21.03.1973
Efri deild: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

204. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég get tekið undir hinar almennu hugleiðingar hv. 3. þm. Austf. um húsnæðismálin og það, sem hann sagði almennt um þýðingu þess, að ekki sé gengið á rétt strjálbýlisins í þeim efnum. Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvort það væri rétt, að verkalýðsfélag gæti samið um það, að verulegum hluta af ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar væri ráðstafað til eins sveitarfélags. Ég gerist ekki formælandi þess, að það séu rétt eða eðlileg vinnubrögð út af fyrir sig. En það kom nefnilega meira til. Það kom til, að þetta var lögfest. En þetta var ekki lögfest sem sérákvæði um Reykjavík, heldur sem almennt ákvæði. Að vísu var upphaflega samið um þetta eða gert ráð fyrir, að þetta gilti einungis um Reykjavík. En eftir að málum var þannig komið, var sérstök n. af hálfu ríkisins sett í að ræða málið nánar. Í nefnd þessari voru Jóhannes Nordal, Eggert G. Þorsteinsson og ég, fyrir hönd ríkisstj. En fyrir hönd verkalýðssamtakanna voru Hannibal Valdimarsson, Eðvarð Sigurðsson og einhver þriðji mætur forustumaður þeirra. Ég hreyfði því strax á vettvangi þessarar n., að það yrði sett almennt ákvæði. Og ég vil taka það fram, að undir það var tekið hinum megin við borðið af Hannibal Valdimarssyni og engin barátta gegn því. Það var samstaða um það á þessum vettvangi, að það yrði almennt ákvæði, þannig að það er ekkert að athuga við formið að því leyti. Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira í tilefni þess, sem 3. þm. Austf. sagði.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þessi ákvæði um húsnæðismálin hefðu verið flækt svo á undanförnum árum, að furðu sætti. Þetta virtist bera vott um það, að hann væri ekki inni í málunum. En ég hygg, að ég geti sagt mínum ágæta vini, hv. 1. þm. Vestf., að þetta sé misskilningur. Þetta er ákaflega einfalt mál. Ef hann gæfi sér tíma til að lesa þessa löggjöf yfir er ég sannfærður um, að þetta reyndist ekki neitt myrkviði fyrir hv. þm. Hins vegar er náttúrlega þýðingarmikið að kynna sér gildandi lög, sérstaklega ef menn eru að gera till. um breyt. á löggjöfinni.

Þá var nokkur misskilningur hjá hv. þm., að ég hefði sagt, að ástandið varðandi verkamannabústaðina hefði versnað í tíð núv. ríkisstj, í þeim skilningi, að núv. ríkisstj. hefði staðið fyrir löggjöf til þess að gera ástandið lakara. Það er ekki rétt. Það er hins vegar rétt, sem hv. þm. sagði, að hann var meðflm. með mér að till., sem var borin fram á síðasta þingi og samþykkt, um að greiða fyrir byggingu verkamannabústaða. En það, sem ég átti við, var, að sveitarfélögin stæðu verr að vígi vegna rýrnandi tekjustofna til þess að standa undir sínum hlut af þessum nauðsynlegu og þörfu framkvæmdum.

Hv. þm. gaf nú víst í skyn, að hann mundi ekki breyta því, sem hann sagði um Sauðárkrók, um ástæður fyrir því, að Sauðárkrókur hefði hætt við að byggja samkv. ákvæðunum um Breiðholtsframkvæmdir. Það gerir svo sem ekkert til. Þetta er ekkert stórmál. Ég ráðfærði mig við hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, sem var félmrh. þá, og ég á sama tíma meðlimur í húsnæðismálastjórn. Við töldum, að við mundum þetta rétt. En þetta er algert aukaatriði.

Ég vil taka fram, sem ég sagði áður, að það er virðingarvert, að hv. þm. skuli hreyfa húsnæðismálum í hvaða mynd sem það er, þó að því kunni að vera ábótavant. Ég vil einnig benda þessum hv. flm. á það, að ef þeir hafa trú á því, að ákvæði frv. þeirra hafi þýðingu til frambúðar fyrir landsbyggðina, hefði farið betur á því, að till. þeirra hefði miðast við slíkt, en hefði ekki verið um það að setja inn aðeins bráðabirgðaákvæði í lögin. Auðvitað þarf að athuga þetta eins og fjölmargt annað í sambandi við þetta mál.