14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta mál fékkst loksins tekið á dagskrá, en það hefur ekki sézt hér á dagskrá þessarar hv. d. á undanförnum dögum, og geta menn kannske getið sér til, hvaða ástæður liggja til þess. Hér er þó um að ræða frv., sem 5 þm. úr öllum flokkum flytja, og var það borið undir þingflokkana, a.m.k. flesta, áður en það var flutt. En 2 hæstv. ráðh. hafa haft ýmislegt á hornum sér út af þessu frv. og svo mjög, að það átti varla að fást tekið á dagskrá einu sinni.

Ég vil ekki fara að lengja mál mitt með því að ræða þetta sérstaklega, en ég ætlaði að koma hér upp til þess að andmæla því, sem kom fram í máli hv. 5. þm. Sunnl. Hann taldi, að það væri engin nauðsyn að samþ. þetta frv. strax, og setti sig í dómarasæti yfir öllum þeim sveitarstjórnarmönnum, sem hafa unnið að þessu frv. og hafa gert ítrekaðar samþykktir um, að það verði samþ. Það munu vera nokkur hundruð sveitarstjórnarmanna á landinu, sem hafa lagt þarna hönd á plóginn og telja nauðsyn á að samþ. þetta frv. þegar í stað. Telja þeir sig fá bætta starfsaðstöðu með því. En þá kemur hér hv. 5. þm. Sunnl. og segir: Það er engin nauðsyn á þessu. — Slíkur málflutningur dæmir sig auðvitað sjálfur.

Þá taldi hv. þm., að í þessu frv. væri eins konar nauðungarákvæði, sem þröngvuðu sveitarfélögunum til þess að vera í þessum samtökum. Það hefur enginn dregið fjöður yfir, að það var gert ráð fyrir því, að öll sveitarfélög væru í þessum samtökum, og ég vil benda honum og öðrum á, sem eru svipaðrar skoðunar, að þetta er í fleiri lögum, t.d. er það í lögum, að hreppar skuli vera í sýslufélagi, — og er nokkur eðlismunur á því, að sveitarfélög séu þá skyldug til þess að vera í þessum samtökum? Það er stefnt að því að fá þessum samtökum veruleg verkefni. Löggjafarvaldið hefur þegar fengið þeim verkefni, og það liggur í loftinu, að þeim verði falin verkefni í vaxandi mæli. Það væri því afar óheppilegt, ef ekki væru til ákvæði í lögum um það, hvernig þessi samtök ættu að starfa, og enn fremur, ef einstök sveitarfélög væru algerlega utanveltu í þessum samtökum, ef löggjöfin færi síðar að fá þeim í hendur verulegt vald til þess að ráða málum, sem varða þann landshluta, sem þau starfa í, en það er auðvitað það, sem er stefnt að með þessu frv., að fá fólkinu í hinum ýmsu landshlutum meiri áhrif yfir eigin málum en áður.

Þá taldi þessi hv. 5. þm. Sunnl., að það væri kastað höndunum til þessa frv. Þetta frv. hefur verið í mótun allengi og öll landshlutasamtökin hafa lagt þarna hönd á plóginn og Samband ísl. sveitarfélaga og það samþykkt áskorun um það, að þetta frv. næði fram að ganga — einróma áskorun á sínum fulltrúaráðsfundi, þar sem voru tugir sveitarstjórnarmanna hvaðanæva af landinu. Þetta frv. hefur því verið lengi í mótun. Það er fjarstæða, að það hafi verið kastað að því höndunum. Það mætti kannske ýmislegt í því laga, en það er alrangt, að það hafi verið kastað til þess höndunum. Og ég get ekki stillt mig um að minna hv. 5. þm. Sunnl. á það, þegar hann talar svona um þetta frv., að hann sagði hér í stórmáli fyrir 2 eða 3 dögum, að hans n. hefði fengið málið til afgreiðslu, hún hefði ekki sent það neinum til umsagnar og afgreitt það á einum fundi. Þetta var ekki að kasta til höndunum. Mér skildist þó á hv. þm., að hann hefði ýmislegt við frv. að athuga.

En ég vil svo að lokum fara aðeins nokkrum orðum um brtt. við þetta frv. frá hv. þm. Pétri Péturssyni og Birni Pálssyni. Mér sýnist, að sú till. geri ráð fyrir því að kljúfa Fjórðungssamband Norðlendinga með einhliða ákvæðum í þessum lögum, þ.e.a.s. með samþykki Alþ. Ég get ekki fellt mig við þessi vinnubrögð Ég hefði viljað, að það kæmi fram brtt., og var búinn að lýsa þeirri skoðun minni, að það kæmi fram brtt. við þetta frv., þar sem það væri skýrt kveðið á, að það væri í höndum heimamanna sjálfra á Norðurl. v., hvort þeir vildu gera þetta eða ekki. Ég hafði formað ákveðnar till., sem ég lét raunar þessari hv. n., sem afgreiddi frv., í té, en nm. gátu ekki fallizt á þá till., og úr varð sú brtt., sem komin er fram um þetta efni. Það má vera, að till. minni sé áfátt, en ég vil ítreka þá skoðun mína, að það verði að vera í höndum heimamanna sjálfra, hvort þeir vilja gera þetta eða ekki, hv. Alþ. eigi ekki að setja ákvæði um að kljúfa þessi samtök, ef heimamenn vilja það ekki, það eigi að vera í þeirra höndum. En mér finnst alveg nauðsynlegt, að inn í þetta frv. komi slíkt ákvæði, og ég féllst á það með þeim, sem hafa gagnrýnt það hér, að það sé eðlilegt, að það komi inn í frv. ákvæði, sem leggi það í hendur heimamanna, hvernig þeir vilji haga þessu sérstaka máli.

Að öðru leyti vil ég svo aðeins hvetja til þess, að hv. þm. greiði fyrir því, að þetta frv. komist í gegn og það verði að lögum á þessu þingi. Það er áreiðanlega yfirgnæfandi meiri hl. þm., sem fylgir því, og það er einróma áskorun þeirra aðila, sem þetta frv. varðar, að það verði gert.