21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2663 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Jóhann Hafstein; Herra forseti. Hæstv. félmrh. hringdi í mig um sexleytið í gær og hafði þá sent mér og ég var að fá í hendur frv. það, sem hér liggur fyrir og var þá í prentun, og mæltist til þess, að við vildum sýna vilja á því, að þetta frv. gæti fengið skjóta afgreiðslu í þinginu. Og um sama leyti, eða um sexleytið í gær, átti hæstv. forsrh. viðræður við okkur formenn stjórnarandstöðunnar og með sams konar tilmælum um það, að við reyndum að greiða fyrir skjótum framgangi málsins. Ég tók — og við báðir reyndar — þessum tilmælum vel, og ég sagði við hæstv. félmrh., að þetta yrði athugað með velvilja. Við munum ekki telja eftir okkur að starfa að þessu máli í dag og í kvöld og fram á nótt, ef því er að skipta, og skiljum vel tilmæli hæstv. ríkisstj. um að reyna að hraða framgangi málsins.

En áður en málið fer í nefnd, get ég ekki orða bundizt um það, að alveg er það með ólíkindum, hvernig þetta blessaða frv. er. Það er ómögulegt fyrir hv. þm. á nokkurn hátt að átta sig á því, hvað í þessu frv. felst. Við eigum að greiða atkvæði um frv., sem staðfestir samninga, sem ekki eru lagðir fyrir, en eiga hins vegar að staðfestast með breytingum, sem koma fram í fskj. Hvernig breytingarnar eru, vitum við ekki. Það hefði ekki mátt minna vera en að sjálfir samningarnir, sem verið er að breyta, væru líka fskj. með slíku frv. Engu að síður hefði sennilega verið mjög erfitt fyrir hv. þm. að átta sig á málinu. En það er minnsta krafa, sem ég held að þm. með réttu geti gert, að frv. fylgi grg., sem skýri fyrir þeim í stórum dráttum, hvað um er að ræða. Fram hjá því er líka gengið.

Ég hef nú, meðan ég hef verið að hlusta með öðru eyranu á ræðurnar, notað hin skilningarvitin til þess að fara yfir álitsgerð og upplýsingar um þetta mál frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem hæstv. forseta hefur borizt og er gert ráð fyrir að komi í hendur þeirrar n., sem fær málið til meðferðar. Auðvitað situr hæstv. ríkisstj. inni með allan þann kunnugleika og allar þær upplýsingar, sem í þessum skjölum eru, og henni hefði verið innan handar að láta þm. í té með frv. og láta fylgja því slíkar upplýsingar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, því að ég vil ekki tefja málið. En ég minnist þess ekki nokkurn tíma í langri þingssögu að hafa þurft að meðhöndla frv., sem er eins ófullkomið að öllum frágangi og efnismeðferð og þetta frv., sem við eigum hér að greiða atkv. um. Frv. fer nú til n., og n. munu berast þessar upplýsingar.

Ég sagði hæstv. forsrh. frá því í gær, að ég mundi þegar gera ráðstafanir til þess, að menn úr þingflokki Sjálfstfl. færu fyrir hádegi í dag til þess að afla sér efnislegra upplýsinga um málið, og hefur sennilega ekki veitt af, því að ekki er þeirra að leita í frv. sjálfu. Þeir voru í allan morgun fyrir hádegi að reyna að setja sig inn í málið, eftir því sem þeir gátu, og ég vænti þess, að n. fái svör við þeim fsp., sem þm. hafa lagt fram í þeim umr., sem fram hafa farið, þó að við þurfum að vera langt fram á nótt við afgreiðslu slíks máls. Það verður þá ekki hægt að segja eftir á, að það hafi ekki legið fyrir, áður en krafizt er, að endanleg afgreiðsla fari fram á málinu nægjanlegar upplýsingar til þess að gera okkur sómasamlega grein fyrir efnisafstöðu í málinu.

Á þessu stigi málsins get ég með engu móti spáð neinu um það, hver afstaða okkar verður. Það fer fyrst og fremst eftir þeirri efnismeðferð, sem málið fær í n., og þeim upplýsingum, sem okkur í þingflokknum berast frá nm. Við þurfum að gera ráðstafanir til þess, að þingflokkur sjálfstæðismanna sé tiltækur til þess að ræða við okkar nm., Nd. menn, og væntanlega verða sameiginlegir fundir nm. úr Ed. og Nd., þegar þeir eru búnir að ræða á nefndarfundum um málið, til þess að þeir geti fengið tækifæri til að bera sig saman við okkur og við fengið þær upplýsingar, sem þeir fá í n. Af þessu sjá menn, að þetta er allt dálítið erfitt viðfangs. Við teljum ekki eftir okkur, af því að málið er mjög alvarlegt, að gera okkar ítrasta til þess, að það geti fengið sómasamlega efnislega meðferð í þinginu, en það hefði auðvitað verið allt miklu auðveldara viðfangs, ef málið hefði verið með öðrum tilbúnaði en raun ber vitni um.