17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

308. mál, olíumöl

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör hans. Ég vil aðeins geta um það, að ástæðan fyrir því, að spurt er, og á það einkum við um 1. lið spurninganna, er sú, að það er vaxandi áhugi á notkun olíumalar víða um land og ástæða til að ætla, að það sé eina efnið, sem kemur til greina á mjög mörgum stöðum á landinu. Óvíða er hægt að koma við malbikunarframkvæmdum, og þá er ekki um annað að ræða en steinsteypu eða þá olíumöl. En notkun olíumalar hér á landi byggist að sjálfsögðu að verulegu leyti á því, að hæfilegt efni finnist til þessara nota.

Mér er kunnugt um, eins og kom fram í svari hæstv. ráðh., að niðurstöður athugana hafa til þessa verið heldur neikvæðar, einkum á Vestfjörðum og Austurlandi, þar sem áhuginn er þó mestur fyrir að nota þetta efni.

Mér er aðeins kunnugt um staði hér á Reykjanesi og fyrir austan fjall, svo og á Blönduósi og Vík í Mýrdal, þar sem fundizt hefur nothæft efni.

Ég læt í ljós þá von, að haldið verði áfram, eins og ráðgert mun vera, þessum rannsóknum og þeim ljúki á þessu ári. Það eru að vísu aðrir möguleikar en að fá efnið á staðnum. Það er hægt að flytja blandaða olíumöl héðan frá Reykjanesi, en því fylgir að sjálfsögðu mjög verulegur kostnaður.

Varðandi svör við 2. lið fsp. er skiljanlegt, að erfitt sé að gera sér grein fyrir heildarlengd þeirra vega, 2 km eða lengri, sem tilbúnir eru til lagningar olíumalar. En það, sem skiptir mestu máli, er, að það takist samstarf milli sveitarfélaga, þéttbýlisstaðanna úti á landi og Vegagerðar ríkisins um, að lagt verði samtímis á þéttbýlissvæðin og þjóðvegina í næsta nágrenni.