07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

38. mál, framvæmd samgönguþáttar Norðurlandsáætlunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svofellda fsp. á þskj. 40 til hæstv. forsrh. sem ráðh. Framkvæmdastofnunar ríkisins:

„Er áformað, að flug- og hafnamál verði tekin í samgönguþátt Norðurlandsáætlunar á næsta ári svo sem Fjórðungssamband Norðlendinga hefur lagt áherzlu á?“

Í tilefni af þessari fsp. vil ég rifja upp, að á árinu 1969 var unnið að stefnumörkun um samgönguþátt Norðurlandsáætlunar frá hálfu heimaaðila í samráði við Efnahagsstofnunina. Fyrsta opinbera stefnumörkunin í þessu efni var gefin út að loknu fjórðungsþingi haustið 1969. Skýrt var þá tekið fram, að það væri stefnt að áætlanagerð um alla þrjá þætti samgöngumálanna, þ.e.a.s. vega-, flug- og hafnamál. Undirbúningi að áætlanagerðinni var síðan haldið þannig áfram allt fram á yfirstandandi ár. Til marks um það skilst mér, að Framkvæmdastofnunin hafi gert till, um, að varið yrði um 150 millj. kr. í vegaframkvæmdir, 34 millj. kr. í hafnir og 14 millj. kr. í flugvelli árið 1972. Þetta var gert, eftir að núv. hæstv. ríkisstj. var setzt að völdum, þ.e.a.s. í febrúar á yfirstandandi ári. Þegar frv. um heimild til handa ríkisstj. til að afla fjár til framkvæmdaáætlunar fyrir yfirstandandi ár var til meðferðar hér á hv. Alþ. í marz s.l., kom hins vegar í ljós, að ríkisstj. gerði ráð fyrir að afla 100 millj. kr. til samgönguþáttar Norðurlandsáætlunar og einvörðungu til vegaframkvæmda. Hér var um algera kúvendingu að ræða frá því, sem heimamenn höfðu stefnt að, svo og Efnahagsstofnunin fyrir hönd fyrrv. ríkisstj. Auk heldur virðist þessi stefnubreyting einnig hafa komið til þrátt fyrir þá staðreynd, að hin nýja Framkvæmdastofnun ríkisins hafi lagt til, að stefnu heimamanna og fyrrv. stjórnvalda yrði fylgt í þessu efni.

Fjórðungssamband Norðlendinga hefur, sem eðlilegt er, risið öndvert gegn þessari stefnubreytingu um gerð samgönguþáttar Norðurlandsáætlunar og gert harðorðar samþykktir um, að þessu yrði kippt í lag. Þannig voru eftirgreindar till. samþykktar á fjórðungsþingi 4.–5. sept. s.l. á Akureyri:

„Fjórðungsþingið harmar þá málsmeðferð, að ekki var hægt að hefja framkvæmdir í flugvallarþætti Norðurlandsáætlunar á þessu ári, og gerir þá ófrávíkjanlegu kröfu, að í framkvæmdaáætlun 1973 verði tekið með fjármagn til flugvalla sem upphaf flugmálaþáttar samgönguáætlunar Norðurlands.“

Einnig segir svo í samþykktum fjórðungsþings.

„Fjórðungsþing Norðlendinga gerir þá kröfu, að í framkvæmdaáætlun 1973 verði teknar með fjárveitingar til hafnarmálaþáttar samgönguáætlunar Norðurlands sem byrjun á þessari áætlun.“

Í þessu sambandi vil ég gjarnan geta þess, að full samstaða er heima fyrir um eðlilegan áfanga í flug- og hafnamálaþætti samgönguáætlunarinnar og undirbúningur var kominn það langt á veg í samvinnu Fjórðungssambands Norðurlands og Framkvæmdastofnunarinnar og samgrn., að framangreindar till. lágu fyrir í febr. s.l. eða nokkru áður en framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisins kom til kasta hv. Alþingis.

Ég valdi þann kost að bera fram stutta spurningu um þetta til hæstv. forsrh. til þess að fá ótvírætt úr því skorið, hvort núv. hæstv. ríkisstj. hyggst framkvæma samgönguþátt Norðurlandsáætlunar á sama hátt og fyrrv. stjórnvöld höfðu undirbúið að ósk heimamanna. Þar sem spurningin er afar einföld, geri ég ráð fyrir að fá ótvírætt svar. Verði svarið á hinn bóginn ófullnægjandi, þykir mér svo mikið í húfi, að einsýnt sé að freista þess að taka málið upp á annan hátt hér á hv. Alþ., þannig að þm. geti tjáð hug sinn til þess.