17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

37. mál, fjárlagaáætlanir

Frsm. minni hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt, að mönnum sé farið að flökra við að ræða um áætlanir hér í kvöld og það sé ekki mikið á það bætandi, og ég skal ekki vera mjög langorður frekar en frsm. meiri hl.

Till. þessi til þál. um fjárlagaáætlanir var lögð fram af hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni, snemma á þessu þingi, enda 37. mál þingsins. Málinu var þá vísað til hv. fjvn., snemma í nóvember, og tók hún málið fljótlega til meðferðar og sendi til umsagnar fjárlaga- og hagsýslustofnunar ríkisins 14. nóv. sl. Umsögn stofnunarinnar um málið barst hins vegar ekki fyrr en 9. apríl s.l.

Umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar er, eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. fjvn., allítarleg. Stofnunin tekur það fram þegar í upphafi grg. sinnar, að hún sé í öllum efnisatriðum sammála því, sem í þáltill. felist. Fjárlagastofnunin bendir á, að enda þótt það sé vissum erfiðleikum háð að gera áætlanir langt fram í tímann sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um framtíðarþróun veigamikilla þátta efnahagslífsins, verði slíkar langtímaáætlanir að teljast eiga sérstöku hlutverki að gegna hér á landi. Stofnunin segir enn fremur, að vart verði hjá því komizt að álykta, að á undanförnum áratugum hafi fjármálalegar ráðstafanir öðru fremur auðkennzt af því að miðast við hvert einstakt vandamál einangrað, eftir því sem það hafi gert vart við sig, en minni gaumur gefinn áhrifum viðkomandi ráðstöfunar á aðra þætti ríkisfjármálanna og efnahagslífsins í heild. Hér kemur fjárlagastofnunin vissulega að kjarna málsins. Handahófskenndar framkvæmdir og fjárfestingar, sem því miður eiga sér stað allt of oft af hálfu þess opinbera, eiga mikinn þátt í þeirri óvissu, sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar, til viðbótar því að hafa löggilt form í sambandi við sjálfa verðbólguþróunina með þeirri skipan og uppbyggingu, sem nú á sér stað varðandi gerð framfærsluvísitölunnar og ekki batnaði með þeirri ákvörðun núv. ríkisstj., þegar hún ákvað með brbl. að taka inn í framfærsluvísitöluna á ný áhrif af verði á tóbaki og áfengi, sem áður hafði verið fellt niður.

Um það mál mætti margt segja, svo og frv. ríkisstj. um sama efni, sem nú hefur dagað uppi. Það verður allt að bíða betri tíma. En um sjálfa fjárlagagerðina eða áætlun í þeim efnum fram í tímann er enginn vafi, að hún gæti haft mikilsverða þýðingu og verið til hagræðis fyrir þá, sem ábyrgð bera á fjármálum ríkisins hverju sinni. Hitt er svo annað mál, að hætt er við því, að línuritið, sem menn hygðust setja sér í dag varðandi framtíðina, geti orðið eitthvað annað, þegar reynslan hefur sýnt þróunina að nokkrum árum liðnum. Ég minnist í þessu sambandi, að spádómar manna hafa stundum reynzt harla óraunhæfir í þessum efnum, þegar þeir hafa verið að spá fram í tímann um þróun fjármála ríkisins. Ég held, að það hafi verið árið 1966, sem núv. fjmrh. viðhafði þau orð um þessi mál, og var hann þá að tala um óhóflega þenslu í ríkiskerfinu og þótti þá nokkuð hratt farið í verðbólguáttina, að ef svo héldi áfram sem horfði og viðreisnarstjórn yrði áfram við völd, þá mundi upphæð fjárlaganna árið 1980 vera komin upp í 20 milljarða. Mörgum þótti þetta fjarstæðukennt í þá tíð. En því er þó við að bæta, að varnagli var á af hálfu hæstv. fjmrh. Það var álit hans á stefnu viðreisuarstjórnarinnar. Nú hefur hins vegar komið í hans hlut að gera bragarbót.

Þrátt fyrir þessar hugleiðingar mun ég nú stytta mál mitt. Í fjvn. varð ekki samkomulag um afgreiðslu málsins. Samkv. nál., sem skilað hefur verið, leggjum við, sem skipum minni hl. n., til, að till. verði samþ. með þeirri orðalagsbreyt., sem þar kemur fram, þ.e. að þessi háttur verði tekinn upp og komið til framkvæmda fyrst við fjárlagagerð fyrir árið 1975.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu og vonast til þess, að hv. alþm, geti fallizt á þessa afgreiðslu málsins, sem einnig er í samræmi við álit fjárlaga- og hagsýslustofnunar ríkisins, eins og fram hefur komið.