09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3266 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tel, að með máli þessu sé á margan hátt um eina einstæðustu málsmeðferð að ræða í þingsögu síðustu ára, þar sem um er að ræða frv. af þessari stærð og af þeirri efnisgráðu, sem hv. frsm. vill telja, að það sé, og ég tek undir með honum, að sé. Það er lagt fram í dag á fundi í hv. d., hér hafa verið nær óslitnir fundir síðan og þm. hv. d. hafa ekki haft tíma eða tækifæri til þess að lesa frv. yfir og við auk þess horft á það hér í þingsal, að ekki nema 6 eða 7 hv. þm. hafa getað gefið sér tækifæri til að hlusta á framsöguræðu hv. 1. flm. og ræðu hæstv. sjútvrh. Tel ég, að þeir hafi talið sér nauðsynlegt að taka sér eitthvert frí til þess að lesa frv., og vil leggja til við hæstv. forseta í fyrsta lagi, að hann frestaði frekari umr. um málið til morguns, þannig að menn gætu kynnt sér frv., eða þá í öðru lagi af gefa kaffihlé til þess að smala þm. saman, til þess að þeir fylgdust þó með þessu þýðingarmikla máli, sem varðar þjóðarheill Íslendinga inn á við og út á við um ókomin ár, eins og mér skildist á hv. frsm. — Er nokkur möguleiki á því, að við gerðum nokkurt hlé, herra forseti? (Forseti: Það var hugmyndin að reyna að ljúka umr. í kvöld. Ég hygg, að það séu nú fleiri þm. í húsinu.) Það mætti þá kannske nota bjölluna.

Ég skal þá verða við tilmælum forseta, ef hann er svona ákveðinn að ná þessu þjóðhagslega þýðingarmikla máli fram. Ég tel það vera reginhneyksli, m.a. vegna þess, sem kemur fram í grg. frv., að það hafi verið haft samband við alla þm. Jú, rétt er það. Ég bendi t.d. á boðun okkar þm. Reykv. á fund þessarar n., sem virðist auk þess alls, sem áður hefur skeð í hennar starfi, eiga að fá einhvern sjálfsákvörðunarrétt um það samkv. till. hv. frsm. og hæstv. ráðherra, hvaða mál verði tekin til greina, ef þm. leyfa sér að koma með brtt., hvort þeir eigi að segja já eða nei um það, hvort þær till. eigi að koma fram eða ekki og jafnvel kannske fram fyrir þm. aftur til atkvgr. Ég skil eiginlega ekki, hvaða vald þessir menn virðast telja sig vera búnir að fá. En ég veit, að það er rangt, þegar því er haldið fram, að það hafi verið haft fullt samband við þm. allra kjördæma. Við þm. Reykv. vorum boðaðir með mjög stuttum fyrirvara til tveggja funda. Á fyrra fundinum var okkur sagt frá því, hvað þessi hv. n. væri búin að hugsa sér að passaði fyrir okkur og aðra landsmenn, eftir að þeir voru búnir að taka til greina þau hagsmunasjónarmið, sem þar höfðu komið fram frá þm. annarra kjördæma. Þegar síðari fundurinn var haldinn, hafði það skeð í millitíðinni, að hér í hv. d. hafði verið lagt fram frv. af 6 þm. frá nær öllum þingflokkum, að undanteknum þeim minnsta, þar sem nokkuð var gengið til móts við það, sem taldir voru hagsmunir þeirra, sem búa við innanverðan Faxaflóa. Á þessum seinni fundi, sem var boðað til með jafnstuttum fyrirvara, hafði auðvitað engin breyting orðið hjá þessari hv. n. gagnvart hagsmunum nær helmings þjóðarinnar, en hins vegar er enn þá haldið við hagsmuni lítils hluta þeirra, sem búa við það hafsvæði, sem liggur að ströndinni, sem umlykur Faxaflóa. Gott og vel, það má vel vera, að þetta sé sjónarmið út af fyrir sig hjá hv. n. En að tala um það í sömu andrá, að það sé bæði verið að halda uppi friðunar- og hagsmunasjónarmiðum landsmanna, það tel ég alrangt, og þetta á að leiðrétta. Það er haldið uppi friðunarsjónarmiðum algerum hér við Faxaflóann, í Faxaflóanum sjálfum, eins langt og það nær. Það eru friðunarsjónarmið gagavart dragnót og botnvörpu. En það eru hagsmunasjónarmiðin, sem ríkja alls staðar annars staðar við landið, nema þeim aðilum hér á landi, sem gera út hin stærri togskip, er meinað enn frekar en áður hefur verið að nýta fiskimiðin umhverfis landið, sem þeir þó hafa gert um langan aldur. Ég tel líka, að það sé hreinasta firra að reyna að telja nokkrum manni trú um það, hvort sem er innlendum eða útlendum, að við séum að koma á móti einhverjum algerum friðunarsjónarmiðum með því, þótt við bönnum dragnót og botnvörpu. Auðvitað er það ekki neitt friðunarsjónarmið, sem þar er að baki. Þetta eru hagsmunasjónarmið þeirra, sem önnur veiðarfæri nota.

Auðvitað má gera allar þær ráðstafanir, sem þarf til að botnvarpa og dragnót valdi ekki meiri skaða en önnur veiðarfæri, og þess er ég fullviss, að botnvarpa og dragnót geta aldrei valdið þeim skaða, sem þorsknetin valda okkar þorskstofni á vetrarvertíðinni á hrygningartímanum á hrygningarsvæðunum. Það er því hlálegt, þegar hv. n. talar um það, að það séu friðunarsjónarmiðin, sem ríki hjá þeim, og þeirra gól á að heyrast um heim allan, til þess að heyra megi: Jú þarna hafi verið staðið vel að verki og nú séum við komnir á hinn eina sanna grundvöll, sem okkur beri að fylgja í framtíðinni.

Ég tók það fram í byrjun míns máls og mun halda mig við það, að það er auðvitað meir en full ástæða fyrir hv. frsm. og hv. n. að biðjast velvirðingar á seinkun þessa frv. Vinnubrögðin í sambandi við gerð þess eru fyrir neðan allar hellur, hafandi í huga, að það var yfirlýst stefna núv. stjórnarflokka og allra stuðningsmanna þeirra, þegar gengið var til síðustu kosninga, að fiskveiðilögsöguna ætti að færa út 1. sept. Það líða margir mánuðir, þangað til nokkur vinna er framkvæmd í sambandi við undirbúning þess, sem við allir, sem sátum á þingi áður og sitjum nú, og reyndar mundi ég segja meiri hluti landsmanna hefur verið sammála um, að það þyrfti að leggja fram einhverjar till. um, hvernig bezt væri fyrir okkur að hagnýta fiskveiðilögsöguna, þannig að við tækjum til greina bæði staðarsjónarmið og þá kannske undir þeim lið, stærðir skipa, og þá um leið, að hægt væri í sambandi við þessa nýtingu að fyrirbyggja hagsmunaárekstra á milli einstakra skipa eftir því, hvaða veiðarfæri þau notuðu.

Ég man ekki betur en að þegar við féllumst á það á Alþ. að framlengja lögin til 1. júlí, að þá hefði verið tekin fram gagnrýni okkar á þessu. En nú liggur málið fyrir. Og þá leyfi ég mér enn að gagnrýna þann mikla flýti, sem er á hafður um að ljúka þessu máli nú, þessu þýðingarmikla máli, þannig að jafnvel eigi ekki að gefast tækifæri til að senda málið, eins og það kemur fullbúið frá þessari hv. n., til þeirra hagsmunaaðila, sem skilyrðislaust eiga að fá að segja til um sínar skoðanir á þessu frv. Hví þarf að hraða þessu frv. svo mjög nú, þegar við höfum í huga, að gildandi lög eru í gildi til 1. júlí n.k.? Jú, við höfum eitt svar við því. Það þarf endilega að losna við Alþ. heim. Það þarf að vera hægt að slíta Alþ. En er það nokkur afsökun fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihlutann, þegar slíkt mál er annars vegar, að það þurfi endilega að losna við okkur heim, að við megum ekki gagnrýna, megum ekki finna að því, sem fram fer í stjórnarherbúðunum? Við erum þó á launum áfram. Á það hefur verið bent af þessum sömu hv, þm. á undanförnum árum og stuðningsmönnum þeirra, bæði í blöðum og fjölmiðlum. Ég sé ekki annað en það ætti að vera sjálfsögð krafa þm., um leið og þetta frv. gengi sína venjulegu leið til sjútvn., sem að sjálfsögðu, til þess að flýta málinu, gæti þá unnið með þessari umræddu n., sem ég er nú farinn að hafa ákaflega litla trú á, — hún hefur eingöngu hugsað um hagsmunasjónarmið þeirra kjördæma eða ákveðnu kjósenda, sem hún hefur helzt talið sig þurfa að sjá um, að sjútvn. þessarar hv. d. og reyndar Ed. líka vinni þá með henni, en að allir aðilar, sem hagsmuna eiga að gæta, fái málið til umsagnar.

Hv. frsm., hv. þm. Gils Guðmundsson, ræddi um, að það hefði náðst samstaða. Ég hef þegar getið um það, að ég tel, að svo sé ekki. Það hefur ekki náðst nein samstaða við þm. Reykv. í þessu máli, — kannske við einhverja einstaklinga, en alls ekki við þm. hópinn í heild, enda hafa þeir ekki, eins og þeir óskuðu eftir á seinna fundinum, sem þeir mættu á, fengið að sjá neinar till. frá n., fyrr en þeir sjá þetta frv. nú fyrir nokkrum klukkustundum og það síðan tekið til umr. hér með afbrigðum. Svo á að keyra það í gegn, og það á ekki einu sinni að fara til n. Það á að fara til feðra sinna og þeir aftur að unga því út og koma því áfram, líklega til 2. umr. strax á morgun, og þá verður þetta búið annað kvöld. Þessu leyfi ég mér þegar að mótmæla.

Ég hef líka minnzt á það, reyndar oftar í þessum málum um nýtingu fiskveiðilögsögunnar, að ég hef alltaf talið, að það ættu ekki að vera veiðarfærin sjálf, sem að væri ráðizt, nema eins og ég tók fram, þegar ég mælti fyrir því frv., sem ég flutti með öðrum þm. í þessari hv. d. um frekari nýtingu Faxaflóans og þá með hliðsjón af fiskiflota hér úr Reykjavík og næstu byggðum og svo líka með tilliti til hagsmuna þeirra neytenda, sem hér eru, að það ætti auðvitað að taka sérstakt tillit til annarra byggða, sem nota mest önnur veiðarfæri. Þannig hefur það komið fram og er fyllilega skilið af mér, að það eru vissir staðir hér á landi, sem eru með þessa sérstöðu. Það hefur komið fram og var skýrt tekið fram af hv. frsm. áðan, að þannig væri það á Vestfjörðum. En hins vegar, ef þm. þaðan treysta sér til þess að ná samkomulagi innan sinnar byggðar um þetta, þá gott og vel. Ég veit, að það eru líka aðrir aðilar, sem vilja nýta sín skip þannig, að þau geti veitt með botnvörpu og alla vega á ákveðnum tímum.

Ég get vel skilið það, þar sem er áratuga hefð komin á línuútgerð, að þeir vilji ekki vera að hleypa botnvörpungum inn á sín hefðbundnu línusvæði. Hins vegar þykir mér einkennilegt, ef á að hafa í huga og draga að hún sem hið æðsta sjónarmið friðunarsjónarmiðið, af hverju í ósköpunum þá er ekki bæði farið eins að á Hornbankanum norður af Vestfjörðunum eða norður og austur af Melrakkasléttu og austur af Langanesi? Hví í ósköpunum er þá ekki farið í að friða þar allt árið fyrir botnvörpu og dragnót eins og hér í Faxaflóanum? Það er ekki nokkur maður, sem getur borið á móti því, að það sé sama hagsmunaatriðið fyrir okkar fiskstofna að friða það svæði fyrir þessum hættulegu veiðarfærum, ef það eru veiðarfærin, sem eiga að ráða í þessu efni, — að þau séu ekki nákvæmlega jafnhættuleg þar eins og hér í Faxaflóanum. Ég tel, að við þm. verðum þá hreinlega að vera sjálfum okkur samkvæmir og fara víðar í að banna þetta heldur en hér. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram, að með ákveðnum takmörkunum og eftirliti eigi að vera hægt að nýta hvaða veiðarfæri sem er og ekkert þeirra þurfi að vera hættulegra öðru, ef rétt er að farið. Við skulum viðurkenna fyrri syndir í þessu efni, að það hafi ekki alltaf verið rétt að farið. Það er vel hægt að betrumbæta í þessu efni. En við eigum þá ekki að vera að draga út neitt eitt ákveðið svæði í þessu efni. Við skulum þá bara vera hreinskilnir og láta það heyrast og sjást erlendis, að við séum með friðunarsjónarmiðið við hún, en ekki sýndarmennskuna.

Annað atriði hefur verið minnzt á og var minnzt á við þessa hv. n., sem hér hefur verið getið um, að hinum stærri togskipum er samkv. þessu frv. ætlað að fara utar en áður var. Vera má og ég er ekki frá því, að þarna sé kannske nokkuð rétt að farið í sambandi við skiptingu togveiðisvæðanna. Hins verður þó að gæta, og það hefur verið viðurkennt af n., að þetta er ekki alveg svona einfalt. Það er ekki hægt að taka samhliða línur við 9 mílur frá grunnlínu eða 12 mílur og segja, að ákveðin skipastærð á að vera á þessu svæði og önnur stærri skipastærð þar fyrir utan. Auðvitað getur þetta verið ástæðan til þess, að það sé algerlega útilokað fyrir þessi skip að njóta sín vegna göngu fisksins. Og ég er alveg viss um það, að hv. frsm. þessarar n., sem hér talaði áðan, viðurkennir, að þorskurinn hefur ekki hugmynd um, hvað þessi n. var að gera, og veit ekkert um allar þessar línur, sem n. er að leggja til, að hann eigi að fylgja. Auðvitað er það dýpi, straumar og botn, sem kemur til með að segja um það, hvernig togskip geti notað sín veiðarfæri. Hins vegar kemur það fram, að þau togskipin eru talin hættulegust, sem eru stærst. Það er ekki farið eftir því, hvort minna togskip innan einhverrar ákveðinnar stærðar sé það kraftmikið og vel búið, að það geti verið með jafnstórt togveiðifæri og komizt yfir jafnmikinn flöt sjávarbotnsins og hið stærra. Það er ekki farið eftir því af skiljanlegum ástæðum, enda ákaflega erfitt við að fást. En ef þessi togveiðarfæri eru svona gífurlega hættuleg og þessi hv. n. telur, að hin minni togveiðiskip eigi að vera á grunnsvæði, væntanlega vegna þess, að þau hafi ekki möguleika til að nýta sín veiðarfæri á dýpra vatni, og þá kannske líka vegna öryggis þeirra, sem á þessum skipum eru, þá verðum við auðvitað að ætla, að sama eyðileggingarhættan sé af þessu veiðarfæri, þótt minna sé.

Þá bregður svo við í sambandi við sektarákvæðin hjá þessari hv. n., að þau fara lækkandi, eftir því sem eyðingarmöguleikarnir aukast, ef miðað er við það, að mesti möguleikinn til þess að eyðileggja fiskstofnana sé á grynnsta vatninu. Að mínu mati ætti þetta hlutfall algerlega að snúast við. Það ætti ekki að vera mest á skipunum, sem eru úti á því, sem hefur verið kallað á sjómannamáli oft á tíðum ballarhaf.

Ekki gat ég vel skilið hv. frsm., þegar hann var að tala um vandkvæði í stærðarhlutföllum frá skipasmíðalegum sjónarmiðum. Nú minnist ég þess, m.a. vegna verka þessarar n., — og er þó ekki rétt að kenna henni allri um, því að nokkrir nýir kandidatar hafa bætzt þar í nú síðustu tvö árin, — en ég man ekki betur en stærðarhlutföll hafi nokkuð verið mótuð vegna till. þeirrar n., sem starfaði á þessu sviði hér áður fyrr. Hef ég aldrei fundið það út, hvar þeir fundu þá vizku upp að miða þessa stærð við 105 brúttórúmlestir. Ég hefði talið, að það hefðu alveg eins getað komið til greina 70 brúttórúmlestir og jafnvel, eins og smáútvegsmenn hafa talað um, 50, 45 brúttórúmlestir, og náttúrlega færi það nokkuð eftir því, hvar þeir störfuðu með sín skip. En þessi vísa n. fann það út á sínum tíma, að allt að 105 tonnum skyldi þessi hin minnsta stærð vera. Og nú talar hv. form. n. um vandkvæði í stærðarhlutföllum frá skipasmíðalegu sjónarmiði. þá höfum við það. Og er það furða?

Þá er eitt, sem ég mundi mjög gjarnan vilja óska eftir skýringu á hjá hv. frsm. n., og það eru þau orð hans, að það hafi verið till. uppi um frekari friðun fyrir Norðurlandi, en n. ekki treyst sér til þess að ganga lengra en hún gerði. Hvaða tillit er það, sem þurfti að taka þar til friðunar, ef n. hefur haft einhverja eindregna skoðun á því, að friða hefði þurft frekar fyrir Norðurlandi? Voru það hagsmunasjónarmið einhverra byggðarlaga þar? Ég geri ráð fyrir, að svo sé. Og reyndar kom hann að því á eftir, að það væri með tilliti til bátaútgerðar, að þá hafi ekki þetta og þetta tekizt, sem þeir vildu hafa gert. Bendi ég þá aftur á þann mismun, sem er á þegnum þessa lands, þegar hægt er að sleppa öllu slíku tilliti gagnvart einni stærstu verstöð landsins, Reykjavík, og ég tala nú ekki um annarri einna stærstu, Hafnarfirði, en hægt að taka tillit til allra annarra.

Ég held, ef ekki fæst nokkur lagfæring á þessu, að ég muni mjög fallast á till., sem hafa komið fram frá þm. Vestf. um að friða fyrir allri togveiði út að 20 og jafnvel 25 mílum, en þó með því skilyrði, að við alfriðum eitthvert ákveðið svæði fyrir norðurhluta Vestfjarða, norður af Ströndum, á Hornbankanum, sem ég hef minnzt á og ég tel vera ákaflega þýðingarmikið. Það mun örugglega koma miklu betur til hagsbóta fyrir vestfirzka sjómenn, þótt einhver tími þurfi að líða, áður en það sjáist greinilega, heldur en jafnvel það, að bannað sé að veiða með togveiðarfæri á ákveðnum tímum og á grynnra vatni en þessi till. þeirra mun hafa gert ráð fyrir. En þetta gengur sem sagt allt frekar á móti því, sem bæði ég og margir aðrir sjómenn höfðum rætt á sínum tíma og rætt hafði verið í stéttarfélögum sjómanna, að það ætti að reyna að gefa öllum, hvaða veiðarfæri sem útgerðarmenn vildu nota og sjómenn þeirra báta, tækifæri til þess á sömu veiðisvæðum að nýta þau. Þetta hljóta að vera hagsmunaatriði þeirra, sem í hlut eiga á hverjum tíma. En á móti þessu virðist ekki vera komið í till. n., heldur er það útilokunarkenningin, sem virðist eiga að ráða.

Þá er það enn skrýtnara, að mér finnst, þegar hv. n. lætur rödd sína og till. gjalla um heima alla, friðunarröddina, sem er alveg að kæfa þá, þegar þeir eru að tala um bann og telja nauðsynlegt að hafa bann við botnvörpu og dragnót í Faxaflóa, — af hverju í ósköpunum banna þeir þá ekki dragnótina allt í kringum land, og af hverju er dragnótin svona miklu hættulegri fiskinum í Faxaflóa heldur en á Vestfjörðum, við Norðurland, Austurland, að ég tali ekki um við Suðurland? Eða á kannske Suðurlandskenningin gagnvart dragnótinni að byggjast á sömu forsendu og hæstv. samgrh. byggir bann sitt á því, að Reykjavíkurbátar fái að nýta landshöfnina í Þorlákshöfn, þótt Vestmannaeyjabátum sé heimilt að nota hana, og eru þó báðir útilokaðir frá sínum heimahöfnum, að vísu Vestmanneyingar vegna eldgoss, en við vegna laga misviturra manna á Alþingi?

Ég veit ekki, hvað kom hv. þm. til að tala um flokkspólitískt bitbein í sambandi við þetta mál. Nú veit hv. frsm., að það er langt frá því, að neitt slíkt liggi til grundvallar, hvorki í mínu máli né margra annarra, sem telja sig þurfa að koma sínum skoðunum á framfæri í þessu máli. Hér erum við vissulega að reyna að koma á framfæri hagsmunum okkar umbjóðenda, um leið og ég persónulega hef mikinn áhuga á því, að landhelgi okkar eða fiskveiðilögsaga verði nýtt á skynsamlegan hátt. Við höfum alltaf haldið því fram á erlendum vettvangi, að við værum að friða okkar hafsvæði ekki eingöngu frá friðunarsjónarmiði, heldur til þess að geta haldið lífi á þessu landi vegna hinna efnahagslegu sjónarmiða. Þess vegna er auðvitað alrangt að ætla sér að fara að svelta einhverja ákveðna fámenna hópa til þess að ná fram slíkum sjónarmiðum. Ég held, að það geti aldrei samrýmzt heildarstefnunni á því sviði.

Hv. þm. óttast afleiðingar þess, ef ekki næst samkomulag. Eins og málið er knúið fram nú, get ég látið hann vita það strax, að það verður ekki samkomulag um málið. Ég hefði hins vegar talið, að það hefði mátt ná samkomulagi með tiltölulega litlum heimildarákvæðum til sjútvrh., þar sem nokkuð hefði verið komið á móti till. þm. Reykv., sem voru lagðar fram hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum. Þá hefði kannske mátt ná samkomulagi í þessu máli og þá kannske með enn frekari takmörkunum en við flm. þess máls lögðum til. Ég lýsti því yfir á seinni fundi þessarar hv. n., sem boðaði okkur þm. Reykv. á sinn fund á sínum tíma, að ég væri reiðubúinn til þess að vinna að slíku samkomulagi, ef takast mætti að ná því. Við þessu hefur n. ekki orðið, en hefur hins vegar boðað, að hún muni hlusta á allar till. og taka þær til sín og væntanlega þá afgreiða þær á þann hátt, sem hún hefur gert til þessa, þær munnlegu till., sem hafa komið til hennar.

Ég vil, svo að við ljúkum þá að tala um þessa n., taka fram, að ég held fast við það og legg til nú þegar, forseti, að þessu máli verði vísað á venjulegan hátt til sjútvn., en vil gjarnan ganga til samkomulags um það, að sjútvn. d. vinni með þessari umræddu n. Ég tek það fram t.d., að í n., sem hefur lagt þetta frv. fram, á fjölmennasta kjördæmi landsins engan fulltrúa, og ef á eingöngu að hugsa um hagsmunasjónarmið hinna einstöku kjördæma, þá finnst mér rétt, að við eigum þó möguleika á að koma okkar hagsmunasjónarmiðum á framfæri líka.

Það er rétt hjá hv. þm., að hér er um vandasamt mál að ræða, og ég skal ekki eingöngu gagnrýna þetta frv., n. eða störf hennar. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að þeir hafa átt erfiða daga í að ná saman sjónarmiðum hinna mismunandi hagsmunahópa, og veit ég glögg dæmi þess, að í einni verstöð geta verið uppi margar skoðanir um það, hvaða leiðir eigi að fara í þessu máli, þannig að það er rétt hjá hv. frsm., að hér er vissulega um vandasamt mál að ræða. En við megum bara ekki rugla þessu vandasama máli saman við trúaratriði ákveðinna manna, og ég á við trúaratriði, þegar ákveðnir aðilar fordæma ákveðin veiðarfæri, jafnvel veiðarfæri, sem hafa reynzt okkur hvað hagkvæmust á íslenzka fiskveiðiflotanum á undanförnum áratugum, þótt þau hafi valdið skaða eins og öll veiðarfæri gera. Ég leyfi mér að segja það, að öll veiðarfæri valda skaða, og sjálfsagt yrðu okkar mið beztu mið og fengsælustu mið í öllum heiminum, ef aldrei væri dýft veiðarfæri í sjó. Þá gætum við staðið á ströndinni og horft á fiskinn stökkva, eins og þeir Akurnesingar og Borgnesingar horfa á fiskinn gera í ánum í Borgarfirði. En ég er hræddur um, að það yrði til lítils fyrir okkur að reyna að lifa á slíkri sjón.

Hv. þm. fór yfir einstakar gr. frv., en eins og ég tók fram í byrjun míns máls, er ákaflega erfitt að ræða málið efnislega nú, enda er kannske ekki ástæða til þess fyrir okkur hina óbreyttu hér í hv. d., því að við höfum alls ekki haft tíma til þess að lesa frv. En auk þeirra spurninga, sem ég hef lagt fram til hv. frsm. n., leyfi ég mér að benda á, að í 3. gr., að vísu ekki ný ákvæði, en þó er rétt að benda á það, að þrátt fyrir friðunarsjónarmiðið mikla, sem þeir hafa starfað eftir, er samt heimilað þar að veita frekari togveiðiheimildir. Að vísu segir þarna: „Ef hafís lokar venjulegum fiskimiðum innan fiskveiðilandhelginnar.“ Ef hagsmunir viðkomandi byggðarlaga segja svo um, að það þurfi að leita frekari heimildar, þá sem sagt er mottó n.: Skítt með alla friðun, við skulum veita frekari heimildir þrátt fyrir allan þann skaða, sem slík veiðarfæri eiga að valda á grunnmiðum.

Í 9. gr. er aðeins bent á það og lagt til, að ráðh. eigi með reglugerð að setja reglur um hvað eina, sem snertir framkvæmd þessara laga, bæði möskvastærð veiðarfæra, frágang botnvörpu, flotvörpu, dragnótar o.s.frv. Af hverju eru ekki sett lög um þetta? Af hverju eru ekki sett lög um lágmarksmöskvastærð? Af hverju er ekki lágmarksmöskvastærðin stækkuð, ef hætta er fyrir hendi í sambandi við þessi veiðarfæri hér í Faxaflóa? Af hverju eru þá ekki sett lög um stærri möskva annars staðar í kringum landið? Nei, það ber allt að sama brunni. Það er ekki hugsað um friðunarsjónarmiðið þar. Það er hugsað um það hér í Faxaflóa og svo búið.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. miklu lengur, nema ástæða gefist til, sem kannske gefst. Ég vil samt sem áður í lok míns máls harma þá mismunun, sem er gerð með till. n. Eins og ég hef tekið fram margoft, bæði í þessu máli mínu og annars staðar í sambandi við önnur mál hér á Alþ. og reyndar annars staðar líka, þrátt fyrir þau vandamál, sem ég veit, að ákveðnar byggðir eða ákveðin útgerðarsvæði, sem byggja sínar veiðihefðir á ákveðnum veiðarfærum, eiga við að stríða, þótt það sé kannske að breytast, a.m.k. á ákveðnum tímum árs, þá harma ég, að það skuli ekki vera reynt að koma á móti, þegar eindregnar óskir koma fram frá sumum af stærstu verstöðvum landsins, það skuli vera algerlega gengið gegn óskum þeirra á svo hæpnum forsendum og með svo hæpnum röksemdum eins og ég hef bent hér á, þegar hinn sami skaðvaldur er leyfður annars staðar á miklu hættulegri svæðum á sama tíma. Leyfi ég mér að benda á enn eitt atriði, sem ekki hefur komið hér fram, að við leyfum okkur að láta þennan fiskafla Faxaflóans, sem er hvað dýrmætastur, flatfiskinn, alast hér upp á bezta tíma og fara svo út á veiðisvæði íslenzkra skipa, þegar hann er orðinn óætur að mati Íslendinga og óbrúkanlegur, ónýtanlegur að mati fiskvinnslustöðva hér á landi, þótt oft og tíðum megi kannske fá sæmilegt verð fyrir hann á ferskfiskmarkaði erlendis. Mér finnst þetta vera svo mikið óréttlæti, um leið og ég veit, að við allir, sem höfum reynt að túlka mál mikils hluta Reykvíkinga í þessu máli, höfum reynt að horfa á þau sjónarmið af fullum skilningi, sem koma fram frá öðrum byggðarlögum hér við land, að ég vænti þess, að hv. þd. og hv. fiskveiðilaganefnd og sjútvn. þessarar d., sem ég vænti, að hafi með þetta mál að gera, taki eitthvað af þessum aths. mínum til athugunar.