13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr, mikið umfram það, sem þegar er.

Það er ekki rétt, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að skilyrði væru ekki fyrir hendi hjá verzlunum víða úti um land til þess að annast mjólkursölu. Það er orðin gerbreyting í þessu efni, og víðast, hygg ég, að í þorpum séu fleiri en einn aðili til þess fullfærir að annast þetta. Hann gat þess réttilega, að ég hefði látið þess getið, að ég væri ekki kunnugur því, hver tildrög voru til þess skipulags, sem er á dreifingu og sölu mjólkur hér í Reykjavík, og ég gat þess m.a., að það kynnu að hafa verið þær ástæður, að ekki voru fyrir hendi aðstæður til þess að annast sölu og dreifingu á mjólk með þeim hætti, sem heilbrigðiskröfur t.d. krefðust. Ég er ekkert að draga í efa, að þeir, sem hafa ráðíð ferðinni hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík t.d., eigi lof skilið og geti verið stoltir fyrir það, sem þeir hafa að þessum málum starfað í áratugi. En nú eru gerbreyttar aðstæður á allra handa máta, og þess vegna þarf að endurskoða málið frá grunni.

Ég fór ekkert rangt með í sambandi við tölur, sem ég nefndi. Ég tók fram, að ég hefði ekki krufið það efni til mergjar að neinu leyti, og vitaskuld er það rétt, sem hv. þm. segir, að þeir eigi ekki bundnar nema eins og 11.5 millj. kr. í þessum fasteignum. En ég talaði um endursöluverð þeirra, og lauslega gat ég þess til, að það væri ekki úr vegi að ætla söluverð þeirra 70–80 millj. Eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk, á Mjólkursamsalan 37 verzlanir í Reykjavík, hún á 56 alls, 19 utan Reykjavíkur, en hefur á leigu á Reykjavíkursvæðinu ekki nema 13. Nú leiðréttist þetta, ef ég hef rangt fyrir mér, en þetta eru nýlegar upplýsingar fengnar hjá Mjólkursamsölunni sjálfri, Þegar ég ræddi um þær launagreiðslur, sem Mjólkursamsalan innti af hendi, og það fjármagn, sem hundið væri, átti ég við það heildarfjármagn, sem yrði laust til ávöxtunar með öðrum hætti, ef t.d. allar verzlanirnar yrðu seldar. Og þessum 48–50 millj., sem gera má ráð fyrir, að launakostnaður hjá samsölunni sé, mætti þá verja og yrði vitanlega að verja að nokkru vegna aukins kostnaðar að öðru leyti. En það er út af fyrir sig að benda á það, að mikil röskun yrði á högum þess fólks, sem starfar í mjólkurverzlunum, ef þyrfti að segja því öllu upp. Þetta er alveg rétt. En það mætti þá kannske hugsa sér, að þeir þyrftu að bæta við hjá KRON, þar sem stendur heiftarlega á afgreiðslunni, eins og dæmi voru nefnd um af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Hann segir, að það sé viða. Ég þykist jafnkunnugur honum hér í borg, og það eru rétt sæmilegir afgreiðsluhættir víðast. Ef það sýnir sig, að hagkvæmara sé í alla staði að breyta til og það kæmi út úr dæminu eftir ítarlega rannsókn, að það væri hagkvæmt að loka þessum búðum og selja þær og hafa þar aðra starfsrækslu, þá er vitanlega ekkert við því að segja, þótt það leiddi til þess, að segja yrði upp því fólki, sem að þessu starfar. Eins og nú standa sakir, sem betur fer, má gera ráð fyrir því, að það væri nokkuð auðvelt fyrir það að fá aðra atvinnu, og a.m.k. einhver hluti þess fólks gæti fengið atvinnu hjá þeim aðilum, sem tækju við dreifingunni, því að eins og ég nefndi t fyrri ræðu minni, þá er vafalaust, að það þyrfti að bæta við starfsfólki til þess að annast þá auknu starfsemi, sem þessu yrði samfara.

Ég læt svo lokið máli mínu. Ég ítreka þá ósk mína, að nú gangi greiðlega skipun n. til rannsóknar á þessu máli, eins og hæstv. landbrh. lofaði, öll mál verði ítarlega könnuð, ekki rasað að neinu, það er óþarft, enda þótt mjög knýi á víða úti um land, að úrbætur séu gerðar og horfið sé frá þeim óeðlilegu og óheilbrigðu verzlunarháttum, sem við höfum mýmörg dæmi um og eru þeim, sem þeim stjórna, til háborinnar skammar. Allt að einu er málið svo viðamikið, að hér má ekki fara rasandi að neinu, en þó hefjast handa hið allra fyrsta.