17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, er það ekkert nýtt mál, að hér komi fram till. á hv. Alþ. um að breyta skipan á stjórn þessa þýðingarmikla sjóðs. Og það hefur lengi verið í mínum huga a.m.k. talið eðlilegt, að þar fengju aðild bæði útgerðarmenn og sjómenn, en fram til hins síðasta hafa það fyrst og fremst verið þeir aðilar, sem hafa orðið fyrir, a.m.k. á fyrsta stigi, beinu fjárhagslegu tjóni við að byggja þennan sjóð upp. Hins vegar, eins og ég tók fram við 1. umr., viðurkenni ég fúslega, að það hlýtur auðvitað að vera hagur beggja, þegar fram í sækir, að hafa sterkan sjóð sem þennan. Ég hef hins vegar talið það mjög óeðlilegt, að 5 stjórnendur þessa sjóðs væru allir í bankastjórn eða starfsmenn þriggja banka, þótt ég hafi ekki viljað ganga jafnlangt og þeir, sem hafa viljað losna við alla bankamennina. Ég tel það ekki rétt. Hins vegar skal ég fúslega fallast á það, að sú skipun, sem er lögð til í brtt. okkar á þskj. 741, mætti vissulega vera öðruvísi en þar kemur fram. Ég er t.d. alveg sammála hv. 3. landsk. þm., sem er einn af meðflm. þessarar brtt., að æskilegast væri að þurfa ekki að fjölga í þessari sjóðsstjórn, þótt tekið væri tillit til þessara sjónarmiða um aðild vissra hagsmunasamtaka að stjórn sjóðsins. Við ræddum þetta lauslega í gær, ég og hæstv. ráðh., og ég ræddi þá við mína meðflm., alla utan einn, og þeir voru allir fúsir að verða við þessari ósk hæstv. ráðh. En að sjálfsögðu mun þá málið verða athugað aftur að hausti, og þá mun að sjálfsögðu einnig gefast tími til þess að hafa samráð við viðkomandi hagsmunasamtök, sem við teljum, að þarna eigi að eiga hlut að máli. Við tökum því þessa brtt. aftur, forseti.