29.03.1973
Efri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Jón Árnason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti hv. menntmn. allmargar brtt. við það mál, sem hér er nú til umr., og voru þær brtt. allar samþ. Þá lá einnig fyrir, eins og hér hefur komið fram, brtt. á þskj. 370 frá hv. 6, þm. Reykv. og brtt. á þskj. 364 frá hv. 5. þm. Vestf. ásamt mér. Till. á þskj. 364 voru teknar til baka til 3. umr., en aðrar brtt, gengu yfirleitt til atkv. Nú hefur hv. þm. Ragnar Arnalds flutt brtt. við frv. enn á ný, sem hann flytur einn á þskj. 461, og einnig skrifl. brtt., þar sem hann hyggst gera bragarbót á afgreiðslu Alþ. við 2. umr. þessa máls. Sem sagt, hv. þm. vill halda því hér fram, að Alþ. hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað það var að afgreiða, þegar hv. d. samþykkti brtt. á þskj. 370, 1. tölulið. 6. gr., þar sem kveðið er á um, að til leikskóla skuli ríkisstyrkurinn vera 50% af áætluðum stofnkostnaði. Sams konar till. höfðum við flutt á þskj. 364, 2. tölul. b, þar sem lagt er til, að í stað 25% komi 50%. Ég hygg, að þarna sé um svo skýr ákvæði að ræða, að menn geti varla villzt á um, þeir hafi vitað, hvað þeir voru að gera, þegar þeir réttu upp höndina um málið. Og ég minnist þess sérstaklega vegna þess, að þá var endurtekin atkvgr. um þessa till. og ég spurði hv. 1. þm. Vestf., — hann er nú því miður ekki hér inni í d., — hvort það væru einhver mistök í þessari afgreiðslu hjá þeim í stjórnarflokkunum. Nei, hann sagði, að það væri síður en svo, það væru nokkuð skiptar skoðanir um þetta, en hann væri á því út af fyrir sig, að það ætti að vera 50% þátttaka ríkisins í stofnkostnaðinum, og ég vænti, að hann hafi ekki skipt um skoðun.

Það kemur mér einkennilega fyrir sjónir, ef hv. d. fer að breyta ákvörðun sinni um það, að hið opinbera skuli vera þátttakandi í byggingu leikskólanna um 50%, eins og samþ. var við 2. umr. málsins.