23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

68. mál, eignarráð á landinu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er athyglisvert við þessar löngu umr., að svo að segja hver einasti ræðumaður, sem andmælt hefur till., sem er á dagskrá, hefur viðurkennt fleiri eða færri af þeim rökum, sem færð eru fram fyrir till. Þeir hafa viðurkennt þau vandamál, sem eru mörg og fer fjölgandi í okkar þjóðfélagi, sem eru meira eða mínna tengd landinu sjálfu. Hins vegar er augljóst, að þeim fellur ekki við þá lækningu, sem tillögumenn hafa bent á. Þeir eru m.ö.o. eins og sjúklingar, sem vita af krankleika sínum, en finnst meðalið svo vont, að þeir ýta því frá sér. Ég tel, að það sé nokkur vinningur að þeirri viðurkenningu, sem felst í því, að vandamálin séu fyrir hendi og þau fari vaxandi, og ég tel eðlilegt, að við ræðum þá á þessum vettvangi og öðrum um úrræðin. Við jafnaðarmenn höfum okkar hugmyndir um meðölin. Ef aðrar till. koma fram, sem ná meirihlutafylgi, en lækna meinsemdirnar, þá er það vinningur fyrir þjóðina.

Ég tel, að það sé rétt túlkun, sem komið hefur fram hjá nokkrum ræðumönnum, að mál sem þetta er nú komið upp vegna þess, hve þjóðfélagshættir eru breyttir hér á landi eins og annars staðar. Mikill meiri hluti þjóðarinnar býr nú í þéttbýli. Fyrst í stað var margt af þessu fólki komið úr sveit, en með nýjum kynslóðum, sem vaxa upp, breytast viðhorfin og það verða margir tugir þúsunda af fólki, sem þekkir ekkert nema mölina og malbikið og leitar í vaxandi mæli út til náttúrunnar af ýmsum ástæðum og í ýmsu skyni. Við skulum líta á þetta sem þjóðfélagsvandamál, reyna að sjá, að það spannar yfir langan tíma. Það hefur verið að vaxa og það á eftir að vera með okkur alllengi enn, áður en það verður leyst, ef endanleg lausn er þá nokkur til.

Það hefur komið fram hér í umr., að bændur líta á mál þetta sem eins konar árás á sig og hafa sem landeigendur litið á sig sem þann aðila, sem málið beinist gegn. Ég vil lýsa yfir, að ég harma það, að þessu máli skuli vera tekið á þennan hátt af bændum og talsmönnum þeirra. Ég held þvert á móti, að það mundi koma í ljós, þótt síðar verði, að grundvallarhugmyndir þessa máls eru eitthvert mesta hagsmunamál bændastéttarinnar, sem upp hefur komið, því að staða hennar í dag er þannig, að hún á í vök að verjast að mörgu leyti. Ein hættan, sem steðjar að bændastéttinni á Íslandi, er sú, að peningamenn þjóðarinnar sækjast nú meira og meira eftir því að kaupa upp landið, ekki til þess að setjast að á því, rækta það og búa á því, heldur til þess að festa peninga sína í því til að geta grætt á landinu, til að geta haft þar einhverja aukaaðstöðu, — ég tala nú ekki um, ef um hlunnindi er að ræða. Við erum ekki þeir einu, sem eiga við þetta vandamál að stríða. Í nágrannalöndum okkar er það einnig fyrir hendi. Þýzkir auðmenn kaupa svo upp jarðir í Danmörku og Írlandi, að það er talið vera allt að því plága í báðum þessum löndum og illviðráðanlegt vandamál, sem verði að finna einhverja lausn á. Þessi plága er komin hingað til lands. Ég hef sem alþm. oftar en einu sinni lifað það, að fjársterkir menn hafa spurt, hvort ég viti ekki um einhverjar góðar jarðir í Vesturlandskjördæmi, sem hægt sé að fá til kaups. Þetta þekkjum við allir, og ég tel, að þessi þróun sé bændastéttinni og landbúnaðinum hættuleg. Og það væri stórum öruggara, bæði fyrir bændastéttina og fyrir þjóðarheildina, að það land, sem einstakir bændur sitja ekki og rækta, væri í opinberri eigu, annaðhvort sveitarfélaganna eða ríkisvaldsins.

Það er athyglisvert, eins og ég sagði áðan, að þetta mál snertir marga fleiri en bændur. Þetta snertir sjálft þéttbýlið líka og e.t.v. einna mest svæðin, sem eru á mörkum þéttbýlis og dreifbýlis. Enda heyrðum við, að fyrstu mótmælin gegn þessari till., sem komu fram opinberlega, voru frá landeigendum í Mosfellssveit, þar sem lóðaverðið fer nú allört hækkandi, vegna þess að þangað hefur verið lagður svo góður vegur, að menn geta búið þar og stundað vinnu í Reykjavík. Þetta segir sína sögu.

Ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu er lítill dalur, ákaflega fallegur og sérkennilegur. Þar eru tvö sæmileg býli, en ekki aðstaða fyrir neinn stóran búrekstur. Þessi dalur er eftirsóttur og ágætt útivistarsvæði fyrir fólkið á þessum mikla þéttbýlissvæði, og þar eru oft haldin ýmis mót, t.d. skátamót og annað slíkt. En helmingurinn af þessum dal er í einkaeign, þar er girðing, og börnin af Reykjavíkursvæðinu, sem koma í dalinn og dveljast þar vegna vinsemdar bændanna, sem lána þeim hluta af sínu landi, fá ekki að fara yfir á hinn helminginn eða gera nokkurn skapaðan hlut þar. Það er ekki bóndi, sem á þennan helming. Það er vellauðugur maður hér í Reykjavík, sem ekur á stórum amerískum bíl. Og það er þessi þróun, hálfi dalurinn, sem ég tel, að sé uggvænleg og eitt af því, sem við verðum að spyrna gegn. Ég vil ekki taka undir till. um að þurrka eignarréttinn út eða neitt slíkt. En það er hægt að misnota hann eins og öll önnur réttindi. Og eignarréttur á landi hefur að mörgu leyti algera sérstöðu. Þetta dæmi er glöggt, og svipað þessu er að gerast víðar. Ég gæti e.t.v. bent á dæmi úr fleiri dölum, þó að þau séu ekki eins áberandi og þetta.

Við skulum færa okkur úr dalnum og nær þéttbýlinu og athuga t.d. hér í höfuðstaðnum, hver stefna borgaryfirvalda hefur verið í landeignarmálum. Ef við lítum á það, kemur það í ljós, að stjórnendur Reykjavíkur byrjuðu á því um síðustu aldamót að kaupa jarðir kringum bæinn. Og þeir héldu því áfram. Fyrst í stað vantaði haga fyrir fénað bæjarbúa. Næsta skrefið var að kaupa lönd til að tryggja vatnsveitu og vatnsréttindi. Þriðja skrefið var að kaupa enn lönd vegna virkjunarmála. Og fjórða og e.t.v. stærsta skrefið, mestu landakaup Reykjavíkur, var réttlætt á eðlilegan hátt með því, að það vantaði land til útivistar fyrir borgarana og vegna sumarbústaða. Það hefur farið svo, að Reykjavík hefur keypt mjög mikið land og á bróðurpartinn af bæjarlandinu, Ef ekki eitthvað út fyrir þau mörk. Þetta er eitt af því, sem borgaryfirvöld hér hafa gert, bæði fram að stofnun Sjálfstfl. og eftir að hann var stofnaður, því að alltaf hefur hann ráðið Reykjavík einn. Þetta er eitt af þeim stefnuatriðum í stjórn borgarinnar, sem njóta almennastrar viðurkenningar. Erlendir sérfræðingar, sem hafa fjallað um skipulagsmál hér, hafa talið til mikillar fyrirmyndar, hvað væri miklu léttara að þróa borgina og skipa málum hennar vegna þess, að hún gat eignazt svo mikið af landinu innan borgarmarkanna. Sennilega eru hlutfallslega fleiri borgarbúar á þessu svæði, sem eiga sínar íbúðir, heldur en í nokkurri annarri borg í veröldinni. Hvernig hefur þetta orðið mögulegt! Haldið þið, að þetta hefði getað gerzt, ef hver einasta fjölskylda, sem á íbúð í Reykjavík, hefði orðið að borga Arnarnesverð fyrir landið, sem húsið stendur á? Ég held, að það væru færri eigendurnir í dag, ef svo hefði verið. Þessi stefna borgarinnar, að eignast landið í kringum sig, koma því í eigu sveitarfélagsins, hefur gert þetta kleift. Má því segja með sanni, að þarna hefur þjóðnýtingin, — ég kalla það þjóðnýtingu, þegar Reykjavíkurborg eignast landið, alveg jafnt og þótt ríkissjóður ætti það, — orðið til þess að ýta meira en e.t.v. nokkuð annað í íslenzku þjóðfélagi undir það, að borgararnir gætu eignazt íbúðirnar, sem þeir búa í. Menn geta rétt ímyndað sér, hvað útsvörin hefðu orðið miklu hærri, ef það hefði þurft að borga jafnóðum verð t.d. eins og ég nefndi í Arnarnesi fyrir hvern götubút og hvern garð í borginni, ég tala ekki um opinberar byggingar eða byggingar atvinnuveganna.

Þessu til viðbótar má benda á, að flest sveitarfélög í landinu, þar sem um þéttbýliskjarna er að ræða, hafa fylgt í fótspor höfuðborgarinnar og reynt að eignast landið, sem þau þurftu til þess að geta vaxið eins fljótt og hugsanlegt hefur verið. Viða hefur þetta gengið átakalaust. Sveitarfélögin hafa getað fengið til kaups næstu jarðir. Stundum höfum við hér á Alþ. samþykkt að selja sveitarfélögum ríkisland og þá væntanlega með betri kjörum en almennt gerast, en stundum hefur þetta leitt til erfiðleika, eins og nefnt hefur verið varðandi Keflavík, þar sem bæjarfélagið þurfti að eyða tugum millj. í að kaupa upp örlítið landrými, svo að hægt væri að halda áfram byggingu íbúðarhúsa.

Það er því ljóst, að jafnvel stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa ekki litið svo á, að einstaklingarnir ættu að eiga landskikana, sem þeir búa á, heldur talið, að stórar spildur ættu að vera í eigu hins opinbera. Þannig hefur Sjálfstfl. a.m.k. í framkvæmd, — og raunar býst ég við, að flestir flokkar megi kallast aðilar að þessari stefnu í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum, — fylgt þeirri stefnu, að landið þurfi að verða opinber eign, þar sem um útþenslu og vöxt þessara byggðarlaga hefur verið að ræða.

Ég þarf ekki að rökstyðja frekar þessa stefnu sveitarfélaganna. En ég vil aðeins benda á, að till. okkar Alþfl.-manna gerir í raun og veru ráð fyrir því í aðalatriðum, að nú sé kominn tími til að taka upp sömu stefnu fyrir landið í heild eins og Reykjavík og raunar flest önnur þéttbýlissveitarfélög hafa fylgt fyrir sjálf sig og næsta nágrenni. Mér finnst, að andstæðingar þessarar till. taki allt of mikið upp í sig, þegar þeir tala um bana eins og það sé nú þegar búið að breyta stjórnarskránni, fótumtroða hana og ég veit ekki hvað. Ég skil það, að þeir telji slíka breytingu á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar vera óhjákvæmilega afleiðingu af þeirri stefnu, sem í till. er boðuð. Það er þeirra skilningur. En ég er ekki á sama máli. Við flm. þessa máls höfum einmitt bent á, að framkvæmd till. mundi taka áratugi, og við það má bæta nokkrum árum, því að við kaup á jörðum mundi hið opinbera oft og tíðum geta borgað með skuldabréfum, sem enn ættu að greiðast á árum þar á eftir, þannig að kostnaðurinn mundi dreifast á alllangt tímabil. En sú hugmynd, sem við á þennan hátt bendum á, sýnir auðvitað, að við höfðum ekki í huga neina snögga stjórnarskrárbreytingu eða eignaupptöku. Það er ástæðulaust með öllu að nota slík orð. Ég get bent á, að sveitarfélögin hafa að vísu í einstökum tilfellum beitt lagaheimildum til að taka eignarnámi land, sem þau þurftu á að halda, en ég býst við, að meiri hlutinn af því landi, sem sveitarfélög hafa eignazt til sinna þarfa á undanförnum árum og áratugum, hafi fengizt án þess að beita slíkum aðferðum. Framkvæmd þessarar till. á nokkru árabili gæti því að minni hyggju hæglega rúmazt innan þeirra ákvæða, sem eru í stjórnarskránni, og e.t.v. ekki langt frá þeim ákvæðum, sem eru í lögum í dag, þótt að sjálfsögðu megi, eins og flestir aðrir hafa bent á, breyta ýmsum lögum, sem þessi mál snerta.

Ég vil að lokum benda á, að viðhorf mannsins almennt til landsins hafa á síðustu árum gerbreytzt af ástæðum, sem allir þekkja. Ég vil benda á, að vegna tækninnar hafa viðhorf atvinnurekstrar til landsins einnig stórbreytzt. Og ég vil loks benda á, að hættur á eyðileggingu landsins eru nú margfaldar við það, sem þær voru fyrir fáum árum. Það eru þessar stórkostlegu breytingar, sem valda því, að till. eins og sú, sem hér er til umr., hlýtur að koma á dagskrá, og við, sem að till. stöndum, teljum, að þjóðfélagið verði að bregðast við þessari þróun og gera það á myndarlegan hátt og gera það nógu snemma. Ég er sannfærður um, að þjóðfélag næstu framtíðar mun krefjast þess, að landið sé almannaeign, og ég er því sannfærður um, að þetta mál, hvernig sem fer um till. okkar á þessu þingi, verður á dagskrá og mun verða að veruleika fyrr eða síðar.