09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið taka undir orð hv. 10. þm. Reykv., sem hér var að tala áðan, þar sem hann mótmælti þeirri málsmeðferð, sem hér er viðhöfð. Hér er verið að taka til umr. eitt af mikilvægustu málum þjóðarinnar á kvöldfundi. Það er tekið inn með afbrigðum, og 1. flm. frv. leggur meira að segja ekki til, að frv. verði vísað til n., þannig að það fái þinglega afgreiðslu. Mér er alveg sama um það, þó að skipuð hafi verið 5 manna n. til þess að kynna sér þessi mál og semja frv. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, þá ber að láta mál sem þetta, eins og öll önnur mál, fá þinglega afgreiðslu og skoðast í n. Ég tel það algera móðgun við Alþ. að slengja þessu frv. hér á borðið í dag, halda hér viðstöðulaust áfram fundum og flokksfundum, þannig að þm. fái ekki einu sinni tækifæri til að lesa þetta frv., hvað þá heldur að kynna sér til hlítar þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér, og taka það svo til 1. umr. og láta sér koma til hugar að vísa því til 2. umr., án þess að það fari til n. Á svo helzt að halda áfram nætur og daga, þannig að menn hafi ekki nokkurt tækifæri til þess að kynna sér nokkurt mál. Þessi vinnubrögð undir stjórn hæstv. ríkisstj. eru gersamlega óþolandi, og þau eru líka óþolandi af hendi hæstv. forseta d., að ætla að bjóða þm. slíkt.

Það er alveg rétt, og það má til sanns vegar færa, að þessi virðulega n., sem hefur skapað þetta frv., hefur átt viðræður við þm. úr einstökum kjördæmum. En hvernig hafa þær viðræður farið fram? Þm. úr einstökum kjördæmum hafa verið spurðir um, hvað þeir leggi til fyrir sín kjördæmi, og við þá sagt: „Það verður að fara varlega, það verður að taka tillit til annarra.“ — Við höfum ekki heildarniðurstöðu af störfum n., fyrr en við sjáum þetta frv., hvað aðra snertir.

Ég hef alltaf haldið því fram, og ég hef heyrt aðra halda því fram, að nauðsyn á útfærslu landhelginnar væri fyrst og fremst sú að vernda fiskimiðin umhverfis landið og gereyða þeim ekki, búa í haginn fyrir framtíðina og nýta þessi fiskimið með skynsamlegum hætti. Við höfum talið það lífsspursmál þjóðar okkar að færa landhelgina út í 50 sjómílur sem algert lágmark og með það í huga, að við ætlum að friða fiskstofnana og taka ekki meira en þeir gefa og skynsamlegt er að taka. Við höfum sem sagt haldið því fram, bæði í ræðu og riti, innanlands og utan, að við eigum að gera strangar og ákveðnar kröfur til okkar sjálfra um friðunarráðstafanir. Þegar við þm. Vestf. á fundi n. töldum eðlilegt í samræmi við útfærslu landhelginnar, að úti fyrir Vestfjörðum væru botnvörpuveiðar ekki leyfðar innan 20 mílna, þá sagði þessi hv. n., að það gæti skapað ósamræmi annars staðar og það næðist ekki samstaða í málinu, ef út af þessu væri breytt. Nú sé ég það, þegar við förum að líta yfir þetta frv., þá segir t.d. í aths. við Norðurland: „Þannig er gert ráð fyrir því, að togveiðar verði ekki leyfðar nær landi en 9 sjómílur miðað við sömu grunnlínu og í núgildandi heimildum, en samkv. þeim eru togveiðar heimilar upp að 4, 6 eða 8 mílum á mismunandi tímum árs eftir mismunandi stærðum skipa.“ Það er sem sagt töluvert aukin friðun fyrir Norðurlandi, og það er gott. Fyrir Austurlandi er friðun einnig aukin verulega, með því að gert er ráð fyrir, að togveiðar verði ekki leyfðar innan 12 sjómílna. Á Suðausturlandi er á svæðinu frá Selskeri að Lundadrang gert í frv. ráð fyrir aukinni friðun fiskstofna, enda finnst oft ungfiskur á þessu svæði í miklum mæli. Í sambandi við Suðurland er friðun aukin á svæðinu frá Lundadrang að Reykjanesvita, og gerir frv. ráð fyrir því, að reglur verði mun einfaldari en nú er. Það er aftur sagt um Reykjanes– og Faxaflóasvæðið, að línan færist nær landi um 2 sjómílur vestur af Garðskagavita, en hins vegar nokkuð fjær landi við Snæfellsnes, þar sem miðað er við punkt 4 sjómílur réttvísandi suðvestur að Gáluvíkurtanga, en í núgildandi lögum er miðað við 1 sjómílu frá Malarrifsvita í stefnu á línuna. Í sambandi við Breiðafjörð eru reglur gerðar einfaldari. Það var mikil þörf á því, jafnframt því sem friðun er aukin. Svo þegar við komum að Vestfjörðum eða á svæðinu frá Bjargtöngum að Horni, þá eru togveiðiheimildir óbreyttar frá því, sem nú er, nema tvö togveiðisvæði ætluð skipum minni en 350 rúmlestir eru felld burt. M.ö.o.: það er óbreytt að öðru leyti fyrir Vestfjörðum. Hins vegar er rétt að geta þess, að það er gert ráð fyrir því í frv., — og það skilst mér, að hafi verið til samkomulags, vegna þess að annars hefði samkomulag ekki náðst innan n., — það er sett inn í 4. gr., að þar sem línuveiðar eru stundaðar í ríkum mæli, er sjútvrh. skylt að ákveða friðun fyrir botnvörpu á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma, ef fram koma tilmæli um slíkt frá heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna á viðkomandi stöðum. Ég verð að segja, að það hlýtur að vera þungt í vöfum, ef það þarf að leita til allra hásetafélaga, vélstjórafélaga og skipstjórafélaga á hverjum stað og síðan einnig útvegsmanna. Ég hélt, að það hefði verið nóg að leita til heildarsamtaka skipstjórnarmanna á þessum stöðum, það væri léttara í vöfum í sambandi við slíka friðun.

Þessi lauslegi lestur eða lauslega kynning, sem ég hef haft af þessu frv., færir mér heim sanninn um það, að það er stefnt að aukinni friðun víðast hvar, og því er ég fyrir mitt leyti sammála. En ég er mjög óánægður hvað snertir ákvæði fyrir Vestfjörðum. Skal ég nú minna á það, að við fyrri lagasetningar um þetta mál var viðurkennt, að þegar fjörðum og flóum var lokað hér syðra “52, bæði Faxaflóa og Breiðafirði, þá jókst ágangur togveiðiskipa mjög fyrir Vestfjörðum. Með lokun þessara veiðisvæða leituðu skipin á landgrunnið út af Vestfjörðum, og með aukinni friðun annars staðar mun alveg sama verða upp á teningnum, að það verður leitað í ríkari mæli á þessi mið.

Það hefur verið mikil ánægja á Vestfjörðum í vetur með aflabrögð. Þegar hin tíðu slys urðu, einkum á erlendum togurum, hættu Bretar að fiska fyrir Vestfjörðum. Fyrir tveimur árum bönnuðu þeir skipum sínum að fiska þar yfir háveturinn vegna ísingarhættu. Og nú í vetur, þó að menn eigi ekki að fagna því, að langvarandi verkföll séu, voru togarar bundnir í höfn. Þá voru engar eða sama og engar togveiðar úti fyrir Vestfjörðum á stórum togveiðiskipum. Það hefur sýnt sig bæði við þetta bann Breta að veiða yfir hávertíðina og við útfærslu landhelginnar, að skipin hafa ekki stundað þessar veiðar, að aflabrögð hafa aukizt stórkostlega á þessu hafsvæði, og það hefur mjög treyst atvinnulífið á því svæði. Því segi ég fyrir mitt leyti, að ég hef af því áhyggjur þungar, að þessari heimild er ekkert breytt úti fyrir Vestfjörðum að öðru leyti en því, að heimilað er að banna á tilteknum svæðum á tilteknum tíma ákveðnar veiðiaðferðir. M.ö.o.: það má friða innan landhelginnar ákveðin línusæði á tilteknum tíma. Í sambandi við þau tvö svæði, sem eru í gildandi lögum, féllumst við þm. Vestf. á þau svæði síðast. Þetta er mjög takmarkað, aðeins 3 mánuði á ári eða frá okt. til des. á tveimur svæðum, annað austanvert við Ísafjarðardjúp og hitt sunnarlega úti fyrir Vestfjörðum. Þessar heimildir hafa ekki valdið mikilli óánægju. Menn hafa þó orðið varir við hana. En ég hefði vel getað sætt mig við fyrir mítt leyti, að þessi svæði hefðu verið áfram opin og jafnframt opin fyrir togveiðar eitthvað örlítið lengur eða a.m.k. í fjóra mánuði á ári, og hefði fyrir mitt leyti viljað halda mér mjög ákveðið við að leyfa ekki botnvörpuveiðar innan 20 sjómílna. Nú vitum við það, að veiðisvæði línubáta fyrir Vestfjörðum eru mjög mikið utan við 20 mílur. En þetta mundi þó, þegar tíð væri vond og yfir sumarmánuðina, þegar smábátaútgerðin er í fullum gangi, hafa mikið að segja. Þegar ég er búinn að lesa frv. og sé, hvað aðrir hafa fengið út úr því, þá læt ég í ljós óánægju hvað snertir Vestfirðinga í sambandi við þetta frv.

Hitt tel ég alveg fráleitt, að láta sér koma til hugar að taka þetta frv. til umr. hér í hv. þd., þegar komið er fram á kvöld, og það er ekki viðstaddur einu sinni fjórðungur þm. á fundi í þessu stóra og mikla hagsmunamáli. Sumir stjórnmálaflokkar eiga engan þm. hér inni, og þar með virðast þeir ekki taka þátt í umr. við afgreiðslu þessa máls, en eins og sjá má, eiga allir flokkar fáa þm. inni. Ég tel því fráleitt að halda áfram með umr. á þessu mikilvæga máli undir þessum kringumstæðum, og ég mótmæli því, að þessari umr. sé lokið hér í kvöld. Ég geri kröfu til þess, að þetta mál verði tekið á dagskrá aftur á morgun, þegar fundur er betur sóttur en nú er. Sömuleiðis tek ég undir þá till., sem hv. 10. þm. Reykv. flutti um það, að þessu máli verði vísað til sjútvn., og tel þinglega skyldu, að svo verði gert.