31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

42. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá stjórn Síldarverksmiðja ríkisins eða framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins varðandi þessa fsp.:

„Vegna fsp. yðar í bréfi hinn 26. þ.m. skal upplýst, að vér höfum áformað að taka á móti loðnu í verksmiðjum vorum á komandi vertíð. Í því sambandi höfum við m.a. tryggt oss viðskipti við eigendur 700 tonna skips, sem nýlega hefur verið keypt í Noregi og er sérstaklega byggt til veiða á bræðslufiski. Á s.l. sumri tókum vér á móti rúmlega 600 tonnum af kolmunna í verksmiðju vorri á Reyðarfirði frá m/s. Eldborgu, sem styrkt var til kolmunnaveiða. Gaf vinnsla kolmunnans það góða raun, að ástæða er til að halda, að veiði á kolmunna geti orðið arðbær, einkum með tilliti til þess, að stærri skip og betur búin eru væntanleg til landsins.“

Svar mitt við þessari fsp., sem hér liggur fyrir, er því í aðalatriðum byggt á þessum upplýsingum frá forstjóra Síldarverksmiðja ríkisins. Verksmiðjurnar hafa nú gert sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að tryggja sér viðskipti við loðnuskip á komandi vertíð, m.a. gert samning við eitt stórt og væntanlega afkastamikið skip. Ráðgert er, að það landi meginhlutanum af veiði sinni væntanlega í verksmiðjunni á Reyðarfirði eða í verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins. Það verður áfram unnið að því að gera tilraunir með kolmunnaveiði á næsta sumri. Aðstæður allar eru betri nú en þær voru á s.l. sumri, þar sem verð á fiskmjöli hefur hækkað stórlega. Ég tel því, að það megi heita tryggt, að einhver starfsemi verði í Síldarverksmiðjum ríkisins í sambandi við slíka veiði á komandi sumri. Ætti m.a. þetta nýja skip, sem verksmiðjurnar hafa gert samning við, að geta lagt þarna upp nokkurt hráefni.