29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

207. mál, Laxárvirkjun

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst koma hér á framfæri þremur leiðréttingum, sem því miður hafa slæðzt inn í grg. frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 391. Það er í fyrsta lagi á bls. 3 í grg. undir því, sem stendur úr 49. gr. vatnal., í 1. línunni þar. Þar stendur orðið „óskum á að vera „öðrum: Á 4. bls. við önnur greinarskil í 2. línu, stendur, að gufuaflsvirkjunin í Bjarnarflagi sé 1500 kw, átti að vera 3000 kw. Og loks á 6. síðu í efstu línu stendur: um 1900 kw, auk 6500 kw 1. áfanga, átti að standa: um 19 000 kw alls með 650 kw 1. áfanga.

Herra forseti. Enda þótt ég hefði kosið að geta mælt fyrir þessu frv. svo að hæstv. orkumálaráðh. gæti verið við, þá verð ég að sæta því að ræða um þetta frv. þótt fámennt sé í d. og ráðh. ekki við, þar sem ég er að hverfa af þingi. En frv. það, er hér liggur fyrir til umr., fjallar um Laxárvirkjun við Brúar í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er endurgerð á Laxárvirkjunarlögunum frá 1965 vegna breyttra aðstæðna og breyttra tíma. Meginbreytingarnar, sem lagt er til í frv., að gerðar verði, eru þessar:

Í fyrsta lagi, að Laxárvirkjun verði sameign ríkis, Akureyrarkaupstaðar, Húsavíkurkaupstaðar, Þingeyjarsýslna og Eyjafjarðarsýslu, í stað sameignar ríkis og Akureyrarbæjar eins og nú er. Þykir eðlilegt, að íbúar orkuveitusvæðisins alls séu eignaraðili að virkjuninni, þar eð á herðum þeirra sem neytenda hvílir virkjunarkostnaður í raun. Eins og er eru eignarhlutföll Akureyrarkaupstaðar og ríkisins nú 65 á móti 35, en eiga samkv. núgildandi l. að verða 50 á móti 50 að lokinni þeirri 6,5 megawatta virkjun, sem nú er nær lokið, en átti raunar lögum samkv. að verða 12 mw, áður en helmingseign yrði. Hér þykir mér rétt að koma því að, að mér vitanlega hefur ríkið lagt það eitt af mörkum til þess að verða helmingseigandi Laxárvirkjunar að útvega og ábyrgjast sum lán til hennar, en notendur á orkuveitusvæðinu hafa að öllu staðið undir afborgunum og vöxtum lánanna.

Í öðru lagi er lagt til, að Laxárvirkjun verði heimilað að full ljúka Laxárvirkjun III, svo að kostnaði við I. áfanga hennar, sem nú er að ljúka, verði ekki að verulegu leyti kastað á glæ, þar sem það liggur óumdeilanlega á borðinu, að með fulllúkningu Laxárvirkjunar III er lang fljótgerðast og ódýrast að bæta úr bráðum orkuskorti á orkuveitusvæðinu, ef ekki Norðurlandi öllu.

Samkv. núgildandi lögum er heimild til að virkja 12 mw í Laxá auk þeirra 12 mw, sem virkjuð höfðu verið, er lögin voru sett. Nú er að ljúka virkjun 6,5 mw af þeim 12, er l. heimila, en núv. stjórnvöld virðast andvíg því, að lengra sé haldið. Hér er lagt til, að heimildin sé rýmkuð, svo að virkjunin geti alls orðið í Laxá 32 mw í stað 18,5, eins og hún verður að lokinni 6,5 mw virkjun þeirri, sem nú er að ljúka.

Í þriðja lagi er lagt til í frv., að í lög verði sett, að eigi sé horft til meiri virkjana í Laxá en Laxárvirkjunar III, nema síðar náist um það samkomulag héraðsbúa og stjórnvalda. Þetta er svo orðað til þess að eyða tortryggni þeirra héraðsbúa, sem óttast vatnaflutninga og hærri stíflur en Laxárvirkjun III gerir ráð fyrir, en lögbinding ætti að vera þeim meira virði en samningar, að enginn minnist á nauðungar samninga.

Í fjórða lagi er í frv. lagt til, að Laxárvirkjun skuli hafa samráð við náttúruverndarráð Þingeyjarsýslu og náttúruverndarráð Íslands um landsnyrtingu umhverfis mannvirki sín í Laxár gljúfrum og við Mývatnsósa. Dylst vafalaust engum, að samvinna náttúruverndar og mannvirkjagerðar er nauðsynleg og sjálfsögð, en sjálfsögðust þó á náttúrufögrum stöðum, svo sem hér um ræðir.

Loks skal getið þeirrar breytingar frá gildandi Laxárvirkjunarfögum, að Laxárvirkjun er eftir frv. lögð sú kvöð á herðar að láta ábúendum Laxárdalsjarða ókeypis rafmagn í té til venjulegra heimilisnota, ljóss, hita og suðu. Þetta er ekki umtalsverður peningur fyrir virkjunina en er eðlilegasta og sanngjarnasta uppbótin til ábúenda í Laxárdal, ef einhver spjöll kynnu að hljótast af uppistöðulóni við 23 metra stíflu, og treysta öðru betur búsetu á Laxárdalsjörðum.

Aðrar breytingar frv. á Laxárvirkjunarl. eru nánast aðeins samræmingarbreytingar, svo að þær þarf varla að skýra, en annars vísast nánar til skýringa í grg. á frvgr.

Eins og rakið er í grg. þessa frv., hafa tvær virkjanir farið fram í Laxá við Brúar í Suður-Þingeyjarsýslu. Var sú fyrri 4 000 kw, eingöngu reist af Akureyrarbæ og gengur undir heitinu Laxárvirkjun I, en hin 8 þús. kw, nefnd Laxárvirkjun II, reist af ríki og Akureyrarbæ, þótt bærinn beri raunar allan veg og vanda af og eignarframlag ríkisins væri aðeins á pappírnum, þótt á eftir teldist eignarhluti ríkisins 35%.

Fyrir um 7 árum var síðan tekið að hugleiða alvarlega, hvernig mæta skyldi fyrirsjáanlegum orkuskorti á Laxárvirkjunarsvæðinu, og var að lokum staðnæmzt við virkjun í Laxárgljúfrum aðeins ofar núv. virkjunum. Var hún hönnuð af Sigurði Thoroddsen verkfræðingi og hlaut nafnið Gljúfurversvirkjun. Átti Laxárvirkjun að henni lokinni að veita allt að 65 mw orku, en Gljúfurversvirkjun byggðist m. a. á því, að bergvatnsánni Suðurá, er fellur í Skjálfandafljót, yrði að hluta veitt um Krákárfarveg um Mývatnssveit í Laxá. Í Laxárgljúfrum yrði reist 57 m há stífla og stórt miðlunarlón myndað í neðanverðum Laxárdal. Þessi virkjun virtist mundu vera mjög hagkvæm hvað kostnað og nýtingu snerti.

Þegar kunnugt varð um þessa virkjunarfyrirætlun, komu fljótlega fram allmiklar efasemdir meðal heimamanna í Þingeyjarþingi. 1) Fylgdi hin 57 m háa stífla vatnsþunga miðlunarlónsins í Laxárdal, og hver yrðu örlög blómlegrar byggðar í Aðaldal, ef lónið hlypi fram yfir hana? 2) Yrði ekki Laxárdalur lagður í eyði með myndun miðlunarlónsins? 3) Ylli það ekki spjöllum á Mývatnssveit að veita hluta Suðurár um Kráká til Laxár?

Allt voru þetta skiljanlegar efasemdir, og í héraði tóku að koma fram ýmsar ábendingar. Búnaðarfélag Þingeyinga, formaður Hermóður Guðmundsson í Arnesi, mótmælti hærri stíflu en 20 metrum í Laxárgljúfrum. Úr Mývatnssveit bárust andmæli gegn vatnaflutningum úr Suðurá til Laxár, og svo til allir búendur í Reykjadal eða Reykdælahreppi skoruðu á Laxárvirkjunarstjórn að halda sér aðeins við fullvirkjun Laxár við Brúar, en Laxárvirkjun III mætir nánast öllum þessum kröfum eða óskum, því að hún reiknar ekki með vatnaflutningum, aðeins með 23 m stíflu, og ekki stærra miðlunarlóni eða uppistöðulóni en svo, að engin bújörð í Laxárdal bíður umtalsvert tjón af.

En áður en málið komst á hönnunarstig Laxárvirkjunar III, hafði mikið tundur verið borið að þessu máli, eins og alkunna er, og verða þau ósköp ekki rakin hér. Nú held ég, að mikill þorri manna, sem um skeið lét blekkjast af Finnagaldrinum, sem beitt var gegn virkjunarmálinu, sé farinn að sjá, að margt var þar missagt, viljandi og óviljandi. Eftir stendur óhaggað, að Laxárvirkjunarsvæðið er í bráðum orkuskorti og fljótvirkasta úrræðið, ódýrasta úrræðið og það, sem öllum þorra notenda á virkjunarsvæðinu gezt bezt að, er fulllúkning l.axárvirkjunar III, en fyrir henni skortir lagaheimild að hluta, sem með frv. þessu er leitazt við að afla.

Þegar er hin svonefnda og raunalega Laxárdeila stóð sem hæst, hugkvæmdist hinum harðvítugu virkjunarandstæðingum það herbragð að stofna Landeigendafélag við Laxá og Mývatn og fékk ríkið og Laxárvirkjunarstjórn til að líta á félagið sem viðsemjanda um virkjunarframkvæmdir. Veit ég ekki betur en ríkið eigi um 1/4 hluta þeirra jarða og jarðahluta, sem lönd eiga að Laxá og Mývatni, og að sá jarðeigandi, ríkið, hafi aldrei gengið í né átt kost á að ganga í þetta Landeigendafélag, en sleppum því. En nú hefur ríkið eytt nær 4 árum í það að ná samkomulagi við stjórn þessa félagsskapar um virkjun í Laxá, og nýverið hefur fengizt samkomulag, ef samkomulag má kalla, svo að flesta, sem til þekkja og heyra, rekur í rogastanz. Hvers konar málsmeðferð er þarna á ferð? Hvers konar meðferð á almannafé er þar um hönd höfð? Hver er réttur hins almenna raforkunotenda í málinu? spyr almenningur um Vaðla- og Þingeyjarþing.

Enda þótt samkomulagsvilji ríkis sé allra góðra gjalda verður innan skynsamlegra marka, er það vægast sagt mjög umdeilanlegt, að Landeigendafélag Laxár- og Mývatnsbænda sé gildur aðili að virkjunarmáli þessu, því að ríkið og Laxárvirkjun eiga allt það land og hafa á sinni hendi virkjunarrétt Laxár, þar sem virkjunin á að gerast, en vatnalög kveða þannig á um þetta atriði í 49. og 50. gr.

Úr 49. gr. vatnalaga: „Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkv. III. og IV. kafla (vatnsnotkun til heimilis- og búþarfa, iðnaðar og iðju), né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi:

Og úr 50. gr.: „Rétt er eiganda landareignar“ — í þessu tilfelli ríki og Laxárvirkjun — „að gera stíflu í vatnsfarvegi og veita vatni úr eðlilegum farvegi, hvort sem er um opinn skurð, pípu eða jarðgöng, ef nauðsynlegt er vegna vatnsorkunota samkv. 49. gr., enda séu ekki gerðar skemmdir á landi annarra manna um nauðsyn fram. Eigi má veita meira vatni úr eðlilegum farvegi í þessu skyni en þörf er á, en öllu skal því veitt í fornan farveg, áður en landareigninni sleppir, nema samlög séu milli fleiri landareigna um orkuvinnslu:

Umráðaréttur ríkisins og Laxárvirkjunar á Laxá fyrir landi sínu er þannig óumdeilanlegur samkv. vatnal. Leyfi til að reisa stíflu og veita ánni úr farvegi sínum er líka óumdeilanlegt samkv. þessum sömu l., enda sé henni veitt í fornan farveg, áður en landareigninni sleppir, og er hvergi gegn þessu brotið. Samt hefur forráðamönnum Landeigendafélagsins verið látið haldast uppi að tefja brýnar framkvæmdir í virkjunarmálum Norðlendinga öllum til stórtjóns. Við þetta bætist, að nú hafa þessir virkjunarhindrendur heimtað stórfelldar skaðabætur í eigin vasa og málþófskostnað auk fiskvegar frá Neðri-Laxá upp í Efri-Laxá, þangað sem lax hefur aldrei gengið. Virðist almenningi orðið ofríkið nokkuð valdamikið í landinu, ef færa á því á silfurdiski bætur fyrir ósannaðan skaða, málþófskostnað fyrir að hindra löglegar virkjunarframkvæmdir í almannaþágu og loks búa því ókeypis fiskveg milli ólíkra lífkerfa árinnar. Er nú svo komið, að fjölmörgum kjördæmisbúum á Norðurl. e. finnst sjálfsagt, að höggvið sé á þennan vandræðahnút með lagasetningu, þar sem Laxárvirkjun III sé leyfð og látið á það reyna, hvort nokkurt tjón hlýzt af, sem bótavert þykir að dómi óvilhallra matsmanna.

Eins og áður getur, hafa tvær virkjanir verið reistar í Laxá við Brúar, Laxárvirkjun I, 4000 kw og Laxárvirkjun II, 8 000 kw. Nær lokið er og 1. áfanga Laxárvirkjunar III, og á hann að gefa 6 500 kw orku. Eftir er þá að reisa hina umdeildu 23 m stíflu og vélbúa virkjunina til að nota það aukna afl og vatnsjafnvægi, sem stíflan gefur. Laxárvirkjun III mun þá geta gefið um 19 000 kw, og sjá þá væntanlega allir, hvílík fásinna er að hætta Laxárvirkjun III að loknum aðeins 1. áfanga, þeim raunverulega dýrasta, en nota ekki þá fljótgerðustu og ódýrustu lausn á bráðum orkuskorti að ljúka II. og III. áfanga, enda segir stjórnarblaðið Þjóðviljinn 25. þ. m., að þá hafi 240 millj. kr. verið varið þar til einskis.

Auk hinna 12 000 kw þegar virkjaðra í Laxá og 6500 kw nær virkjaðra í Laxá á Laxárvirkjun 3000 kw gufuaflstöð í Bjarnarflagi í Mývatnssveit og 7500 kw díselrafstöð á Akureyri. Þessa olíurafstöð hefur orðið að keyra nær linnulaust að fullu, svo dýr raforkuframleiðsla sem það er, en beri nokkuð út af með rennsli Laxár, en misrennsli í henni óx við það, að stíflumannvirki voru sprengd fyrir nokkru við Mývatnsósa, svo sem frægt varð, þá verður orkuskortur á virkjunarsvæðinu, og var svo t. d. dögum saman í vetur til stórtjóns atvinnulífi og mikilla óþæginda í heimilishaldi almennings. Þarf enda ekki annað en minna á hinn myndarlega verksmiðjurekstur SÍS á þessu svæði, 7 hraðfrystihús einnig á þessu svæði, auk blómlegs smærri iðnaðar ýmiss konar, til að gera öllum ljóst, hve orkuskorturinn ógnar miklum verðmætum.

Nú hefur Norðlendingum verið lofað rafmagni frá Sigölduvirkjun, sem enn er óhafin og ekki vitað, hvenær verður byrjað á. Einnig stendur yfir byrjunarathugun á línustæði norður frá hinni fyrirhuguðu Sigölduvirkjun, en alls óvíst, hvenær henni þyki fulllokið. Nú setur það geig í margan Norðlendinginn, að stórbilanir urðu í vetur á háspennulínu frá Búrfellsvirkjun til Reykjavikur, svo að orkuþurrð varð af. Hvernig verða Norðlendingar settir með raforku sína leidda um langan veg sunnan yfir fjöll, ef sú lína bilar á reginsöndum í stórviðri? spyrja margir með kvíða. Hvar verða þeir staddir með iðnað sinn, hvar með framtíðarhorfur um aukna iðnaðarframleiðslu, hvar með öryggi um rafmagn til húsahitunar, búrekstrar og venjulegra heimilisnota? Verða þeir neyddir til að búa sjúkrahús og viststofnanir sér díselrafstöðvum, svo að lífshættu af skyndilegri bilun á raflínum verði bægt frá? Hvað á hin 100 millj. kr. dýra raflína, sem á s. l. hausti var lögð frá Akureyri til Skagafjarðar, að standa lengi ótengd og öllum gagnslaus vegna þess, að orka fyrirfinnst engin til að flytja?

Nú kann einhver, sem á mig hlustar, að spyrja: Getur þetta verið, að þessi lína hafi virkilega verið lögð og ekki tengd og kostað svona mikið? Jú, þetta var einn liðurinn í hinni nýju stefnu í raforkumálum, markaðri af núv. ríkisstjórn.

Því verður ekki trúað að óreyndu, að löggjafarvald þjóðarinnar telji sér þetta mál óviðkomandi, nú þegar það er komið í algera sjálfheldu. Væri ugglaust skynsamlegt að þm.-nefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, brygði sér hið hvatasta á Laxárvettvang og kynnti sér málið af eigin raun og gæfi alþ. skýrslu. En viðbragðsfljót þarf sú n. að vera. Málið þolir enga bið.

Nú kann einhver að spyrja: Hví kemur þú svo seint fram með þessa frv.-lausn? Því er fljótsvarað. Ég hef ekki fram að þessu trúað öðru en að viðunandi, skynsamleg lausn fengist í máli þessu undir forsjá ríkis og Laxárvirkjunarstjórnar.

Það mun hafa verið árið 1970, sem Bjartmar Guðmundsson fyrrv. alþm. og mjög eindreginn andstæðingur Gljúfurversvirkjunar ritaði mjög greinagóða og viturlega grein í Morgunblaðið um Laxárvirkjun og Laxárdeilu. Benti hann þar á málamiðlunarleið í stórum dráttum, Laxárvirkjun III. Ég sem ákveðinn Gljúfurversvirkjunarmaður leit svo á, að hér væri fundið skynsamlegt bil beggja og viðunandi lausn á orkuskortinum um næstu ár fyrir Norðurl. e. og í bili jafnvel fyrir Norðurl. v. Þessar ábendingar Bjartmars áttu almennan hljómgrunn í öllu Norðurl. e., jafnt í bæ og byggð, þótt að sjálfsögðu væru andstæðuhópar til beggja hliða. Hefðu þm. kjördæmisins borið gæfu til að beita sér sameiginlega fyrir þessari lausn á Laxárvirkjun, væri málið ugglaust komið í höfn. Því miður var þessu ekki að heilsa.

Nú berast okkur fréttir af algerri uppgjöf Laxárvirkjunarstjórnar í Laxárvirkjunarmálinu fyrir hinum tilbúna gagnaðila, stjórn Landeigendafélagsins, þar sem með hjálp ríkisvaldsins er kné látið fylgja kviði og ekkert sinnt, þótt slíkt kosti alþjóð í fyrsta lagi 240 millj. kr. fjársóun í byrjunarvirkjun, sem ekki fæst fullgerð, og í öðru lagi hundruð millj. dýrari raforkuútvegun fyrir Norðurland, þegar hún loks kemur, sem enginn veit nú, hvenær verður. Þetta er víst hin nýja, ágæta stefna í raforkumálum, sem Þjóðviljinn kynnti svo 25. þ. m. Það er þetta glapræði, sem ég freistaði að róa í gegn með frv.-gerð þeirri, sem hér um ræðir. Það er þessi nauðungarsekt, sem ég andmæli með frv. þessu. Ég vil láta rödd allra þeirra á Norðurl. e., sem finnst Laxárvirkjun III skynsamlegasta lausnin á orkuskorti okkar um sinn, heyrast á alþ., jafnvel þótt allir þm. kjördæmisins horfi í gaupnir sér, meðan alþýða manna þar er beitt bolabrögðum í orkumálum. Kannske hef ég líka þá trú á skynsemi og raunsæi stjórn valdanna í orkumálum, að þau hafi vit fyrir kappgirninni og valdgleðinni á síðustu stundu.

Ég legg svo til, að máli þessu verði að lokinni umr. vísað til iðn.n.