12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

250. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Við höfum hér 4 þdm. leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 76 1970, um lax- og silungsveiði. Höfum við í því efni haft samráð við hæstv. sjútvrh. og notið ráða hans um það, hvernig að slíkum frv.- flutningi skyldi staðið. Efni málsins er, eins og í grg. greinir, að afnema þau undanþáguákvæði, sem nú eru í l. og varða laxveiði í sjó.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv., en það er álit manna, að það skipti máli, eins og kunnugt er, fyrir fiskrækt í ám og vötnum, að hönnuð sé lax- og silungsveiði í sjó. Þetta er alþjóðlegt deilumál, eins og kunnugt er, og við Íslendingar höfum ávallt á erlendum vettvangi tekið þá afstöðu, að banna beri slíka veiði. Það hefur gildi fyrir lax- og silungsrækt hér á landi, hvernig aðrar þjóðir standa að þessum málum í sínum löndum. Sömuleiðis hefur það þýðingu, þótt undanþáguákvæði í l. nái aðeins til örfárra aðila í landinu, að afnema það, að því er snertir fiskrækt í ám og vötnum hér á landi. Þá er það og talið vera málstað okkar til framdráttar almennt í verndunarmálum fiskistofna að taka þessa afstöðu, og því er þetta frv. flutt. Þetta er að vísu á síðasta snúningi, en ég vonast til, að frv. geti fengið sem fljótvirkasta afgreiðslu, og legg til, herra forseti, að því verði vísað, — ég býst við, að það sé rökrétt að vísa því til landbn. eða sjútvn. Ég vil gera það að till. minni, að því verði vísað til sjútvn., en legg það á vald forseta.