13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Guðlaugur Gíslsson [frh.]:

Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu í gær, þegar umr. var frestað, að ég hafði í stórum dráttum gert grein fyrir forsendum fyrir því lagafrv., sem hér liggur fyrir. Þær voru í megindráttum þær, að allar till. um breyt. á veiðiheimildum og veiðibönnum á hinum ýmsu svæðum eru byggðar á því, að Íslendingar einir munu í framtíðinni nota fiskimiðin í kringum landið allt út að 50 mílna mörkunum. Til þess að tefja ekki tímann um of skal ég ekki fara nánar út í þessi atriði, en snúa mér að því, sem ég var kominn að í gær, en það er að ræða í stórum dráttum aðstöðu hinna ýmsu svæða í kringum landið.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að aðstaða til veiða á hinum ýmsu hafsvæðum við landið er mjög misjöfn. Eitt veiðarfæri getur hentað á þessum stað, en ekki á öðrum, þannig að veiðarnar verða mjög misbreytilegar eftir því, hvar þær eru stundaðar. Má t.d. nefna, að fyrir Vestfjörðum og miklum hluta Norðurlands hefur um langan tíma svo háttað til, að veiðar eru þar helzt stundaðar með línu og handfærum, a.m.k. á grunnslóðum og að nokkru leyti hvað varðar Vestfirðina einnig á djúpslóðum. Togveiðar smærri skipa hafa þar verið mun minna stundaðar. Þetta var fiskveiðilaganefndinni að sjálfsögðu enn betur ljóst en áður, þó að hún teldi sig vita nokkuð um alla þessa aðstöðu, á hinum ýmsu fundum, sem haldnir voru, bæði fyrir Norðurland og einnig víðar um landið. Það kom greinilega fram á fundunum, sem haldnir voru á Norðurlandi, að þar réðu sjónarmið hinna smærri skipa, þau voru þar mest áberandi. Sjónarmið togbáta kom þar mjög lítið við sögu. Aftur kom sjónarmið hinna stærri togara fram á þessum fundum. Ég hygg, að ríkjandi sjónarmið hjá þeim aðilum, sem rætt var við, og þeim sem mættu á fundunum hafi verið það að færa heimildarmörkin til togveiða lengra út, en gildandi lög segja til um. Þessi skoðun virtist einnig ríkjandi hjá þm. bæði í Norðurl. v. og einnig í Norðurl. e. Ég var lengi vel með nokkra sérstöðu í n. og vildi ekki binda mig þeim till., sem fram komu um, að heimildarmörk fyrir togveiðar skyldu verða ákveðin 9 mílur frá grunnlínupunktum. Ég taldi þetta of langt gengið, því að ég hygg, að það eigi eftir að sýna sig síðar meir á þessu landssvæði. Mun það reynast svo, að ef á að halda atvinnu hjá því fólki, sem við fiskiðnað vinnur nokkuð jafnri allt árið, þurfi einnig að koma til bátar af millistærð milli togskipa og stærri báta og hinna smæstu báta sem mest er um á þessu landssvæði. Ég hefði því viljað láta heimildamörkin fyrir hin smæstu skip til togveiða vera mun nær landi og hefði mjög getað fellt mig við, að nákvæmlega sömu mörk giltu á þessu landssvæði og samkomulag varð um í n. að giltu fyrir suðurströndinni.

Þm. Norðurl. e. barst í gær símskeyti frá þremur aðilum á Norðurlandi, þar sem þeir setja fram þá kröfu, að svo verði að staðið, að reglur um veiðar til togveiði verði hinar sömu fyrir Norðurlandi og eru fyrir Suðurlandi. Eins og ég sagði, gæti ég persónulega mjög vel fellt mig við þetta, en þetta fékk því miður að mínum dómi, engan hljómgrunn hjá fiskveiðilagan. og enn minni hljómgrunn hjá þm. þessara kjördæma. Mér kæmi það ekkert á óvart, að í kjölfar þess símskeytis, sem þm. Norðurl. barst í gær um þetta atriði, þar sem krafizt er sama réttar til togveiða og fyrir Suðurlandi, fylgdu mjög hörð mótmæli frá eigendum hinna smærri báta um að færa veiðimörkin fyrir togveiðarnar ekki einasta út í 9 mílur, heldur enn utar. En þetta er aðeins spegilmynd af því, hvað skoðanir manna á hinum ýmsu stöðum eru ólíkar. Þær eru ekki aðeins ólíkar innan landsfjórðunga, þær eru misjafnar, að segja má, í hverju einasta byggðarlagi, þar sem útgerð á sér stað. Þetta er það vandamál, sem alltaf hefur víða verið við að etja, þegar einhverjar breytingar hefur þurft að gera á l. um bann gegn togveiðum.

Ég skal fara fljótt yfir sögu, því að þau kort, sem frv. fylgja, eru mjög glögg, og eins og ég sagði í gær; hafa allar reglur um þetta verið gerðar mun einfaldari en áður var. Tel ég það til mikilla bóta bæði fyrir þá, sem fiskveiðar stunda, og ekki sízt fyrir þá, sem eiga að hafa löggæzlu í hendi í sambandi við fiskveiðarnar.

Þegar kemur að Suðurlandi, gilda þar, eins og greinilega kemur fram bæði í frv. sjálfu, grg. þess og einnig á því korti, sem frv. fylgir, nokkuð aðrar reglur, en annars staðar við landið. Menn hafa eðlilega staldrað við þetta og telja kannske, að Sunnlendingar séu þarna að skapa sjálfum sér óeðlilegan rétt. En svo er sannarlega ekki. Það vill svo til, að á þessu svæði, frá Hornafirði og að Reykjanesi, að meðtalinni þá Grindavík og Sandgerði, eru samtals samkv. skýrslu Siglingamálastofnunar ríkisins 205 bátar af stærðinni upp að 350 lestum. Þar af eru 167 bátar, sem eru undir 105 smálestum. Allur þessi fjöldi báta er utan vetrarvertíðar gerður út nær eingöngu, vil ég segja, á togveiðar, annaðhvort með fiskitrolli, sem kallað er, eða með humartrolli. Á þessu landssvæði er því miður ekki fyrir hendi sú aðstaða að veiða á línu eða handfæri. Ég hygg, að engum einasta útgerðarmanni detti í hug að reyna að gera út á línu á þessu svæði utan vetrarvertíðar. Allir mundu telja það gersamlega tilgangslaust, og sú útgerð mundi aldrei fá staðizt nema örskamman tíma. Það er því eðlilegt, að sú aðstaða, sem fyrir hendi er, svo gjörólík sem hún er annars staðar, t.d. fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi og kannske Austurlandi að nokkru leyti líka, sé nýtt á þann hátt, sem allir aðilar eru sammála um, að sé einasti möguleikinn, en það er með botnvörpuveiðarfærum af þeim gerðum, sem ég nefndi áðan. Þetta er grundvöllurinn fyrir því, að reglur á þessu landssvæði verða að vera nokkuð á annan veg en annars staðar, ef atvinnulíf á að haldast uppi með eðlilegum hætti á þeim stöðum, sem fiskveiðar eru stundaðar á suðurströndinni.

Ég held, að það leiki enginn vafi á því, að ef þessar reglur yrðu þrengdar fyrir hina smærri báta, sem eru undirstaðan undir því, að atvinnulíf haldist með eðlilegum hætti á þessum stöðum, — þrengdar frá því, sem þarna er um að ræða, yrði um algeran fólksflótta að ræða úr hinum ýmsu verstöðvum, allt frá Hornaf. og til sjávarþorpanna á Reykjanesi. Það er því ekki nema mjög eðlilegt, að þm. úr þeim kjördæmum, sem þarna eiga að gæta hagsmuna íbúa sinna, vilji skapa þá aðstöðu, sem með þarf, til þess að það fólk, sem byggir afkomu sína á fiskveiðum, geti með eðllegum hætti lifað þar sómasamlegu lífi. Það er annað, sem ekki er almennt tekið með í reikninginn, þegar menn eru að tala um sérstöðu Sunnlendinga í sambandi við fiskveiðarnar, en það er, að við erum ekki eingöngu að opna þetta fyrir báta af suðurströndinni. Við erum að opna þessi mið, meira en annars staðar, fyrir öllum bátum, hvaðan sem er af landinu. Þetta hefur vissulega verið notað af bátum, bæði að norðan og austan og héðan úr Faxaflóa, á undanförnum árum. Ég hygg, að ef það mál væri skoðað ofan í kjölinn, kæmi kannske í ljós, að það væru ekki færri bátar utan verstöðvanna á suðurströndinni en annars staðar frá, sem hefðu notað þetta veiðisvæði yfir sumartímann á undanförnum árum.

Það er a.m.k. óhætt að segja, að það sé ekki óeðlilegt, að um þetta mál séu mjög skiptar skoðanir. Þarna er um misjöfn hagsmunasjónarmið að ræða eftir aðstöðunni í hverju sjávarplássi og einnig eftir aðstöðu hvers einstaklings innan hvers sjávarpláss. N. varð auðvitað að finna einhverjar reglur til þess að fara eftir, þegar kemur að því, að við förum einir að nýta fiskveiðisvæðin innan 50 mílna markanna. Ég geri mér grein fyrir því, að flestallir eru óánægðir að einhverju leyti, en hygg, að n. hafi komizt nálægt því að gera flesta sem minnst óánægða með þeim reglum, sem hún leggur til að lögfestar verði. Það er kannske áberandi og ekki óeðlilegt, að menn staldri við það, að í 10. gr. frv. er að finna mjög víðtækar heimildir til handa ráðh. og rn. að veita undanþágu og skipuleggja hinar ýmsu veiðiaðferðir. Það má segja, að öll ákvæði þessarar greinar séu raunverulega í framkvæmd og hafi verið það á undanförnum árum, nema það, sem heyrir undir tölulið 1 varðandi dragnótaveiðarnar. Dragnótaveiðar voru áður stundaðar samkvæmt sérstökum lögum og voru háðar mjög ströngum skilyrðum. Hendur ráðh. voru yfirleitt mjög bundnar með að veita leyfi. Það þurfti ekki einasta leyfi rn. eða þeirra stofnana, sem heyrðu undir rn., heldur þurfti einnig leyfi sveitarstjórnarmanna, til þess að veiðar yrðu leyfðar á hinum ýmsu stöðum við landið.

Ég hygg, að allir séu sammála um það, sem þetta mál þekkja frá fyrri tíma, að það ákvæði, að sveitarstjórnir ættu að segja til um það, hvort þær vildu leyfa, að dragnótaveiðar yrðu stundaðar frá sínu byggðarlagi eða á miðunum við sitt byggðarlag, hafi verið mjög óeðlilegt. Ég held, að flestir þm., sem að l. stóðu á sínum tíma, hefðu gjarnan viljað vera lausir við að þurfa að samþ. þetta. En aðstaðan var þá þannig í þinginu, að l. hefðu ekki náð fram að ganga, nema þetta ákvæði hefði verið tekið inn.

Nú vill svo til, að einmitt í 1. og 2. gr. þessara laga er fjallað einvörðungu, að heita má, um heimild til handa ráðh. að veita leyfi til dragnótaveiða. Ég tel því ekki óeðlilegt, að lög þessi verði numin úr gildi, ef lagafrv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþ. Að mínum dómi verður þar engin breyting á önnur en sú, að í stað samþykktar sveitarstjórna víðs vegar um landið þarf nú till. frá Hafrannsóknastofnuninni. Ég tel það eðlilegra og að mörgu leyti til bóta frá þeim l., sem um þessar reglur hafa gilt fram að þessu.

Það hafa ýmsir staldrað við það, að þeir teldu, að ekki kæmi nægilega í ljós, ef frv. verður samþ., vilji Alþ. um auknar friðunarráðstafanir. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni í sambandi við þetta mál í gær og vil ekki tefja tímann með því að bæta neinu þar við. Ef sá ráðh., sem með þessi mál fer hverju sinni, er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að auka friðun hvort heldur er friðun ungfisks, hrygningarsvæða eða í sambandi við önnur veiðarfæri, hefur hann til þess mjög víðtækar heimildir. Ég tel það vera alveg sjálfsagt og grundvallaratriði, að á hverjum tíma verði séð um það, að sjútvrh. og þær stofnanir, sem undir hann heyra, geti tryggt það, að ekki sé um óeðlilega ofveiði að ræða.

Sektarákvæði, sem er að finna í þessu frv., hafa að eðlilegum hætti verið hækkuð verulega. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja að mínum dómi. Verðlag hefur allt mjög breytzt í landinu. Fiskverð hefur hækkað núna á undanförnum árum verulega, og það er því eðlilegt, að sektarákvæði við brot á lögum um fiskveiðar hækki einnig.

Ég vil minna á það hér, að meðan hin eldri lög voru í gildi, þar sem bann við botnvörpuveiðum hinna smærri báta var svo algert, að bátar af hinni smærri gerð gátu raunverulega ekki stundað fiskveiðar á löglegan hátt, voru lögin um botnvörpuveiðar mjög mikið brotin. Maður varð greinilega var við það, að almenningsálitið taldi raunverulega, að brot á landhelgisl., eins og þau voru þá í gildi, væru ekkert óeðlileg og það lægi beint við, ef sjómenn ættu að halda mannsæmandi tekjum og fólk að hafa atvinnu af fiskveiðum, landverkafólk að sjálfsögðu ekki síður en sjómenn, annaðhvort að leggja þessar veiðar niður, sem hefði þýtt mjög mikinn samdrátt í allri atvinnu í landi, eða þá hreinlega að brjóta lögin, eins og því miður var gert í allt of stórum stíl, á þeim tíma.

Ég hafði vænzt þess, að eftir að öll þessi ákvæði voru mjög mikið rýmkuð með lögum frá 1969, hefðu brot á þeim að mestu horfið úr sögunni. Ég varð einnig mjög greinilega var við það, að almenningsálitið snerist alveg við, eftir að þau lög voru sett. Allir, sem fylgdust með þessum málum, töldu, að það væri búið að rýmka það mikið togveiðiheimildir, bæði handa stærri og smærri skipum, að það væri alveg óþarfi og óverjandi, að menn héldu sig ekki innan ramma þeirra laga. Sem betur fer hafa brot mjög mikið minnkað á þessum tíma, frá 1969, en þau hafa að mínum dómi verið allt of tíð og allt of mörg. Ég skal ekkert um það segja, hverjum þar er um að kenna, en ég tel, að það verði og eigi að halda uppi mjög strangri gæzlu, að gildandi lög og ekki síður þau lög, sem taka gildi, ef þetta frv. verður samþ., verði ekki brotin. Ég tel, að það sé búið að skapa mönnum með þessum lögum þá aðstöðu, að hver og einn eigi að geta stundað fiskveiðar með botnvörpu með eðlilegum árangri, þó að hann haldi sig innan ramma laganna. En því miður er það sorgarsaga, sem allir kannast við, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að á hverjum veiðistað eru kannske einn eða fleiri menn, sem vilja ekki hlíta þessu, freistast til þess að brjóta lögin og í kjölfar þess fylgir, að aðrir fljóta með. Þetta er óneitanlega freistandi fyrir menn, því að það hefur sýnt sig, segja a.m.k. þeir, sem þekkja mjög vel til við suðurströndina, að það er hægt að fá meiri fisk innan þriggja mílna markanna en utan þeirra. Þetta freistar sjómannanna. En ég tel, að það verði að halda uppi strangri gæzlu á því, að farið sé eftir l. og þetta hverfi alveg úr sögunni.

Ég hef orðið mjög greinilega var við það, að togaraeigendur eru nokkuð uggandi um sinn hag og telja, að gengið sé mjög á þeirra rétt. Þetta er ekkert óeðlilegt, því að eins og ég sagði í upphafi, eru lögin við það miðuð, að aðstaða íslenzku togaranna breytist á þann veg, að þeir geti án samkeppni frá erlendum aðilum stundað þau fiskimið, sem togarar hafa stundað áður hér við land á dýpri slóðum. Það voru vissulega uppi raddir, bæði í n. og utan n., sem við urðum greinilega varir við, um að skerða rétt togaranna á vissum stöðum við landið og það á stórum landssvæðum mun meira en frv. gerir ráð fyrir. En samkomulag varð um að ganga þó hvergi lengra en að 12 mílunum, þannig að togarar yrðu hvergi settir út fyrir 12 mílurnar, en aftur veitt nokkur aðstaða á einstaka stöðum, sem þeir hafa sótzt eftir, inn að 9 mílna belti frá grunnlínupunktum.

Hér hefur komið fram ein brtt. við frv. frá hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, þar sem hann leggur til, að ráðh. verði heimilað að veita tiltekinni tölu báta um takmarkaðan tíma leyfi til veiða með botnvörpu og dragnót í Faxaflóa. Er þetta byggt á þeim rökum, sem hann hefur fært fram fyrir sínu máli, að það sé óeðlilegt, að þeir, sem búa hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, þurfi að sækja neyslufisk sinn til annarra byggðarlaga, en geti ekki rekið útgerð í því skyni, að bæjarbúum verði séð fyrir neyzlufiski frá því hafsvæði, sem næst liggur, það er Faxaflóanum, sem allir vita, að er nokkuð gjöfult veiðisvæði. Í sambandi við þetta mál, sem er búið að vera mikið og langt deilumál hér í þinginu, var hér flutt till. um lokun eða friðun Faxaflóa þing eftir þing og náði aldrei samþykki á Alþ. Ég minnist þess, að bæði ég og aðrir í sjútvn. treystum okkur ekki til að verða við tilmælum flm. um að stíga það skref, eins og það lá þá fyrir. Það voru eðlilega mjög sterk andmæli gegn þessu, bæði frá útgerðarmönnum í Reykjavík og kannske hér á næstu grösum. En svo gerist það einkennilega 1971, að útvegsmannafélagið í Reykjavík mælir með friðun Faxaflóa. Ég skal viðurkenna, að þegar það lá fyrir, að þeir, sem áttu fyrst og fremst að stunda þessi mið, töldu nauðsyn á að friða svæðið, varð það til þess, að ég og ég hygg fleiri í sjútvn. mæltum með frv. og það varð að lögum með þeim ákvæðum, sem þar segir, að veiðar með dragnót og botnvörpu eru þar algerlega bannaðar.

Ég tel eftir ástæðum, að það sé ekki óeðlilegt að verða við þeirri brtt., sem hv. 10. þm. Reykv. leggur hér til, að 8 bátum af takmarkaðri stærð verði veitt leyfi til veiða á þessu svæði takmarkaðan tíma og í því skyni að afla Reykvíkingum neyzlufisks. Ég geri því ráð fyrir, að ég í samræmi við þetta muni greiða atkv. með þeirri till., sem hér er fram borin á þskj. 648.

Ég vildi mjög gjarnan segja margt fleira um þessi mál, því að mikið er búið að ganga á í sambandi við störf n. Við höfum fengið mjög margar ábendingar, bæði munnlegar og skriflegar, og ég hygg, að okkur séu orðin sæmilega Ijós hin ýmsu sjónarmið. Þó að þau stangist víðast á, höfum við reynt að gera okkur grein fyrir, hvað skynsamlegast væri að gera í sambandi við lausn á málinu. En mér er ljóst, að við höfum hér takmarkaðan tíma, og ég hef áhuga eins og allir fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga fyrir þingslit, og skal því ekki tefja málið að þessu sinni frekar með lengri ræðu.