07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

273. mál, reglugerð samkvæmt útvarpslögum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fyrirspurn hljóðar svo: „Hvers vegna hefur ekki enn verið sett reglugerð um framkvæmd útvarpslaga, nr. 19 frá 5. apríl 1971, eins og fyrir er mælt í 25. gr. nefndra laga?“ Svar mitt er svo hljóðandi:

Af orðalagi fsp. mætti ráða, að í 25. gr. útvarpsl. sé menntmrh. fyrirskipað að setja reglugerð skv. lögunum og þá jafnvel innan einhvers ákveðins tíma. Til þess að girða fyrir misskilning er rétt að geta þess strax, að í 25. gr. er einungis venjulegt orðalag, sem veitir ráðh. heimild til þess að setja nánari ákvæði um framkvæmd útvarpslaganna í heild eða einstakra kafla þeirra, en skyldar hann hvorki til að setja slíka reglugerð né til að setja hana innan einhvers ákveðins tíma.

Þegar fyrrv. menntmrh. og fyrirspyrjandi skipaði n. 4. júlí 1969 til þess að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um Ríkisútvarpið, var þess jafnframt óskað, eins og fyrirspyrjandi tók fram, að n. endurskoðaði allar reglur, sem settar höfðu verið um flutning dagskrár og frétta, og gerði till. um nýjar, ef nauðsynlegt yrði talið. N. skilaði drögum að reglugerð fyrir Ríkisútvarpið ásamt frv. til útvarpsl., en hins vegar hlaut sú reglugerðarsmíð vitanlega að miðast við frv. eins og n. gekk frá því, en ekki þær breyt., sem verða kynnu í meðferð Alþ.

Útvarpslögin voru samþ. á Alþ. 1971 og staðfest af forseta Íslands 5. apríl sama ár. Hinn 3. ágúst 1971 fól menntmrhn. n., sem samdi frv., að semja reglugerð skv. lögunum, þ.e.a.s. að endurskoða sín fyrri reglugerðardrög. Drögum að slíkri reglugerð skilaði n. svo með bréfi 29. sept. í fyrra, en 19. júlí í sumar óskaði Ríkisútvarpið eftir breyt. á þessum reglugerðardrögum, að því er varðaði ákvæðið um innheimtu. Einnig hefur útvarpsstjóri, sem var einn af þremur nefndarmönnum, er sömdu reglugerðina, látið í ljós við rn., að hann teldi fyrir sitt leyti hyggilegra að sjá, hvernig ýmis ákvæði hinna nýju útvarpsl. reyndust í framkvæmd og hverra skýringa eða nánari ákvæða þyrfti við í reglugerð, í stað þess að hraða útgáfu reglugerðar, að fenginni lítilli sem engri reynslu af lögunum.

Engu að síður hafði rn. í góðu samstarfi við útvarpsstjóra gengið frá reglugerð samkvæmt útvarpsl. í þann mund, sem fyrirspyrjandi bar fram fyrirspurn sína. Er því ekki einungis hægt að skýra fyrir honum gang málsins, eins og ég hef nú gert, heldur einnig að skýra honum frá því, að reglugerðin hefur nú verið undirrituð og verður birt á venjulegan hátt. Þó er því ekki að leyna, að bæði útvarpsstjóri og rn. telja enn svo litla reynslu fengna af ýmsum mikilvægum breyt., sem felast í lögunum, að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins, að gera megi ráð fyrir, að þessari reglugerð þurfi að breyta, áður en langt um líður.

Þegar reglugerðardrögunum hafði verið skilað til rn. í fyrra, fól ég ráðuneytisstjóranum og deildarstjóra þeirrar deildar rn., sem fjallar um útvarpsmál. að athuga reglugerðardrögin og athuga, hvenær og með hvaða hætti reglugerð samkvæmt útvarpsl. skyldi gefin út. Hafa þeir haft fullt samráð við útvarpsstjóra unn meðferð málsins, og hef ég fallizt á það sjónarmið þeirra, að hin nýja útvarpslöggjöf sé um margt svo óreynd í framkvæmd, að ekki hafi verið ástæða til að hraða setningu reglugerðar meira en orðið er og að hafa verði í huga, að sú reglugerð, sem nú er sett, muni e.t.v. þurfa endurskoðunar við, áður en varir, og jafnvel lögin sjálf.