06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

5. mál, orkuver Vestfjarða

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 3. ágúst í fyrra voru gefin út brbl., sem fólu í sér, að ríkisstj. var heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Dynjandisá eða Mjólká í Arnarfirði til raforkuvinnslu í orkuverum með allt að 10 þús. kw. framleiðslugetu. Breytingin frá gildandi lögum var sú að í gildandi lögum var miðað við 7 þús. kw., en hækkunin var upp í 10 þús. kw. samkv. þessum brbl. Í fyrra var tekin ákvörðun um virkjun Mjólkár, og í þeirri ákvörðun fólst virkjun, sem nam 8.400 hestöflum. Hún var þannig örlitlu stærri en gildandi lög frá árinu 1954. Jafnframt var talið nauðsynlegt af sérfróðum mönnum, að hægt yrði að hefjast handa við vinnu í þessu sambandi í hálendishéruðum þar vestra, vegna þess að þar er starfstími ákaflega stuttur, og til þess að flýta þessari virkjun eftir megni var talið nauðsynlegt, að hægt væri að vinna nokkur undirbúningsverk þegar á síðasta hausti. Af þessari ástæðu var tekin sú ákvörðun að gefa út brbl. um þessa stækkun virkjunarinnar úr 7 þús. kw. í 10 þús., og þær framkvæmdir, sem ráðgerðar voru, fóru fram á s. l. hausti. Um þessa ákvörðun, hygg ég, að í sjálfu sér sé enginn ágreiningur, og hygg, að ekki sé ástæða til þess að fjalla frekar um fyrirkomulag þessarar virkjunar á þessu stigi, en legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.