21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem nú er, aðeins örfá orð af gefnu tilefni.

Hæstv. sjútvrh. lét þess getið, að samningar við undirmenn á togurum hefðu náðst með þeim hætti, að ríkisstj. hefði lýst því yfir, að hún mundi brúa það bil, sem verið hefði á milli samningstilboða undirmanna og útgerðarmanna. Mér er nær að halda, að útvegsmenn hafi túlkað orð hæstv. forsrh. með nokkuð öðrum hætti en þarna kemur fram, svo mjög, að þegar að því kom, að reynt var til hins ítrasta að ná samningum við yfirmenn, þá töldu þeir sig svo mjög svikna af þeim loforðum, sem þeir töldu, að sér hefðu verið gefin, að þeir voru ófáanlegir til þess að treysta framar á slíkt. Hann lét þess getið einnig, hæstv. sjútvrh., að hið sama hefði verið uppi, þegar reynt var að ná samningum við yfirmennina, en þá hefði strandað á útvegsmönnum, þeir hefðu ekki viljað taka því boði, að ríkisstj. brúaði bilið. Ég hygg, að ég fari ekki með annað er rétt mál, þegar ég fullyrði, að það var vegna þess að þeim þótti sem þau loforð, eins og þeir túlkuðu þau a. m. k., sem hæstv. forsrh. hafði gefið, hefðu ekki gefizt á þann veg, að þeim væri með nokkru móti stætt á því að gera sér vonir um, að þau loforð nægðu til þess, að þeir næðu viðunanlegum grundvelli í sitt mál.

Hæstv. sjútvrh. sagði, og ég hygg, að ég hafi það nokkurn veginn orðrétt, að það sé allt annað mál um að ræða kjarasamninga þessa og svo fjárhagsgrundvöll útgerðarinnar. Hann getur þó ekki átt við það, hæstv. ráðh., að kaupliðurinn í útgerð fyrirtækjanna skipti engu máli. Er þetta e. t. v. truflun frá þeirri stefnu eða skoðun, sem hæstv. forsrh. lét í ljós við vinnuveitendur í kjaradeilunni 1971, að þeir skyldu bara steypa sér fyrir borð, þó að ekki sæi til lands. Að sjálfsögðu er það grundvallaratriði, þegar vinnuveitendur eiga að semja um kaup og kjör, varðandi undirskrift og samningsgerð alla, að það liggi fyrir eða þeim sýnist, að þeir hafi nokkra möguleika til þess að standa við þær skuldbindingar, sem þeir gera með þeim hætti, og að fyrirtæki þeirra verði yfirleitt rekin. Þetta hlýtur öllum að vera augljóst mál. Og hann tók það einmitt fram í þessu sambandi, að sér væri óskiljanlegt, hversu lengi hefði dregizt að ná samningum.

Það er að vísu of mikið sagt, að efni samninganna sjálfra hafi ekki verið allþýðingarmikið atriði í þessu sambandi. Það er vissulega of mikið sagt. En ég hygg, að þetta hefði allt orðið skammvinnara og jafnvel ekki þurft að koma til þessa verkfalls í jan. eins og gerði, ef ríkisstj. hefði treyst sér til þess að taka öðruvísi á þessu máli en raun ber vitni um. Því hefur ekki verið neitað af neinum, að bæði reynsla s. l. árs og þær spár, sem gerðar hafa verið um útkomuna næsta ár, eru með þeim hætti, að allmjög verður að koma til móts við þennan atvinnurekstur, ef hann á ekki að stöðvast.

Að endingu þetta varðandi það, sem hæstv. sjútvrh. sagði undir lok ræðu sinnar, að hann sæi enga ástæðu til fyrir útgerðarmenn að neita að gera út skip sín. Það munu útgerðarmenn vissulega aldrei gera. Ég þekki engan með því skaplagi. Allir munu þeir reyna að sækja sjóinn eftir mætti. En það eru til þeir aðilar, sem þeir stjórna ekki, og það er t. d. fjármálavaldið í landinu, og ég á þá við í þessu bili, ef maður treystir því ekki, að fundinn verði grundvöllur af hálfu ríkisvaldsins og þetta styrkt með þeim hætti, sem duga mun, þá eru til þeir bankar, aðallega viðskiptabankarnir, sem algerlega geta skotið loku fyrir það, að útvegsmönnum verði fært að gera út. Þetta er afar augljóst og einfalt mál. Og þið getið ímyndað ykkur, hv. þm., hvar þessi 99 millj. kr. halli muni standa yfirleitt. Hann hlýtur að meginhluta til að vera óreiðuskuldir hjá viðskiptabönkunum. Og það skyldi ekki vera, að þolinmæði viðskiptabankanna væri á þrotum, af því að útvegsmenn geta ekkert nýtt lagt fyrir viðskiptabanka sína, sem talið verður, að muni breyta frá þeim grundvelli, sem blasir við í dag. Ef útvegsmönnum væru fengnar upp í hendur einhverjar breytingar, eitthvað handfast til þess að leggja fyrir viðskiptabankana, þá er ég sannfærður um, að viðhorfið mundi mjög breytast.

Aðeins varðandi það, sem hæstv. félmrh. gat um, að hann vildi ekki gera mikið úr því, að þarna væri tekið upp tilboð yfirmanna og lagt til, að lögfest yrði, þar sem þetta hefði verið lokaboð yfirmanna. Hann er enn þá eldri í samningagerðum en ég, og var ég þó viðriðinn þær í ein 15 ár, og hann veit, að við vitum aldrei, hvað verður kallað lokaboð í þessum málum, svo að það er út af fyrir sig engin afsökun. Ég hef ekki enn fengið, en nú vænti ég þess, af því að mér sýndist, að hæstv. forsrh. væri að biðja um orðið, að ég fái nú skýr svör við þessu tvennu, sem ég spurði um: Með hvaða hætti voru yfirlýsingar hans um stuðning við útgerðarmenn gefnar, og enn fremur, hvers vegna var ekki gerð að því gangskör, að það yrði borin fram málamiðlunartill. í máli þessu? Miklu geðfelldara og skapfellilegra í allra handa máta hefði það verið að leggja hana fyrir hér til samþykktar heldur en þetta lokatilboð, sem kallað er, af hálfu yfirmanna.