04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3022 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Jónsson beindi til mín þeirri spurningu, hvaða ráðstafanir væru gerðar til að koma í veg fyrir misnotkun á atvinnuleysisbótum. Ég verð að viðurkenna, að ég er vanbúinn að svara þessari fsp. í sjálfu sér, en þó hygg ég, að ákvæðin, sem hv. þm. minntist á um afnám biðtíma, stuðli einmitt að því, eins og hann sagði, að koma í veg fyrir, að menn hafni skammtímaverkefni, vegna þess að það dragi það, að þeir fái rétt til atvinnuleysisbóta. Ég hef eins og þessi hv. þm. heyrt sögur um það, að atvinnuleysisbætur séu misnotaðar, og vafalaust er hægt að finna dæmi um það. Ég hygg, að það sé mjög erfitt að finna nokkurt kerfi, sem komi í veg fyrir, að félagslegar tryggingar í þágu ákveðins hóps þjóðfélagsins sé hægt að misnota á einn eða annan hátt. Ég held, að það sé mjög erfitt að koma í veg fyrir þetta, og ef menn reyna að koma gersamlega í veg fyrir það, yrði að byggja upp eitthvert ákaflega flókið og erfitt kerfi, sem mundi fara að nálgast lögregluríki. Ég hygg, að enginn okkar hafi áhuga á neinu slíku. Hins vegar er sjálfsagt, að ákvæði um þetta séu sem skýrust og menn finni fyrirkomulag, sem stuðlar að því, að misnotkun verði alla vega sem allra minnst. En það eru ekki í þessu frv. nein sérstök ný ákvæði til að koma í veg fyrir slíka misnotkun. Ég hygg, að það verði að leggja áherzlu á það við þá, sem fara með framkvæmd laganna í verki, að þeir reyni, eins og þeir eru menn til, að koma í veg fyrir allt slíkt.

Hv. þm. Páll Þorsteinsson vék að 4. gr. frv., en þar er gildissvið laganna aukið. Fellt er niður það ákvæði, að lögin taki aðeins til kaupstaða og kauptúna með 300 íbúa eða fleiri. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að það nái til landsins alls. Heimild til þessa hefur verið í gildandi lögum, og eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, hafa ráðherrar notfært sér þessa heimild, þegar tilefni hafa verið til. Í þessu felst því í sjálfu sér ekki ýkjamikil efnisbreyting frá þeim vinnubrögðum, sem verið hafa að undanförnu. Hv. þm. spurði um gjaldskyldu bænda. Hann spurði, hvort bændur væru gjaldskyldir, ef þeir réðu sér mann til þess að vinna við húsbyggingu. Mér virðist það vera alveg ótvírætt, að í slíku dæmi sé bóndinn gjaldskyldur, enn fremur ef um er að ræða þau störf í þágu ræktunarsambands, sem hv. þm. vék að. Þetta sýnist mér alveg ótvírætt. En mér finnst sjálfsagt, að sú n., sem fær málið í hendur, kanni það sérstaklega, hvort þarna geti verið um að ræða eitthvert álitamál.

Að öðru leyti vil ég þakka þeim tveimur þm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir jákvæðar undirtektir við þetta frv. í heild.