14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

265. mál, framhald á gerð Norðurlandsáætlunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Í svari hans kom fram, að það er ekki ráðgert að framkvæma vegaframkvæmdir á Norðurlandi fyrir 20 millj. kr., sem Alþ. gerði þó ályktun um í formi Norðurlandsáætlunar á síðasta þingi. Þetta kom skýrt og ótvírætt fram í svari hæstv. ráðh. og ég get ekki látið hjá líða að harma það, að hæstv, ríkisstj. hefur ekki getað séð sér fært að framfylgja vilja Alþ. að þessu leyti. í svari ráðh. kom fram, að ýmsar aðrar framkvæmdir hafa tafizt. Ég gat þess, að 14 millj, kr. væru bæði á Norðurlandsáætlun og vegáætlun til framkvæmda milli Reistarár og Hörgár á Ólafsfjarðarvegi. En nú hefur aðeins verið framkvæmt þar fyrir tæpar 5 millj. kr., eftir því sem mér skilst. Það er komið nokkuð langt fram í nóv., þannig að mér sýnist, að það sé hæpið að fullyrða, að það sé hægt að ljúka þessari framkvæmd á þessu ári.

Einnig kom fram í svari ráðh., að á Norðurlandi hefði vantað verkfæri til vegaframkvæmda. Það má vel vera, að það hafi verið svo sérstakt neyðarástand í þessum efnum á Norðurlandi eingöngu, en ég hef ekki orðið var við, að vegaframkvæmdir hafi tafizt annars staðar á landinu af þessum sökum, t.d. Austfjörðum.

Þá vil ég fagna því, að það mætti ráða í það af svari ráðh., þó að hann tæki það skýrt fram, að hér væri aðeins um tillögugerð að ræða, að það yrði eitthvert verulegt átak gert á Akureyrarflugvelli á næsta ári. Það kom fram í svari hæstv. forsrh., að Norðurlandsáætlun yrði að þessu sinni látin ná til flugmála og 25 millj. kr. yrði varið til framkvæmda í flugmálum á Norðurlandi. Hann minntist að vísu ekki þar á Akureyrarflugvöll, en ég vænti þess, að þessum brýnu framkvæmdum á Akureyrarflugvelli verði lokið á næsta ári, þannig að það verði hægt að taka flugstöðina a.m.k. í notkun, sem er jafnmikil þörf á og ég gat um í minni frumræðu.