31.10.1972
Neðri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

22. mál, málflytjendur

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Gildandi lög um málflytjendur eru frá árinu 1942. Var þá í fyrsta sinn sett almenn löggjöf um starfsemi málflutningsmanna, en áður höfðu meginreglur um störf þeirra verið í lögum um hæstarétt frá 1935 og í lögum um meðferð einkamála í héraði frá 1936. Engar verulegar breytingar hafa verið gerðar á lögunum á þessu 30 ára tímabili frá 1942. En stjórn Lögmannafélags Íslands hefur um nokkurt skeið talið æskilegt, að lögin yrðu endurskoðuð. Er og sízt að undra, að einhverra breytinga sé þörf, þar sem miklar breytingar hafa orðíð á aðstöðu á þessum 30 árum. Lögmönnum befur fjölgað og störf stjórnar Lögmannafélagsins orðið vandasamari og umfangsmeiri.

Ég mun nú ekki fara að rekja efni þessa frv. lið fyrir lið, en vil leyfa mér að benda á, að breytingarnar frá gildandi lögum, sem ráðgerðar eru í þessu lagafrv., eru sérstaklega tvær, sem ég vil benda á.

Í fyrsta lagi er sú breyting gerð á meðferð agavalds stéttarfélags lögmanna, að í stað þess, að stjórn Lögmannafélagsins fer nú með agavaldið, þá er með frv. sérstakri stofnun, svokölluðum lögmannsdómi, falið að fara með úrskurðarvald um ágreining um endurgjald fyrir málflutningsstarf lögmanns, og fer hann með sektarvaldið. Hins vegar er stjórn félagsins áfram falið að hafa almennt eftirlit með starfsháttum félagsmanna. Um þennan lögmannsdóm eru fyrirmæli í 10. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að hann sé skipaður þremur mönnum, tveimur frá málflutningsmönnunum sjálfum eða lögmönnunum, en auk þess formanni, sem skipaður á að vera af Hæstarétti til þriggja ára í senn, og varaformanni til sama tíma. Bæði formaður og varaformaður skulu fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaðir í fast dómaraembætti. Ég tel þetta ákvæði út af fyrir sig allveigamikið.

Í öðru lagi er í frv. lagt til, að felld verði niður málflutningsprófraun héraðsdómslögmanna, en svo sem nánar er lýst í grg. frv., hefur prófraunin ekki haft þá þýðingu í reynd að vera staðfesting á staðgóðri starfsreynslu próftaka, því að þess eru mörg dæmi, að röskir lögfræðingar hafa lokið prófraun örfáum mánuðum eftir háskólapróf. Er því ráðgert í frv., að tveggja ára starfsreynsla a.m.k. komi í stað prófraunar. Er talið, að með þessu móti verði betur tryggt, að lögfræðingur hafi öðlazt næga reynslu til að geta starfað sjálfstætt, er hann hlýtur lögmannsréttindin. Engin breyting er hins vegar gerð á reglunum um prófraun til þess að öðlast leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti, að því undanskildu, að samkv. gildandi l. má þreyta raun þrisvar, en samkv. ákvæði frv. aðeins tvisvar. Ráðgert er að fella niður sérstaka heimild um, að héraðsdómslögmenn megi flytja mál fyrir Hæstarétti, en þeir, sem öðlazt hafa þann rétt, skulu þó halda honum.

Það er auk þessa, sem ég hef drepið á, rétt að geta til viðbótar tveggja ráðgerðra breytinga annarra. Samkv. ákvæðum frv. er lögð skylda á héraðsdómslögmenn um að hafa opna skrifstofu, en sú skylda hvílir nú aðeins á hæstaréttarlögmönnum. Þá er skylda lögð á lögmenn um að tilkynna stjórn Lögmannafélagsins, er þeir ráða fulltrúa eða aðra lögmenn í þjónustu sína, svo og þegar þeirri ráðningu lýkur. Samsvarandi skylda er lögð á stofnanir eða félög, sem hafa embættisgenga lögfræðinga í þjónustu sinni og hyggjast notfæra sér heimild til að láta þá fara með mál fyrir héraðsdómi.

Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að fara að rekja nánar efni frv. Það er að öllu verulegu byggt á þeim l. um málflytjendur, sem ég vísaði til, en þó gerðar þessar talsvert veigamiklu breytingar, sem ég hef drepið á, og auk þess ýmsar minni háttar breytingar.

Ég vil geta þess, að frv. þetta er samið af Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara, en hann hefur langa reynslu bæði sem dómari og málflutningsmaður.

Það hefur stundum borið við, að kastað hefur verið steinum að lögmannastéttinni á undanförnum árum. Ég hygg, að þar hafi stéttin fremur goldið einstakra einstaklinga, en að stéttin í heild eigi skilið þau áfellisorð, sem stundum hefur verið að henni beint. En hvað um það, þá er það svo með þessa stétt, að almenningur hefur og þarf mikið saman við hana að sælda, og það er mjög æskilegt og nauðsynlegt, að hún njóti trausts og að henni sé sem bezt búið að því leyti til, að það komist ekki að óeðlileg tortryggni í garð stéttarinnar. Ég tel, að frv. og sérstaklega ákvæðin um lögmannsdóm miði í þá átt.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv, allshn.