22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt út af fyrir sig, þó að þm. geri athugasemd út af því, að þeim þykir dráttur hafa orðið á málum. Hins vegar er með öllu óeðlilegt að menn fari út í efnisumr, um það mál, sem fyrir liggur, í sambandi við það, en á því fannst mér örla hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni.

Út af því, sem hér hefur verið sagt, vil ég segja það, að ekki skal standa á neinum upplýsingum frá Landhelgisgæzlunni í þessu sambandi, og það er auðvelt að snúa sér annað hvort til mín eða dómsmrn, og óska eftir því, að þær upplýsingar, sem þörf þykir vera á, séu í té látnar. Og það þarf ekki að vefjast fyrir neinum, að það er þörf á fé í þessu skyni.

Ég vil upplýsa það, úr því að farið er að tala um þetta, að ég hef fyrir nokkru skipað nefnd þriggja manna til að kanna og athuga um kaup, leigu eða byggingu á skipi til Landhelgisgæzlunnar. Í þessari nefnd eiga sæti, Pétur Sigurðsson forstjóri, Egill Sigurgeirsson hrl. og Óttar Karlsson skipaverkfræðingur. Það er alveg rétt, sem hv. þm., sem síðast tók hér til máls, sagði, að það hefur verið dráttur á fleiri málum en þessu eina. Ég minni á, að ég hygg, að það sé hátt upp í það eins langt síðan ég lagði fram frv. um fangelsi og vinnuhæli, sem var tekið ákaflega vel hér á þingi og stjórnarandstæðingar lýstu yfir fylgi við, en það hefur ekki verið afgreitt enn úr nefnd.