13.11.1972
Efri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Aðalatriði þess frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 73, er breyting á skipun hæstaaréttar, þ.e.a.s. fjölgun um einn dómara í hæstarétti, sem gerir mögulegt að koma við deildaskiptingu í hæstarétti. Getur þá þriggja manna dómur dæmt í minni háttar málum, og geta með þeim hætti starfað tvær deildir hæstaréttar samtímis. Er auðsætt, að slíkt skipulag og starfshættir stuðla að greiðari afgreiðslu mála hjá hæstarétti, en þetta frv. er einmitt liður í þeirri viðleitni að hraða afgreiðslu dómsmála. Afgreiðsla dómsmála hjá okkur hefur þótt ganga helzt til seint. Beinist því áhugi manna um þessar mundir, að þeim endurbótum á réttarfari og dómsstólaskipan, er bætt geti þar nokkuð um. Er ýmis viðleitni í þá átt á döfinni, sem ekki er ástæða til að fjölyrða um að sinni. En eins og ég sagði áðan, má skoða þetta frv. sem einn þátt þeirrar viðleitni.

Það skal að vísu skýrt tekið fram og viðurkennt, að það hefur ekki sérstaklega staðið á afgreiðslu mála hjá hæstarétti. Slíkt hefur fremur átt sér stað annars staðar, á héraðsdómsstiginu og í sambandi við rannsókn mála þar. Þó er það svo, að það er nokkuð ásett hjá hæstarétti, og má ekki miklu muna, að mál verði lengur hjá honum en eðlilegt má telja, en það verður að teljast nauðsynlegt, að mál séu afgreidd nokkurn veginn viðstöðulaust á áfrýjunarstigi. Þetta frv., ef að lögum verður, stuðlar að því, að svo megi verða.

Auk þessarar meginbreytingar, sem í frv. felst, er um nokkrar aðrar veigaminni breytingar að ræða, svo sem varðandi áfrýjunarupphæð og áfrýjunarfresti o.fl., aðallaga til samræmis við breyttar aðstæður eða til að gera ákvæði þau, sem fyrir hendi eru, skýrari en áður og samræma þau.

Frv. þetta er flutt samkvæmt ósk hæstaréttar og samið af hæstaréttardómendum, svo sem fram kemur í grg., en þar segir svo með leyfi forseta: „Dómendur hæstaréttar hafa samið lagafrv., þetta um breyt. á l. nr. 57 1962, um Hæstarétt Íslands, og fylgdi frv. svo hljóðandi grg.:

Það er efni frv. þessa að mæla fyrir um fjölgun dómenda í hæstarétti og kveða á um breytta starfstilhögun, sem dómendafjölgun gerir kleift að ráðast í. Þá er lagt til. að breytt verði ákvæðum hæstaréttarlaga um áfrýjunarupphæð og um atriði varðandi áfrýjunarfrest. Enn fremur er lagt til í frv., að samræmd verði ákvæði um frest í tilteknum tilvikum. Ýmis fleiri atriði í hæstaréttarlögum þurfa breytinga við á næstunni, en ráðlegt þykir að bíða með till. um það, unz heildarendurskoðun á dómaskipun og réttarfarslöggjöf er lengra komið en nú er.“

Um þau rök hæstaréttar fyrir dómarafjölguninni, sem fyrir liggja, get ég vísað til aths. og hef þar í sjálfu sér ekki miklu við að bæta, og er ástæðulaust, að ég fari að lesa það upp eða endursegja. Þó vil ég aðeins, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa á bls. 3 það, sem hæstiréttur segir alveg sérstaklega um dómarafjölgunina út af fyrir sig, en áður hefur verið rakið, hvernig þessum málum hefur verið skipað hjá okkur í þá áratugi, sem við höfum haft innlendan hæstarétt. Með því að lesa þetta, sem kemur þannig beint frá hæstarétti, vil ég vekja athygli hv. dm. á því, hvað hæstiréttur sjálfur segir um þetta, en þar segir svo:

„Mjög er orðið tímabært að fjölga dómendum í hæstarétti. Vinnuálagið á dómendur er miklu meira en svo, að við megi una. Stafar það af málamergð og ónógri vinnuaðstöðu. Í frv. er mælt svo fyrir, að dómendur verði 6 í stað 5 nú. Gerir það kleift að koma á nokkurri vinnuskiptingu innan dómsins við úrlausn einstakra mála. Er lagt til, að heimilt verði, að hin smærri mál dæmi þriggja manna dómur, en öll meiri háttar mál dæmi fimm manna dómur, en ekki gert ráð fyrir, að 6 dómendur skipi dóm. Meginreglan verður sú, að 5 dómendur skipi dóm. Deildaskipting er nú tíðkuð í öllum æðstu dómstólum á Norðurlöndum og víðar í millidómsstigum. Víðast hvar er það látið velta á úrlausn forseta dóms, hvernig starfsskipting þessi er framkvæmd. Á Norðurlöndum er forseti hæstaréttar sérstaklega skipaður til starfans, en hér er forseti valinn af dómendum réttarins hin síðari ár til tveggja ára í senn. Þykir eðlilegt, að dómarafundur ákveði starfstilhögun, starfsskiptingu og deildaskiptingu.

Í lögum um Hæstarétt Íslands allt frá árinu 1919 hafa verið ákvæði um varadómendur og setudómara. Hafa þau tekið nokkrum stakkaskiptum, eftir því sem tímar hafa liðið. Einkum eru prófessorar lagadeildar, sem gegnt hafa störfum varadómara og setudómara, en einnig héraðsdómarar og hæstaréttarlögmenn. Eru grg. um þetta efni í registrum við dómasöfn hæstaréttar árin 1938 og 1970.

Í hinum æðstu dómstólum á Norðurlöndum er það fátítt, að lögfræðingar utan dómstólanna séu kvaddir til dómsstarfa. Með þeirri fjölgun dómara í hæstarétti, sem frv, mælir fyrir um, drægi úr því, að varadómendur yrðu kvaddir til setu í hæstarétti, og mundi að því leyti sparast verulegur aukakostnaður.“

Þetta segja hæstaréttardómendur sjálfir um þetta efni, og sé ég ekki ástæðu til að rökstyðja það frekar, að þörf sé á þessari dómarafjölgun.

Um þá deildaskiptingu, sem á að verða hægt að koma við, eftir að dómarafjölgunin hefur átt sér stað, eru ákvæði í 2. gr. frv., og þar er sagt svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 2. nr. komi ný gr., 2. gr. a, er orðist svo:

5 hæstaréttardómarar skuli skipa dóm. Þó er heimilt, að 3 hæstaréttardómarar skipi dóm í einkamálum, ef úrslit máls eru hvorki mikilvæg frá almennu sjónarmiði né varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni aðila, og í opinberum málum, ef refsing, sem getur legið við broti, er ekki þyngri en varðhald eða tveggja ára fangelsi.

Dómurinn ákveður, hve margir dómarar og þá hverjir skulu skipa dóm í máli.“

Síðan segir í 3. málsgr.:

„Ef mál er umfangsmikið, er dómi heimilt að ákveða, að hæstaréttardómari, sem eigi dæmir í því máli, hlýði á málflutning og taki sæti í dóminum, ef dómari forfallast.“

Samkvæmt þessari gr. geta dómendur í einstöku máli verið ýmist 3 eða 5. Það er dómarafundur, sem ákveður, hve margir dómendur og þá hverjir skuli skipa dóm í hverju máli og eftir því greinimarki, sem segir í 2. gr. Eftir sem áður verður það sjálfsagt aðalreglan, að 5 menn skipi dóm, en í veigaminni málum er gert ráð fyrir, að þrír dæmi. Ég verð að segja það eins og það er, að það má nú teljast nokkur ofrausn í sumum þeim málum, sem til hæstaréttar er skotið, að það sitji 5 dómendur í dómi, og það verður ekki talið að mínum dómi, að réttaröryggi sé stefnt í nokkra hættu með því, að aðeins 3 dæmi í þeim málum. Má í því sambandi minna á, að um árabil var hæstiréttur aðeins skipaður 3 dómurum, og mun enginn hafa talið, að störfum hans væri áfátt á því tímabili.

Það skal að sjálfsögðu játað, að það er teygjanlegt, hvaða mál eru mikilsháttar og hver eru veigaminni. Segja má, að hvert mál sé veigamikið frá sjónarmiði þess einstaklings, sem á í hlut. En í 2. gr. er sem sagt sett viðmiðun, sem eðlileg sýnist og ætla má að við megi styðjast.

Ég bendi aftur á það nýmæli, sem er í 3. mgr. gr., þar sem segir, að ef mál er umfangsmikið, sé dómi heimilt að ákveða, að hæstaréttardómari, sem ekki dæmir í því máli, hlýði á málflutning og taki sæti í dóminum, ef dómari forfallast. Það hefur æðioft komið fyrir, þegar um umfangsmikið mál er að tefla, að dómari forfallist, á meðan á málflutningi stendur, t.d. vegna veikinda, og þarf þá að taka málflutninginn upp að nýju, þannig að þau vinnubrögð, sem hér er stungið upp á eða gert ráð fyrir, sýnast vera til nokkurs hagræðis og eru tekin upp í þetta frv. eftir norskum hæstaréttarlögum.

Að sjálfsögðu má segja, að þessu frv., ef að lögum verður, fylgi nokkur kostnaður. Þó er það svo, að frá þeim launum, sem bætast þarna við laun hæstaréttardómara, kemur til frádráttar sú þóknun eða þær þóknanir, sem greiddar hafa verið varadómendum í hæstarétti, en það hefur kveðið allmikið að því sum árin a.m.k., að varadómendur hafi setið ærið oft í hæstarétti, og hygg ég, að þar sé um talsverðar upphæðir samtals að ræða, sem þannig mundu að verulegu leyti sparast við fjölgun dómaranna.

Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að láta koma fram, að það var aðalósk hæstaréttar, að það yrði fjölgað um tvo dómendur í hæstarétti og hæstaréttardómarar yrðu 7. Þá skipan má sjálfsagt rökstyðja á ýmsan hátt, og a.m.k. út frá fræðilegum sjónarmiðum gæti komið betur út að hafa 7 dómendur þar heldur en 6. Ég treysti mér ekki í þetta sinn og á þessu stigi að fara lengra en þetta frv. ber vitni og leggja til, að bætt verði við einum hæstaréttardómara. En ég vil sem sagt láta hv. þdm. vita af þessari aðalósk hæstaréttar, og ef hv. þdm. sýndist að athuguðu máli, að rétt væri að verða við þeirri meginósk, yrðu sjálfsagt fáir ánægðari með það heldur en ég.

Ég leyfi mér svo að leggja til. að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.