13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarason):

Herra forseti. Það er nú svo áliðið þings, að af þeirri ástæðu ásamt öðrum er ég alveg ófáanlegur til þess að eyða tíma í að munnhöggvast við þennan hv. þm. Hann hefur búið sér til „kepphest“, sem heitir húsnæðismál, og á þeim „kepphesti“ verður hann að fá að ríða óáreittur af mér. Þar með læt ég útrætt um hans löngu ræðu, sem hann lofaði þó, að skyldi verða stutt.

Það er rétt, að ég legg til í þessu frv., að lögfest verði 800 þús. kr. lánsupphæð til íbúðar sem almenn regla í húsnæðismálalöggjöfinni, en fram til síðustu áramóta var upphæðin 600 þús. Hæstv. þm. segir, að hann muni leggja til, að þetta verði 900 þús., rökstutt með því, að það sé til nóg fé í byggingarsjóði ríkisins til að standa undir slíkum lánveitingum, því að ýmsir tekjustofnar byggingarsjóðs ríkisins fari hækkandi með vaxandi dýrtíð og hækkuðum launagreiðslum í landinu, t.d. launaskatti. Þetta er rétt. En það er líka aukin byggingarþörf í landinu og fleiri sem byggja, en áður. Byggingarmálin voru í mikilli lægð 2–3 s.l. ár, bæði að því er snertir almenna byggingarlánakerfið, þar voru tiltölulega færri íbúðir byggðar á þeim árum en eðlilegt var, en sú tala jókst mjög á s.l. ári, og einnig lágu byggingar verkamannabústaða alveg niðri nokkur undanfarin ár. Nú er að lifna yfir þeirri byggingarstarfsemi á ný og verður byggt á 19 stöðum a.m.k. á þessu ári. Ég efast því um, að það sé fyllilega rétt hjá honum, að byggingarsjóðurinn standi undir 900 þús. kr. lánsfjárhæð til einstaklings sem íbúðarkaupanda. En ef mark er á því takandi hjá hv. þm., ætti hann ekki að hafa verulegar fjárhagsáhyggjur af sjóðnum, þó að eitthvað færi til byggingar leiguíbúðarhúsnæðis, því að það ætti að vera einhver afgangur handa þeim þætti. Ég geri því ekki skóna, að þó að þetta frv. verði samþ., verði a.m.k. á árinu 1973 um mjög mikil viðbótarútgjöld að ræða, því að að einhverju leyti kemur bygging leiguíbúðarhúsnæðisins í stað annarra byggingarþátta, sem annars væru framkvæmdir. Ég hef að vísu gert mér grein fyrir því, að það muni geta komizt af stað einhverjar byggingar samkv. þessum lögum, ef samþ. verða nú, en varla verður það svo, að það verði af fullum krafti. Það þarf nokkurn tíma til að undirbúa tæknilega slíkar byggingar, og við skulum segja, að þó að það tæki ekki nema 2–3 mánuði, er komið fram á síðsumar, og byggingartíma úti um landið lýkur í sept.—okt. Ég held því, að á þessu ári verði ekki um stórupphæðir að ræða, sem leggist á byggingarsjóðinn að auki vegna þessa frv. En væri um meðaltalið að ræða, væru það 200 íbúðir, sem gæti komið til greina, að byggðar yrðu að meðaltali. Ég geri ráð fyrir, að sú tala yrði mun lægri á þessu ári, en þá aftur yfir 200 íbúðir á hverju hinna fjögurra áranna, en gert er ráð fyrir, að heimilt sé að byggja alls 1000 íbúðir.

Ég er fús til að játa, að það væri vafalaust æskilegt að geta haft lánsupphæðir til þeirra, sem byggja, 900 þús. kr., jafnvel milljón. En þó er það nú svo, að þá kemur að öðrum takmörkunum, og það er það, undir hve háum lánum byggjendurnir geta risið. Það fer að verða erfitt fyrir marga, þegar komið er yfir 800 þús. kr. lán, að rísa undir þeirri lánsupphæð, hvað þá hærri. En svo kemur það líka til, að nú hafa opnazt nokkuð almennt aðrar leiðir til lána fyrir húsbyggjendur, þ.e. fyrir alla þá, sem eru í lífeyrissjóðum, ef þeir fá þar lán í viðbót við það, sem þeir fá úr byggingakerfinu. Þannig er hlutur byggjenda ekki jafnrýr og hann var, meðan allir urðu eingöngu að binda sig við þá upphæð, sem úr veðlánakerfinu fékkst. Mín till. er sem sé sú, að þessi upphæð verði nú ákveðin 800 þús. kr. Hins vegar er í frv. ákvæði um það, að lögfestu upphæðinni megi breyta árlega héðan í frá, samkv. þessu frv., en hefur ekki verið hagganlegt nema á tveggja ára fresti. Það gerir það að verkum, að það geta orðið örari breytingar á þessari ákveðnu upphæð. Hún væri í þessu tilfelli ekki ákveðin nema bara fyrir yfirstandandi ár.

Það er svo talað um, að það sé æskilegt, að heimildin til þess að standa fyrir byggingu leiguíbúðarhúsnæðis verði ekki bundin eingöngu við sveitarfélögin. Ég held fast við það, að það eigi eingöngu að fela þetta sveitarfélögum að þessu sinni. Hér er um að ræða, eins og ég áðan sagði, að leggja fram lánsfé til íbúðar, kannske að upphæð 1,6 millj. kr. Það er mikið fé, og það á sannarlega ekki að fara í hendur þeirra, sem byggja íbúðir til þess að braska með þær. Það á ekki að fara til neinna þeirra, sem byggja eingöngu íbúðir og húsnæði í ágóðaskyni fyrir sjálfan sig. Ég treysti því, að sveitarfélögin séu sá rétti aðili til að standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis, sem ekki eigi að fara í brask, en eigi að leigjast fyrst í stað á réttri leigu, sem skilar ekki neinum ágóða, og síðan, þegar leigjendur hafa ákveðið sig um kaup, sé þetta selt ágóðalaust. Hvaða líkur eru til þess, að menn, sem byggja íbúðir með það fyrir augum að hagnast á því, standi í því að byggja leiguhúsnæði, sem á að leigjast út eða seljast ágóðalaust? Ég sé ekki nokkra minnstu ástæðu til þess. En ef þeim væri heimilað að fara inn í þetta, væri sem sé boðið upp á það, að meira eða minna af þessu húsnæði færi í brask, og það er ekki ætlun mín. Ég tel því, að frv. væri stórspillt með því, ef farið væri inn á þá braut að heimila einnig að veita framkvæmdalán einstaklingum, sem bara byggja til þess að selja eða leigja út húsnæði. Það þarf að vera opinber aðili, sem er ábyrgur fyrir því, að þessi framkvæmd nái tilgangi sínum.

Hins vegar vil ég taka það fram, að ef sveitarfélag eða sveitarstjórn á þess kost, að einhver félagslegur aðili eða t.d. atvinnurekandi vilji útvega leiguhúsnæði fyrir sitt fólk, hygg ég, að þá sé hægurinn hjá að gera samkomulag við sveitarstjórnina um það, að sá aðili, sem ætlað er, að verði þjónað með þessu, legði fram þau 20%, sem leggja þarf fram, eða gerði leigusamning við sveitarfélagið og endurleigði síðan sínu fólki íbúðirnar. Ég held, að þetta geti komið öllum að gagni, sem þörf hafa fyrir svona úrlausn á húsnæðisvandamálunum, en sjálf framkvæmdin á löggjöfinni eigi ekki að vera í margra höndum, heldur eingöngu sveitarstjórnanna. Ég legg því áherzlu á það, að hvorki verði farið að bera fram og samþykkja hér brtt. við frv., sem gætu stofnað því í þá hættu, að það næði ekki fram að ganga. Ég trúi því ekki, að fyrir hv. þm. vaki það að bregða fæti fyrir þetta frv., og af þeirri ástæðu einni ætti hann að minni hyggju að taka sína fyrirhuguðu brtt. til baka. Í öðru lagi tel ég, að þær brtt., sem hann hefur hér nefnt, mundu spilla frv. og bjóða þeirri hættu heim, að þetta leiguhúsnæði, sem þá yrði byggt, yrði að einhverju leyti látið út í braskið.