07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

263. mál, afkoma hraðfrystihúsa

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv, ráðh. svörin. Ég hygg, að það sé alveg ljóst af svörum hans, þegar þau eru tekin í samhengi við báðum þeim meginspurningum, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh., að það er ríkisstj. algerlega ókunnugt, hvort verður hægt að reka grundvallaratvinnugreinar landsmanna á næstu árum. Um það hafa ekki verið gerðar áætlanir, og þetta er ríkisstj., sem hefur sagt okkur hér, hv. alþm., að hún hygðist koma á heildarstjórn efnahagskerfisins með áætlanagerð og skynsamlegum ákvörðunum, sem væru teknar í samræmi við þær. Ég held, að afkoma togara og afkoma hraðfrystihúsa og horfur á því, hver sú afkoma sé, sé ekkert minna en grundvallaratriði, þegar verið er að taka ákvarðanir um eitt og annað, sem varðar alla efnahagsstjórn, hvorki meira né minna, og að hafa ekki einhverjar hugmyndir um það, hver afkoma þessara fyrirtækja verði, hljóti að gera ríkisstj, gersamlega ófæra um að taka skynsamlegar ákvarðanir í efnahagsmálum yfirleitt. Ég vil fagna því, að það hefur komið greinilega í ljós hér á hv. Alþ., að þessar grundvallarforsendur fyrir heilbrigðri efnahagsstjórn hjá núv. ríkisstj. brestur gersamlega.