22.03.1973
Efri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. til l. um kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum, sem eru stærri en 500 rúmlestir brúttó, er, eins og hv. þdm. er kunnugt, komið frá hv. Nd., þar sem það hlaut afgreiðslu s. l. nótt mótatkvæðalaust. Frv. varðar lausn verkfalls yfirmanna á togurum. Meginefni þess er, að það skal taka til allra þeirra, sem eru aðilar að kjarasamningum dags. 1. marz 1971. Að þeim samningum eru þessir aðilar: Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og aðrir eigendur slíkra skipa annars vegar og hins vegar Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fyrir hönd Vélstjórafélag Íslands, Félags ísl. loftskeytamanna, Skipstjóra og stýrimannafélagsins öldunnar, Skipstjóra og stýrimannafélagsins Kára og Skipstjórafélags Norðlendinga. Þetta eru aðilarnir að þeim samningum, sem þetta frv. tekur til og gefur lagagildi.

2. gr. frv. segir að mestu til um efni Þess, en þar segir, að þeir samningar, sem um er rætt í l. gr., ásamt breytingum þeim, sem getið er í fskj. I-III, sem prentuð eru með frv., skuli gilda sem samningar á milli aðila frá gildístöku þessara laga og til 31. des. 1973.

3. gr., það var nokkurt álitamál, hvort nauðsynlegt væri að hafa hana, þar sem efni hennar er til í gildandi lögum þ. e. a. s. í l. um stéttarfélög og vinnudeilur, vinnulöggjöfinni. Gr. var þó sett inn í frv. og er um það, að verkbönn og verkföll, þ. á. m. samúðarverkföll, eða aðrar aðgerðir í því skyni að knýja fram aðra skipun kjaramála en þessi lög ákveða, séu óheimil.

Hér með er rakið efni þessa frv. Meginefni þess er þó máske í fskj. I-III, en þar er nákvæmlega sagt til um það, hvaða breytingar verði á þeim samningum, sem vitnað er til í 1. gr. þess.

Með frv. fylgir auk fskj. I-III yfirlýsing, svo hljóðandi, það er fskj. nr. IV:

„Það staðfestist hér með, að ríkisstj. hefur samþ. að greiða útgerðarfélögum hinna stærri togara sérstakar aukagreiðslur á árinu 1973 vegna nýrra kjarasamninga við yfirmenn sem hér segir:

1. Ríkissjóður greiði sem nemur 0.10% af kauphækkun yfirmanna af aflahlut, enda verði sú kauphækkun alls 0.20% í aflahlut hvers manns.

2. Ríkissjóður greiði einnig þá kauphækkun, sem yrði vegna ákvæða um fækkun skipshafnar frá 24 á skuttogurum og 26 á síðutogurum og sem næmi 0.075% á mann.

Þetta verði fyrir fram metið fyrir hvert skip á sanngjarnan hátt.

Reykjavík, 16. marz 1973.

Lúðvík Jósepsson,

Halldór E. Sigurðsson:“

Með þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh., sem ég nú las, er sú deila, sem hér um ræðir, deilan milli togaraeigenda og yfirmanna á togurum, leyst án annarra fjárhagsbyrða á útgerðina en þeirra fjárhagsbyrða, sem útgerðarmenn höfðu áður gert tilboð um að taka á sig. Ríkissjóði er sem sé ætlað að brúa bilið á milli aðilanna með líkum hætti og gert var, þegar hásetaverkfallið leystist nú fyrr í mánuðinum og fékk farsællega lausn með samningum beggja aðila. Ég vil vænta þess, að svo verði á litið, að með þessari lausn sé á hvorugan aðilann hallað, heldur komi ríkissjóður með þessari lausn báðum aðilunum til hjálpar við lausn þessarar hvimleiðu og langdregnu vinnudeilu.

Samningaumleitanir og tilraunir hafa staðið lengi yfir. Hefur sáttasemjari ríkisins haft milligöngu um þessar sáttatilraunir og ríkisstj. skipað honum til aðstoðar sáttanefnd, skipaða af þeim Ragnari Ólafssyni hrl. og Guðlaugi Þorvaldssyni prófessor. Þrátt fyrir allar þeirra tilraunir til að sætta aðila og finna lausn að venjulegum hætti við samningaborðið, hefur það allt verið unnið fyrir gýg að því er virðist, a. m. k. hefur ekki náðst lausn á verkfallinu, deilan heldur enn áfram.

Það er skoðun mín, að þessu verði ekki unað lengur en orðið er og beri því brýna nauðsyn til að binda endi á þessa vinnudeilu. Hún er þegar orðin þjóðinni til vansa. Hana ber að á tímum, þegar þjóðin hefur orðið fyrir hverju efnahagsmálaáfallinu á fætur öðru, síðast nú með atburðunum í Vestmannaeyjum, sem hafa vakið slíka samúð með Íslandi út um allan heim, að okkur hefur borizt hjálp í stórgjöfum frá nálægum og fjarlægum þjóðum sem þjóð, sem sé í nauðum stödd. En þá segir sig sjálft, að það lítur ekkert fallega út, að sú þjóð sjálf haldi atvinnutækjum sínum bundnum í höfn og beiti þeim ekki til fjáröflunar fyrir þjóðarbúið.

Ég hygg að það sé ekki deiluefni á hv. Alþ. að þessa deilu verður að leysa, og fyrst enginn möguleiki hefur fundizt til þess að leysa hana með eðlilegum hætti við frjálst samningaborð, þá verði löggjafinn að grípa þar inn í og leysa hana með lagaafskiptum.

Það, sem mér virðist athyglisverðast í umr. í Nd. í gær og á liðinni nóttu, er einmitt það, að allir virtust vera sammála um, hversu alvarlegt mál hér væri á ferðinni, það væri orðið þjóðfélagslegt vandamál, sem yrði að grípa inn í og leysa með löggjafarafskiptum. Ég minnist þess t. d., að hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sagði í ræðu sinni, að það væri fyllilega orðið tímabært að gera allt, sem unnt væri, til þess að binda endi á deiluna. Þá sagði hv. 7. þm. Reykv. í umr. í gærkvöld fyrir sjálfan sig og sinn flokk, að hann væri reiðubúinn til að stuðla að samþykkt frv. að fengnum vissum upplýsingum, sem hann svo tilgreindi, því að það væri orðið þjóðarnauðsyn, að deilan yrði leyst. Og hv. 4. þm. Austf. kvað alla þrá þann dag, er skipin sigldu úr höfn. Loks sagði 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, í upphafi nál., sem hann og Ólafur G. Einarsson, hv. alþm., gáfu út: „Við undirritaðir nm. teljum það þjóðarnauðsyn, að togaraflotinn komist á veiðar. Virðist óhjákvæmilegt, að löggjafarvaldið taki í taumana og leysi þann vanda, sem allt of lengi hefur bakað þjóðinni geysilegt tjón:“

Þannig bar allt að sama brunni í umr. í hv. Nd. í gær og í nótt. Menn voru einhuga um nauðsyn þess að leysa málið með afskiptum löggjafans, úr því að ekki hefði tekizt lausn á því með öðrum hætti. Menn voru sammála um, að allar samningaleiðir hefðu verið þrautreyndar og annarra kosta væri ekki völ. En niðurstaða allra var þessi, deiluna verður að leysa.

Samt voru deilur um málið, ekki er því að leyna. Það voru deilur um það, hverjar leiðir væru færastar til lausnar málinu. Það var aðallega tvennt nefnt, sem hefði að sumra áliti verið æskilegra. Hv. 5 þm. Reykv., og sjálfstæðismenn yfirleitt töldu, að gerðardómsleiðin hefði verið heppilegri og bæri að reyna hana. Ég get upplýst það, að meðan málið var á viðræðu- og samningastigi, reyndu sáttasemjari og sáttanefnd eindregið að fá aðilana til að tilnefna menn í gerð til að leysa deiluna, fá hana leysta með frjálsum gerðardómi. En báðir aðilar höfnuðu því. Einnig var því mjög haldið að aðilum á vissu stigi, að málið yrði leyst með lögþvinguðum gerðardómi, og er því ekki að leyna, að báðir aðilar snerust mjög fast gegn því. Fulltrúar yfirmanna, einkanlega vélstjórarnir, höfðu það við orð, og það var metið svo, að mjög mikil alvara væri á bak við, að þeir mundu, ef slíkum aðferðum væri beitt til lausnardeilunni, án þess að fenginn væri nokkurn veginn efnislegur málefnagrundvöllur til lausnar, þá neyta aðstöðu sinnar til að segja upp störfum og leita starfa annars staðar, sem ekki væri vandi að fá nú. Að þessu hvoru tveggja athuguðu sýndist mönnum, að gerðardómsleiðin væri ekki fær, enda ýmsir þeirrar skoðunar, að hún sé ekki fýsilegasta leiðin.

Annar möguleiki, sem nefndur var, var sá, að sáttanefnd gerði miðlunartill. í málinu. Þessi spurning. var borin fram fyrir sáttasemjara ríkisins. og sáttanm., sem einnig voru staddir á fundi með félmn. beggja d. í gærkvöld. Svar sáttasemjara var það, að hann hefði svo sannarlega hugleitt þá um leið líka, en hann hefði talið, að það hefði verið gersamlega útilokað að finna miðlunartill., sem nokkrar minnstu líkur hefðu verið til, að báðir aðilar fengjust til að samþykkja, en án þess verður tilgangi ekki náð með miðlunartill. Hann sagði, að það hefði legið alveg ljóst fyrir, að togaraeigendur hefðu ekki getað fallizt á neitt það, sem hann og sáttanefnd hefði treyst sér til að bera fram í miðlunartillöguformi, og þannig hefði sú leið að sínu mati verið lokuð.

Báðar þær leiðir, sem teknar voru í mál í hv. Nd. fremur en sú leið, sem hér er lagt til, að farin verði, höfðu þannig verið gaumgæfilega athugaðar og ekki taldar færar af þeim mönnum, sem um málin fjölluðu.

Í umr. í Nd. var líka mjög um það rætt, að það vantaði upplýsingar. Það var hv. 7. þm. Reykv., sem einkanlega vék að því í sínum ræðum að það væru ekki tölulegar upplýsingar um það, hver yrðu kjör yfirmanna á togurunum, ef þetta frv. yrði samþ. Þetta mál var líka rætt á hinum sameiginlegu fundum félmn. í gær og spurningum um þetta beint að þeim, sem mættir voru á fundinum. Allir vita og sjá af fskj. frv., að verulegur hluti af kjörum yfirmanna á togurunum er bundinn við hundraðshluta af aflaverðmæti og sá hluti tekna þeirra er háður aflamagni. Er því ógerningur að segja neitt um eða gefa upplýsingar um, hvaða hlutur í krónutölu kemur í hlut yfirmannanna á togurunum, af því að það er háð hinni óþekktu stærð, aflamagninu. Enginn getur því heimtað, að menn geti sagt til um, hver kjörin verði í krónum talið.

Enn annað atriði var það, sem lagt var mikið upp úr að fá upplýst, og það var, hvaða hlutfall yrði á milli yfirmanna og undirmanna, ef frv. væri samþ. Þar vakti fyrir mönnum það, hvort þessi lausn, sem frv. felur í sér og fskj. þess, breikkaði bilið milli kjara undirmanna og yfirmanna. Einkanlega var þessum spurningum beint að sáttanefndinni, hvort hún hefði kannað þetta. Það var álit sáttasemjara ríkisins, Torfa Hjartarsonar, að eftir því sem hann gæti metið, það miðað við meðalaflamagn, þá teldi hann, að kjarabætur hásetanna og undirmannanna á togurunum væru samkv. þeirri lausn, sem þeir hefðu fengið í samningum, meiri en sú kjarabót, sem yfirmennirnir fengju samkv. frv., og bilið mjókkaði þannig heldur en breikkaði við þessa lagasetningu. Enda er mér kunnugt um það, að mjög var búið að reyna á það til þrautar að fá yfirmennina til að slaka svo mikið á kröfum sínum, að þetta bil breikkaði ekki, því að okkur þótti öllum, að það væri ranglátt að auka þetta bil. Einn af sáttanm. orðaði svarið við spurningunni um hlutfallið milli yfirmanna og undirmanna á þann, veg, að því aðeins að um mikinn afla væri að ræða og skipshöfn væri fámennari en hinar föstu tölur, 24 og 26, gæti í vissum kringumstæðum farið svo, að bilið breikkaði, en í venjulegum rekstri, miðað við fasta, umsamda tölu skipshafnar og miðað við aflabrögð, teldi hann, að bilið mjókkaði fremur en breikkaði.

Ég minnist ekki, að í umr. í gær og nótt í Nd. væri annað, sem væri verulega umdeilt en þessi atriði, sem ég hef nú nefnt. Sýnir það, að ágreiningurinn var alls ekki um það, hvort rétt væri að leysa þetta verkfall með lagaboði, heldu um einstök atriði og leiðir til lausnar.

Niðurstaðan, sem þetta frv. leiðir til, er þannig fengin, að á fundum með togaraútgerðarmönnum var byggt á því, að þeir tækju við lausn vinnudeilunnar á sig þær fjárhagslegu byrðar, sem þeir höfðu ítrast boðið við samningaborðið og frammi fyrir sáttasemjara og sáttanefnd. Það, sem umfram þyrfti að taka á sig af fjárhagslegum skuldbindingum til þess að mæta þeim lágmarkskröfum, sem yfirmenn á togurum vildu hins vegar sætta sig við, skyldi ríkissjóður taka á sig. Niðurstaða málsins er því sú, eins og það hér liggur fyrir hv. d., og það er efni frv. og fskj. þess að lögfesta lokatilboð yfirmanna á togurunum og gefa því tilboði þeirra samningsgildi. Ég tel, að málið liggi mjög einfalt fyrir hv. d., því að þetta er niðurstaða þess, og þurfi ekki að fjölyrða meira um það. Ég vænti þess svo, að hv. d. hraði afgreiðslu málsins eftir föngum. Það hefur fengið athugun sameiginlega í félmn. beggja d., og finnst mér því líklegt, að við ættum að geta, þrátt fyrir að við gæfum okkur fullnægjandi tóm til viðræðna um málið, lokið afgreiðslu þess nú í dag. Er það von mín, að svo verði.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr.