11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

219. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga er komið frá Nd. og var afgreitt þar ágreiningslaust með öllu. Í frv. felast aðeins tvö efnisatriði. Í fyrsta lagi það, að sá hluti söluskatts, sem rennur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, verði nú innheimtur mánaðarlega, en það er í samræmi við það, að söluskattur er nú innheimtur mánaðarlega, en var áður innheimtur ársfjórðungslega. Þetta er því til samræmis við það, að sá hluti söluskatts, sem rennur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sé innheimtur mánaðarlega.

Hitt atriðið, sem í frv. felst, er það, að þau sveitarfélög, sem ekki hafa skilað ársreikningum sínum fyrir tilskilinn tíma, skuli ekki njóta aðstoðar jöfnunarsjóðs, fyrr en þau hafa skilað reikningum. Það vill brenna við hjá sumum sveitarfélögum, að þau skila ekki reikningum sínum svo reglulega sem skyldi. Nokkur sveitarfélög hafa ekki skilað reikningum fyrir árið 1971 enn og einstöku sveitarfélög jafnvel ekki fyrir 1970. Ef þetta frv. verður samþ., fá þau ekki aðstoð í neinu formi hjá jöfnunarsjóði sveitarfélaga, nema því aðeins að þau inni af hendi þá sjálfsögðu skyldu sína að skila reikningum. Þeim sýnist það ekki vera útlátalaust til þess að öðlast þá aðstoð, sem jöfnunarsjóðurinn annars getur veitt, og veitir samkv. þessu skilvísum sveitarfélögum. Þetta má segja, að sé dálitið hart, en þetta síðara ákvæði er samkv. eindregnum óskum Hagstofu Íslands, sem getur ekki skilað hagskýrslum sínum um sveitarfélögin, nema því aðeins að reikningar sveitarfélaganna liggi fyrir reglubundið.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umr. er lokið, verði frv. vísað til 2, umr. og hv. félmn.