07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

57. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sá háttur að greiða námsmönnum, sem lán hljóta úr Lánasjóði ísl. námsmanna, hluta lánsins þegar á hausti, m.a. til þess að auðvelda námsmönnum erlendis greiðslu skólagjalda við upphaf skólaárs og bæta aðstöðu námsmanna hér til þess að gangast undir próf. Í hittiðfyrra og í fyrra var um þriðjungi námslánanna úthlutað að hausti. Um s.l. mánaðamót eða 1. nóv. hafði hins vegar engu haustláni verið úthlutað. Skýringin var einfaldlega sú, að sjóðurinn hafði ekki fé til umráða til þess að hefja úthlutun haustlána. Sjóðurinn fær, sem kunnugt er, fé sitt úr ríkissjóði, sem lánsfé frá peningastofnunum, auk eigin tekna, þ.e.a.s. vaxta og afborgana af eldri lánum. Um s.l. mánaðamót hafði sjóðurinn ekki til ráðstöfunar nema 12 millj. kr. lánsfé frá Seðlabankanum, en það er sama upphæð og Seðlabankinn lánaði sjóðnum í fyrra. Aðrar peningastofnanir og ríkissjóður höfðu ekkert fé lagt til sjóðsins á þessu hausti.

S.l. miðvikudag ákvað ég að leggja fram fsp. um þetta mál, þar eð það er mjög bagalegt fyrir námsmenn heima og erlendis að hafa ekki enn fengið nein haustlán. Ég skýrði hæstv. menntmrh. strax frá þessari fsp., eins og ég tel sjálfsagða kurteisi. Daginn eftir mun hæstv. ráðh. hafa efnt til eða látið efna til fundar með öðrum peningastofnunum en Seðlabankanum, og tveim dögum síðar var stjórn lánasjóðsins tilkynnt, að þessar peningastofnanir hefðu lofað sama láni og í fyrra, þ.e.a.s. 48 millj. kr. Væntanlega mun því sjóðurinn nú fá 60 millj. kr. til umráða og mun því geta hafíð úthlutun haustlána á næstunni í einhverjum mæli. Þetta er þakkarvert, þótt ég telji hafa orðið óeðlilega langan drátt á því, að haustlánveitingar væru teknar upp.

En fjárhagsvandamál lánasjóðsins eru enn algerlega óleyst. Till. sjóðsstjórnarinnar fyrir árið 1973 eru um fjárveitingu að upphæð 493 millj. kr. Aukningin frá því í fyrra á sér þessar orsakir: Fjölgun námsmanna veldur 64 millj. kr. aukinni fjárþörf. Útvíkkun lánakerfisins veldur aukinni fjárþörf um 26 millj. kr. Hækkun hundraðstöluhlutfalls af svonefndri umframfjárþörf samkv. áætlun fyrrv. ríkisstj. úr 75% í 85% veldur 49 millj. kr. aukinni fjárþörf. Og að síðustu valda verðlagsbreytingar aukinni fjárþörf um 94 millj. kr.

Samkv. fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir aðeins 273 millj. kr. fjárveitingu til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða rúmlega helmingi af þeirri fjárupphæð, sem stjórn lánasjóðsins telur nauðsynlega. Heyrzt hefur, að ríkisstj. hyggist hækka fjárlagafrv.- töluna þannig, að lánsupphæðir lánasjóðsins þurfi ekki að lækka á næsta ári, en muni heldur ekkert geta hækkað frá fyrra ári. Ef þetta reynist rétt, hverfur hæstv. núv. ríkisstj. frá þeirri stefnu, sem ég gaf skýlausa yfirlýsingu um hér á Alþ. fyrir þrem árum fyrir hönd þáv. ríkisstj., þess efnis, að stefnt skuli að árlegri aukningu námsaðstoðar fram til ársins 1974, þannig að þá verði umframfjárþörf að fullu mætt. Þáv. stjórnarandstaða Lýsti yfir vilja sínum til hins sama, þannig að allur þingheimur var þá sammála um þessa stefnu. Ef reynslan við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1973 verður sú, að horfið verður frá þessari stefnu, ber mjög að harma það, og hlýtur málið þá að koma með öðrum hætti til kasta Alþingis.