12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Í framsögu minni fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. við 2. umr. málsins gat ég þess, að n. mundi taka til skoðunar tvö atriði milli umræðna. Það hefur n. gert og raunar öllu betur þó. N. flytur sameiginlega brtt. á fjölrituðu þskj., nr. 691. Ég skal með örfáum orðum gera grein fyrir þessum brtt.

Um 1. liðinn er það að segja, að við enn nánari athugun þótti rétt að breyta orðalagi 1. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir eftir 2. umr., en það lýtur að 5. málsgr. 14. gr. l. frá 1971. Að samþykktri þessari breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, yrði nýnefnd málsgr. þannig: „Auk frádráttar samkvæmt 1. — 4. málsgr. þessarar gr. skal frá beinum tekjum sjómanna að fiskveiðum á íslenzkum fiskiskipum draga 8% teknanna, áður en skattur er á þær lagður“. Og áfram og í því liggur breytingin núna, að við þetta bætist: „Þessi ákvæði eiga einnig við hlutaráðna landmenn“. Ég vænti, að þetta skýri sig sjálft, en vísa annars til ummæla minna um þetta efni við 2. umr. málsins í gær.

Þá er það 2. liðurinn í brtt. n. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir efni þess frv. um breyt á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, og fleiri fluttu fyrr á þingi og var til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. samhliða þessu máli. Með 2. brtt. fjh. og viðskn. er gengið inn á sjónarmið flm., þótt það sé í örlítið öðru formi. Ég tel, að þetta þurfi ekki frekari skýringa við umfram það, sem ég greindi frá í gær, og læt útrætt um það.

Þá er það 3. brtt. Með henni er lagt til að hækka nokkuð sérstakan frádrátt hinna tekjulæri í hópi aldraðra.

Í 4. brtt. er kveðið á um það, að skattvísitalan nái til þessa sérstaka frádráttar á sama hátt og annarra fjárhæða, sem nefndar eru í 53. gr. l. Að þessum breytingum samþ. virðist við fljótlegan útreikning, sem að vísu er með fyrirvara, en var þó gerður fyrir n. á skattstofunni, að hjón eldri en 67 ára verði tekjuskattslaus við liðlega 390 þús. kr. tekjumark og einstaklingur verði tekjuskattslaus að tæplega 270 þús. kr. tekjumarki. Þessi fremur snöggsoðna athugun bendir til, að aldraðir greiði við álagningu í ár engan tekjuskatt af tekjum, sem jafngilda ellilífeyri hjá almannatryggingum, eins og hann er í grunn, og persónufrádrætti, eins og hann verður samkvæmt skattvísitölunni, og þó raunar liðlega það.

Ég held ég fjölyrði ekki frekar um þessar till. n. Hún stendur öll að þeim, eins og þskj. ber með sér. Ég hef áður lýst afstöðu meiri hl. fjh.- og viðskn. til brtt. frá Guðlaugi Gíslasyni o.fl., sem meiri hl. leggur til að verði felld.

Þá vil ég geta þess, að fjh.- og viðskn. hefur athugað brtt. hæstv. sjútvrh. á þskj. 670. Tilefni þeirrar till. er, að það hefur eitthvað tíðkazt nú í seinni tíð í sumum verstöðvum a.m.k., að afskrá skipshafnir, ef skip stöðvast í höfn, þótt ekki sé nema um skemmri tíma og þótt það sé í miðju úthaldi. Af þessu hefur það leitt, að sjómannafrádráttur samkv. 1. og 3. málsgr. 14. gr. tekjuskattslaganna frá 1971 skerðist. Till. er flutt til þess að koma í veg fyrir þá skerðingu, og getur fjh.- og viðskn. eftir atvikum mælt með till. Annars er það skoðun mín, og ég held mér sé óhætt að segja fleiri nm., að sá háttur á lögskráningu, sem hér um ræðir, sé í sjálfu sér óeðlilegur og taka þurfi það mál til sérstakrar athugunar.