18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3455)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Á síðasta degi þess Alþ., sem nú situr, er komið til 2. umr. í fyrri d. mál, sem mælt var fyrir á 6. starfsdegi þessa sama þings, frv. til l. um breyt. á l. um Landhelgisgæzlu Íslands. Það hefði einhvern tíma verið talið, að slælega væru rekin trippin, þegar svo hægt gengur að fá afgreitt mikilvægt mál, mál, sem fékk góðar undirtektir, þegar mælt var fyrir því 18. okt. s.l. En fyrir því hafa hv. stjórnarliðar sín rök: Í fyrsta lagi, að umsagnir hafi ekki borizt. Í öðru lagi heyrðum við það hér fyrir nokkru, að sjálfstæðismenn í hv. allshn. hafi ekkert rekið á eftir málinu. í þriðja lagi, að ríkisstj. hafi þegar séð að nokkru fyrir þeim þörfum, sem frv. er ætlað að fullnægja. Staðreyndirnar eru hins vegar þær, að hv. stjórnarliðar hafa beitt fyrirslætti einum til þess að koma í veg fyrir, að frv. þetta fengi afgreiðslu á þessu þingi. Frv. var tekið fyrir á þremur fundum n. í nóv. og des., síðan ekki fyrr en í marz og afgreitt úr n., eftir að umr. um þennan seinagang höfðu farið fram hér utan dagskrár. Minnihlutaáliti er skilað 30. marz, en áliti meiri hl. 5. apríl. Málið er svo fyrst á dagskrá í dag.

Í þessu frv. eru tvö meginatriði: Í fyrsta lagi, að ríkissjóður leggi landhelgissjóði til árlegt framlag, að upphæð 75 millj. kr. Í öðru lagi, að heimilt verði að verja árlega allt að 26 millj. kr. af fé landhelgissjóðs til byggingar fyrir landhelgisgæzluna í landi og til þess að búa henni að öðru leyti framtíðaraðstöðu.

Eins og fram kemur á þskj. 539 leggur meiri hl. allshn., stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., til, að frv. verði vísað til ríkisstj. með þeim rökstuðningi, eins og fram hefur komið, að ekkert liggi fyrir um kostnað við framkvæmdir landhelgisgæzlunnar á næstu árum og því allar fjárhæðir í sambandi við það ágizkunartölur einar, auk þess hafi ríkisstj. tekið svo myndarlega á þessum málum með því að greiða rekstrarkostnað landhelgisgæzlunnar, og meira að segja fengið heimild Alþ. til að taka allt að 100 millj. kr. lán á þessu ári til smíði eða kaupa á varðskipi, að meira þurfi varla að gera.

Ekki verður annað sagt en að talsverðan kjark þurfi til að bera á borð fyrir hv. þm. rökstuðning fyrir frávísun þessa máls á borð við þann, sem hv. meiri hl. hefur gert. Ég sleppi þá alveg aðdáun og trausti meiri hl. á ríkisstj. Það er vafalaust sett fram af einlægni, en þó kannske misjafnlega mikilli einlægni. Er a.m.k. ástæða til að ætla það eftir umr. hér síðustu daga. Það er auðvitað ekkert annað en fyrirsláttur einn hjá meiri hl. hv. allshn., að ekki sé hægt að samþykkja árlega fjárveitingu til landhelgissjóðs, vegna þess að ekki liggi fyrir, hvað nýtt varðskip muni kosta eða hver kostnaður yrði við það að byggja yfir landhelgisgæzluna í landi. Öllum er ljós þörfin fyrir hvort tveggja, og víst er, að í þessar framkvæmdir verður að ráðast og það fyrr en seinna. Jafnljóst er, að fjárveiting til þessa verður að eiga sér stað á mörgum árum og lán verður að taka. Þess vegna er það ekki höfuðatriði nú, hver upphæðin verður, heldur hitt, að þegar verði byrjað að safna í sjóð. Þetta var hæstv. forsrh. og dómsmrh. alveg ljóst í okt. s.l., þegar þetta mál var hér til 1. umr. Og ég trúi ekki öðru en honum sé þetta jafnljóst nú. Hins vegar þvælist þetta eitthvað fyrir meiri hl. allshn.

Með leyfi hæstv. forseta rifja ég upp örfá atriði úr ræðu hæstv. forsrh. og dómsmrh. Í upphafi ræðu sinnar í okt. lét hann í ljós ánægju sína yfir þeim áhuga og skilningi, sem birtist í þessu frv., á þörfinni fyrir því að efla landhelgisgæzluna. Síðar í ræðunni segir hann orðrétt: „Vissulega er það rétt, sem fram kemur í þessu frv. eða grg. með því, að tekjustofnar þeir, sem landhelgissjóður hefur átt við að búa, hafa verið óvissir og eru í eðli sínu óvissir. Það er auðvitað aldrei gott að þurfa að byggja á slíkum óvissum og breytilegum tekjustofnum, sem geta gefið góða upphæð þetta árið, en e.t.v. litla upphæð annað árið. Þess vegna er það, að ég fagna þeirri hugsun, sem fram kemur í þessu frv., að það skuli bundið í l., að landhelgissjóði skuli alltaf tryggð tiltekin lágmarksfjárhæð“ Síðar segir hann: „Það er kannske ekkert aðalatriði, svo að maður taki nú nokkuð stórt til orða, hvort það eru nefadar 60 millj. eða 70 millj. aðalatriðið er að festa ákveðinn tekjustofn.“

Þetta voru orð hæstv. forsrh. og dómsmrh. Vart verða þau túlkuð á annan hátt en þann, að um jákvæðar undirtektir hafi verið að ræða. Nú vitum við, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj.eru ekki bundnir við að fara eftir því, sem hæstv. forsrh. segir. Það hefur komið fyrir áður á þessu þingi, að tilmæli hans hafa verið hunzuð, jafnvel af flokksbræðrum hans. En satt að segja átti ég ekki von á því, að þetta yrði tekið upp sem einhver regla. En nóg um það.

Við fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. í hv. allshn. leggjum til, að frv. verði samþ., eins og fram kemur á þskj. 473, nál. okkar. Það er skoðun okkar, að það sé ekki ástæða til að bíða eftir sundurliðuðum áætlunum um þann kostnað, sem við blasir, bæði vegna byggingar varðskips og byggingar yfir landhelgisgæzluna í landi, heldur beri þegar að fara að safna í sjóð. Við leggjum þó til, að samþ. verði brtt. okkar, sem við flytjum á þskj. 474. Hún er þess efnis, að niður falli orðin í 2. málsgr. 2. gr.: „á lóð hennar við Selsvör í Reykjavík“. Við sjáum ekki ástæðu til að vera að binda það í lögum, hvar byggja skuli yfir landhelgisgæzluna. Hún þarf aðstöðu í raun og veru víða um land, ekki sízt aðstöðu fyrir flugvélarnar. Þess vegna erum við einnig andvígir till. hv. þm. Stefáns Gunnlaugssonar, sú till. er á þskj. 30, en hann lagði til, að í stað orðanna „á lóð hennar við Selsvör í Reykjavík“ komi: í Hafnarfirði.

Mér er að sjálfsögðu ljóst, að þetta frv. verður ekki samþ. á þessu þingi. Til þess hefur skort allan vilja hjá hæstv. ríkisstj. Ef viljinn hefði verið fyrir hendi, hefði að sjálfsögðu verið unnt að afgreiða þetta frv. á fundum þd. í gær og í dag. En á það mun ekki reyna, eins og haldið hefur verið á málum.