landsbyggðinni nýtur, en við njótum ekki í eins ríkum mæli, sem í þéttbýlinu búum. Þ. á m. hefur hér komið fram áður, að það væri þörf á breyttu gildismati, þar sem t. d. hreint loft, hrein og fögur náttúra væru metin til verðmæta. Þetta kom mér ekki sízt í hug, þegar einn virtur alþm. átti tal við mig hér niðri í salnum fyrir tveimur dögum og var að segja mér frá því, að þannig væri nú ástatt hjá sér, þar sem hann byggi hér í nágrenni alþingishússins, að hann gæti ekki opnað glugga, því að ef hann ætlaði að hleypa inn hreinu lofti, þá kæmi inn svo mengað loft, að hann yrði að loka honum strax aftur. Ég held, að á meðan við forðumst að minnast á þau hlunnindi, sem fylgja því að búa úti á landsbyggðinni, meðan við reynum með sem sterkustum orðum að lýsa einvörðungu örðugleikum dreifbýlisins, þá komumst við aldrei langt í því að fá fólk til búsetu á þessum stöðum.

Frá því að ég kom hér á hv. Alþ., hef ég aðallega heyrt um það getið, hverjir annmarkar fylgdu því að búa úti á landsbyggðinni, og ég hef oft hugsað til þess unga fólks, sem kannske hefur hugsað sér að setjast að einhvers staðar úti á landinu, hvernig því yrði við að heyra allar þessar frásagnir af þeim örðugleikum, sem þar væru. Ég hef líka hugsað til þeirra, sem úti á landsbyggðinni búa, þegar þeir heyra um, hvað það sé ósköp notalegt að búa á mölinni, að þægindi séu þar stórkostleg og allar vörur miklu ódýrari, hvort þá mundi ekki fara að langa til að flytjast þangað. Er nokkur furða, þó að fólkið, sem býr úti á landsbyggðinni, langi til að flytjast á mölina, þegar það heyrir sífellt endurteknar frásagnir af þessari dásemd, sem það sé að búa þar?

Ég geri mér fyllilega ljóst, að Íslendingum er full nauðsyn að hafa trausta byggð úti á landinu, að Faxaflóasvæðið er þegar yfirbyggt, og enda þótt það sé mikið framleiðslusvæði, þá er stöðvun á fjölgun þar mjög æskileg. Hins vegar, eins og ég hef áður sagt, held, ég, að við verðum að gera okkur það ljóst, að það hefur sína stóru kosti að búa úti á landi. Og ég vil gjarnan styðja einmitt að því, að rannsakaðir verði fleiri þættir en þeir, sem hér hefur verið rætt um. Mér fyndist t. d. ástæða til þess, að það væri rannsakað, hvort langlífi og heilbrigði er með öðrum hætti úti á landsbyggðinni heldur en hér í Reykjavík. Ég vil ekki trúa því, fyrr en ég sé það í tölum, að menn lifi lengur í Reykjavík, og ég vil ekki heldur trúa því, fyrr en ég sé það í tölum, að veikindadagar séu fleiri úti á landsbyggðinni en í Reykjavík. Og þeir, sem þekkja nokkuð vel til, líta svo á, að þrátt fyrir læknaskortinn úti á landinu sé það svo víðast hvar, að þau mál séu í betra lagi en í flestum öðrum löndum. Þetta byggist á því, að þetta mál hefur gerbreytzt, síðan flugþjónustan kom til sögunnar. Það var minnzt á það hér áðan, að menn þyrftu kannske að bíða í hálfan mánuð eða lengur eftir spítalaplássi úti á landinu. Skyldi þetta ekki koma fyrir á þéttbýlu svæðunum líka? Því miður gerir það það, og ég held, að það sé fullkomin ástæða til, að fram fari rannsókn á þessum atriðum, vegna þess að ef fólkið úti í strjálbýlinu treystir ekki sinni læknisþjónustu, þá þurfum við ekki að búast við, að við getum haldið því þar.

Eitt af því, sem mikið hefur verið rætt hér, er verzlun og vöruverð. Ég hef líka þessa sömu sögu að segja utan af landinu og ekki sízt á Austfjörðum, að vöruverð er þar hærra en hér í Reykjavík. Þó finnst mér ekki líklegt, að þetta gildi um alla vöruflokka. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að af matvörukostnaði eru um 80% landbúnaðarvörur og fiskafurðir: Ekki ætti þessi matvara að vera dýrari úti á landi en hér í þéttbýlinu. Um húsnæðið, sem er dýrasti liður vísitölunnar, er það vitað mál, að húsnæðið er ódýrara úti í strjálbýlinu heldur en í þéttbýlinu, og enda þótt megi auðveldlega reikna það út, að dýrara sé að byggja hús úti á landi, þar sem flutningskostnaður er mikill, þá er það bæði samkv. auglýsingum og upplýsingum, að það virðist svo, að þeir byggi hagkvæmar úti á landinu og það kosti minna að byggja sér hús úti á landsbyggðinni heldur en hér í þéttbýlinu. Þetta er ósköp órökrétt, ég viðurkenni það, en nýlegar auglýsingar um ný hús til sölu hálfgerð úti á landi hafa einmitt sannfært okkur um þetta, og ég veit þarna fleiri dæmi þess, að hagkvæmni og minni spenna í atvinnulífi gerir þetta mögulegt. Þar að auki er sú sérstaða um landsbyggðina, svo að við höldum okkur við verzlunina, að þar er verzlun fyrst og fremst í höndum fólksins sjálfs og ekki bara verzlunin, heldur siglingar líka. Annað stærsta siglingafyrirtæki landsins, sem á einmitt lítil og hentug skip til vöruflutninga út um landið, er félag fólksins eða Samband ísl. samvinnufélaga. Mér virðist því, að þarna séu öll skilyrði fyrir ódýra flutninga og hagstæða verzlun. Þessi skip eru gjarnan í eigu og skrásett frá stöðum úti á landinu, og ég get ekki annað séð en þarna séu einmitt mjög góðir möguleikar á beinum flutningum milli útlanda og landsbyggðarinnar.

Það er ótal margt fleira, sem mig langaði til að minnast á í þessu sambandi, en meginatriðið finnst mér vera þetta, að ég hef þá trú eftir allnáin kynni af fólki úti á landi og stöðum úti á landinu, að þar sé ekki verra að búa heldur en hér við Faxaflóa. Ég tek þó undan þá staði, þar sem atvinnuleysi hrjáir fólkið, en sem betur fer er það undantekning nú orðið. Hins vegar er aldrei hægt að líkja eftir þéttbýli í strjálbýli. Við getum ekki flutt þjóðleikhúsið okkar út á hvern bæ, og við getum ekki heldur gert fólkinu eins auðvelt fyrir úti á landsbyggðinni að stunda ýmsar íþróttir og ýmsar tómstundir og hægt er að gera hér í þéttbýlinu. En ýmislegt annað kemur í staðinn. Þeir, sem vinna aðalstörfin hér í Reykjavík, skrifstofuvinnu og iðnaðarvinnu, þurfa gjarnan að bæta klukkutíma við sinn vinnutíma til þess að stunda svonefnt „trimm“ eða aðrar íþróttir. En þjálfun líkamans fylgir gjarnan störfunum úti á landinu, og hvað sem íþróttir eru vel stundaðar, þá munu þær aldrei komast í heilsufarslegu tilliti í námunda við eðlilega lýjandi vinnu.

Í öðru lagi held ég, að það sé öruggt, að streita mun ekki gera eins mikið vart við sig hjá fólki, sem býr í strjálbýli, eins og því, sem býr í þéttbýli. Streitan hefur bæði andlega og líkamlega áreynslu í för með sér og þreytu, sem öllum er til ama og skaða.

Þá er eitt, sem er okkar stóra vandamál hér í þéttbýlinu, en sem betur fer ber minna á úti á landsbyggðinni, og það eru svonefnd unglingavandamál og ýmis önnur félagsleg vandamál, sem fjölbýlinu fylgja. Þetta eru kannske vandamál, sem er miklu torveldara að leysa heldur en það, hvort vantar eina verksmiðju eða hvort vantar leikhús. M. a. af þessum orsökum er örugglega æskilegt og sjálfsagt að gera allt, sem unnt er, til þess að hamla á móti mikið stækkandi þéttbýli hér á þessu svæði.

Ég held, að ég gæti lengi haldið áfram að telja upp ýmsa þætti, sem ættu að gera ungu fólki fýsilegt að búa úti á landsbyggðinni. En eins og er, er það ekki auðvelt, og ég vil taka undir það, sem síðasti ræðumaður sagði, að eitt af þeim alvarlegu vandamálum, sem við er að stríða þar, er nú þrátt fyrir allt húsnæðisleysi. Og þetta húsnæðisleysi stafar af því, að íbúarnir þar hafa ekki þorað að festa fé sitt í húsnæði á staðnum, heldur byggja þá, eins og hann sagði, frekar hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Ég lít svo á, að það sé of langt að bíða með aðgerðir í þessu efni eftir því, að Breiðholtsframkvæmdirnar séu búnar. Ég held, að jafnvel mætti fá nokkra úrbót, ef t. d. sú breyting væri gerð á húsnæðismálalögunum, að sveitarstjórnum yrði heimilað að byggja næstu árin verkamannabústaði, við skulum segja 4–5 á ári á hverja 1000 íbúa, sem væru fram yfir það, sem þeim er heimilt samkv. núgildandi lögum, og nota þessa bústaði ýmist til leigu eða selja þá, eftir því sem tækifæri gæfist til. Ég sé ekki annað en þetta sé eitt af þeim málum, sem er einna nauðsynlegast, að verði kippt í lag á mörgum stöðum á landinu sem allra fyrst. En mest af öllu held ég þó, að það verði að gera landslýð ljóst, að það er gott og hagstætt heilsu, andlegri og líkamlegri, að búa úti á landinu. Ég held, úr því að m. a. stendur í stjórnarsáttmálanum, að það eigi að hafa áróður fyrir breyttu gildismati, þá eigi ekki bara að líta á mölina og göturnar og malbikið, heldur á hreina loftið, á náttúruna og á rólegheitin og skortinn á streitunni og ýmsa þá kosti, sem fylgja strjálbýlinu yfirleitt.