14.04.1973
Sameinað þing: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

19. mál, olíuverslun

Frsm. minni hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Atvmn. gat ekki orðið sammála í þessu máli, og ég hef leyft mér að mæla með samþykkt till., þ.e.a.s. að kjósa 7 manna n. til að athuga endurskipulagningu á innflutningi á olíuvörum, sem er nákvæmlega það, sem segir í „kverinu helga“. Ég hafði lagt til, að till. væri samþ., því að mér gengur afar erfiðlega að skilja það, hvers vegna þarf að vísa til ríkistj. máli, sem hún segist ætla að leysa. Er þá ekki alveg eins gott að samþ. málið og leggja þar með áherzlu á, að það eigi að gera þetta?

Umsagnirnar væru neikvæðar sagði hv. frsm. meiri hl. Jú, það er við því að búast, því að umsagnirnar eru frá olíufélögunum og Vinnuveitendasambandinu, og það er, held ég, engin ástæða til að halda annað en að umsagnirnar séu neikvæðar. Það er alveg óþarft finnst mér, að tala um, að það sé einhver frekja, þótt þessu sé beint til ríkisstj., þegar það er yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj. að fara nákvæmlega eftir þessu og gera þetta svona.

Hann sagði, að málið væri afskaplega flókið. Málið er eins einfalt og það getur hugsanlega verið. Það er um það að ræða að kjósa n. til að gera nákvæmlega það, sem hæstv. ríkisstj. hefur tilkynnt þjóðinni, að hún ætli að gera, og þetta kalla ég ekki flókið mál.

Hann talar um samstarf á milli olíufélaganna. Jú, það er samstarf um eitt, og það er að hafa nákvæmlega sama verð. Það er samstarfið fyrst og fremst. Það eru víða 3 dælur frá sitt hverju olíufélagi á smástöðum, og svo slást þeir ofurlítið um að fá notendurna til þess að kaupa frekar úr dælu Shell en dælu Esso eða dælu BP. Það er öll samkeppnin, sem á sér stað í þessum olíumálum.

Ég get ekki meint með bezta vilja, að það geti meitt nokkurn einasta mann, þó að þetta mál sé athugað, og að þessu máli skuli endilega vísað til hæstv. ríkisstj. á grundvelli þess, að það sé svo flókið, það kemst ekki með nokkru móti inn í minn koll. Ég hef því leyft mér að skila séráliti og leggja til, að till. verði samþ.