17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

249. mál, endurskoðun bankakerfisins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það er auðvitað í mínu valdi að segja til um það, hvort ég legg fram frv. Ég hef enn þá heimild til þess að leggja fram frv. á Alþ. og þarf ekki að fá leyfi hans eða annarra til þess. Ég sagði auðvitað ekkert um það, að bankarnir yrðu sameinaðir. það get ég ekki sagt um, og það getur væntanlega enginn, fyrr en Alþ. er búið að fjalla um það. Ég lofaði engu um það, en hinu get ég lofað, að málið verður flutt. Ég tel hins vegar mestu máli skipta í sambandi við mál eins og þetta að reyna, eins og kostur er á, að tryggja það, að takmarkinu verði náð, þ.e.a.s. að það takist að fækka bönkum í okkar bankakerfi, og að því er unnið.

Það er alveg óþarfi af hv. þm. að vera með nokkrar getgátur um, að ríkisstj. sé ósátt um málið. Hins vegar gefur það auga leið, þegar um mál af þessu tagi er að ræða, að það geta fleiri en ein leið komið til greina í sambandi við sameininguna. Mér er ekki kunnugt um það, að þeir hafi verið ýkjamargir, sem hafa lýst því beinlínis yfir, að þeir væru andvígir þessari sameiningu, nema hv. 1. þm. Sunnl. Hann hefur auðvitað þegar riðið á vaðið og skrifað grein um það, að hann sé á móti slíku, jafnvel áður en hann sér frv. um málið. Hann um það auðvitað. Hann er á móti þessu máli sem slíku, og við því er auðvitað ekkert að segja. En það hefur verið unnið að því, eins og tök hafa verið á, að reyna að koma málinu áfram, og tryggja því fylgi og reyna að koma því í þann búning, sem menn mættu við una. Það tekur nokkurn tíma, en ég þykist mega lofa því, að frv. verður flutt, þótt ég geti ekki sagt um, hvort það nær fram að ganga.