17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

251. mál, bætt aðstaða ferðafólks og verndun ferðamannastaða

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnuvegur hér á landi. Gjaldeyristekjur og aðrar tekjur af henni fara ört vaxandi. Erlendir ferðamenn koma hér í síauknum mæli, og ferðalög innanlands vaxa einnig. Ferðaskrifstofur, flugfélög og landflutningafyrirtæki ýmis hafa miklar tekjur og drjúgar af því að flytja fólkið um landið, einkum þó til hinna fegurstu staða landsins, sem jafnframt eru oft þeir viðkvæmustu frá náttúrufarslegu sjónarmiði. Þar liggur víða við algerri örtröð. Tjaldfólk, bakpokafólk og hópferðir ferðaskrifstofa sækja þessa staði heim. Það, sem þarna er verið að gera, er raunverulega það, að þessir aðilar eru að nýta ákveðin náttúrugæði, þ.e. náttúrufegurðina, en þeir, sem hafa arðinn af þessu, skila engu til landsins aftur. Þetta er þess vegna rányrkja í þess orðs sönnustu merkingu. Í ljósi þessa hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp., sem er á þskj. 680, til hæstv. samgrh. :

„Eru fyrirhugaðar sérstakar aðgerðir á komandi sumri til þess að bæta hreinlætisaðstöðu fyrir ferðafólk á eftirsóttustu ferðamannastöðunum og til að koma í veg fyrir örtröð á slíkum stöðum? Eru hér sérstaklega hafðir í huga staðir eins og Mývatn og Ásbyrgi“.

Ég get aðeins bætt því við, að það mætti telja upp marga fleiri staði en þessa, en þetta eru þeir staðir, sem ég persónulega þekki til, að liggja mjög undir þessari örtröð. Fólkið t.d. í Mývatnssveit getur varla hugsað til komandi sumars í þessu tilliti.