29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. lýsti vonbrigðum sínum yfir því, hvað hafi dregizt að afgreiða þetta mál hér á þingi, og hvatti til, að það gengi skjótt í gegnum þessa d., þar sem hér væri um samkomulagsmál að ræða, sem ætti ekki að þurfa að taka langan tíma. Ég skil ekki í, að neinn hafi löngun hér í þessari hv. d. til að tefja fyrir málinu. Hins vegar skilst mér, að það hafi verið til meðferðar einn mánuð eða um það bil í hv. Nd., sem ég skal ekki segja, af hverju stafar. En það er vitanlega mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að hér sé um neitt samkomulagsmál að ræða. Það hefur að vísu enginn snúizt gegn því, að þetta verði að gerast, úr því sem komið er, en því fer víðs fjarri, að samkomulag sé um málið sem slíkt.

Í sannleika sagt er það alveg einstök árátta á núv. hæstv. ríkisstj., ef hún veit um nokkurn sjóð, að reyna að koma honum í lóg og það sem allra fyrst. Og það hefur tekizt með flesta sjóði. Ég held, að þetta sé sá eini, sem eitthvað teljandi er eftir í, og þá varð náttúrlega að gera ráðstafanir til þess að höggva þar í nokkurt skarð. Ég skal játa, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki enn sem komið er höggvið þar stórt skarð, það er rétt, hvað sem kann að vera á næsta leiti í þeim efnum. Ég skal koma að því síðar.

En mér fannst það skemmtilegast við ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, í hve mikilli baráttu hann hefði staðið við að vernda þennan sjóð fyrir ágangi þeirra, sem áttu sjóðinn, og að hann hefði ekki viljað fallast á að veita úr sjóðnum í rauninni allt það fé, sem hefði verið farið fram á, heldur spyrnt þar við fótum og leitazt eftir megni við að koma í veg fyrir, að sjóðurinn væri notaður með þessum hætti. Þetta væri allt vafasamt, og sú ósk, sem fram hefði verið borin um viðmiðunarverð, hefði að hans mati og hans samstarfsmanna verið hæpin, þannig að sjóðsstjórnin og aðilar sjóðsins hefðu hér viljað ganga lengra en góðu hófi hefði gegnt.

Ef málið lægi raunverulega svona fyrir, væri það vissulega virðingarvert og þakkarvert, að hæstv. ráðh. hefði sýnt þennan áhuga á að vernda sjóðinn, því að auðvitað er sjóðurinn hér algerlega misnotaður. Myndun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er einhver merkasta ráðstöfun, sem gerð hefur verið til þess að reyna að skapa jafnvægi í okkar óstöðuga efnahagskerfi á sviði sjávarútvegsins. En það er sjávarútvegurinn, eins og við vitum, sem jafnan hefur ráðið úrslitum um þau efnahagsvandamál, sem skapazt hafa á undanförnum árum og áratugum og oftast hafa verið til meðferðar hér í Alþ. Ég held, að það geti naumast nokkrum blandazt hugur um, hve skynsamlegt það var, þegar þessi sjóður var stofnaður, og hversu æskilegt það var, og má þá saka auðvitað bæði fyrrv. ríkisstj. og fyrri ríkisstj. um það að hafa ekki löngu fyrr myndað þennan sjóð, þannig að það hefði verið hægt að mæta með þeim hætti þeim geysilegu sveiflum, sem verða í sjávarútvegi.

En hvað sem því líður er þessi sjóður til, og honum hefur verið ætlað ákveðið hlutverk, eins og hæstv. ráðh. réttilega gat um, og það er að standa undir verðhruni eða verðfalli, sem verður á erlendum mörkuðum í sambandi við framleiðsluvörur sjávarútvegsins. Hér er sjóðurinn notaður til allt annars en honum er ætlað samkv. verkefni hans, og vitanlega var það rétt hjá hæstv. ráðh., að ákvörðun viðmiðunarverðs, sem ekki byggðist á neinu verðfalli, heldur einhverju öðru, var röng og að því leyti var afstaða ráðh. í því efni rétt. En það er auðvitað jafnrangt að nota sjóðinn með þessum hætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þó að menn nálgist þar málið frá nokkuð annarri hlið og séu ekki að vefja það í rauninni fyrir sér, að þarna sé verið að gera undantekningarráðstöfun.

Ráðh. lagði málið þannig fyrir hér og gerði það einnig í hv. Nd., að hann hefði í rauninni verið að framkvæma vilja aðila sjóðsins og eigenda hans, þ.e.a.s. þeir hefðu farið fram á það, sem er það eina, sem gert hefur verið hér í þessu efni, að leyfa þeim að nota sitt eigið sparifé. Sjávarútvegurinn á þetta fé, og þess vegna er ekki um annað að ræða hér heldur en leyfa eigendum fjárins að taka það út úr sinni sparisjóðsbók, ef svo má segja. Hér er ekki um neina opinbera aðstuð að ræða á einn eða annan veg.

Málið liggur auðvitað alls ekki svona fyrir, heldur þannig, að þegar það var ljóst, að fiskverð varð að hækka, eins og hæstv. ráðh. gat um, fóru aðilar sjávarútvegsins, fyrst og fremst L.Í.Ú., fram á það, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að skapa sjávarútveginum æskilegan grundvöll, og í bréfi, sem liggur fyrir og sent var sjútvn. hv. Nd., er tekið fram af Landssambandi ísl. útvegsmanna, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í ljósi þessarar staðreyndar, sem áður er getið um,“ þ.e.a.s. útreikningum á afkomu sjávarútvegsins, „var augljóst, að fiskverð varð að hækka frá 1. okt., ef ekki átti að koma til algerrar rekstrarstöðvunar: ` Þegar þetta lá fyrir, voru teknar upp viðræður við sjútvrh. samkv. umræddu bréfi og þar farið fram á, að veitt yrði aðstoð til að leysa þennan vanda. Þetta er auðvitað alveg með sambærilegum hætti og gerzt hefur æ ofan í æ undanfarin ár og áratugi. Og því hefur jafnan verið mætt með einhverri sérstakri fjáröflun til þess að mæta vandanum, annaðhvort með beinum framlögum úr ríkissjóði eða sérstakri fjáröflun eftir öðrum leiðum, og það hefur auðvitað verið ríkissjóður og ríkisstj. sem slík, sem að þeirri fjáröflun hefur jafnan staðið. Það svar, sem veitt var fulltrúum útgerðar og fiskiðnaðar í þessu efni af hæstv. sjútvrh., var eftir upplýsingum þessara aðila sjálfra, að það kæmi ekki til neinna mála, að nein slík aðstoð yrði veitt, og eina ráðið til þess að leysa vandann væri að gera verðhækkunina mögulega, eins og það er orðað í bréfinu, með því að taka fé úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þetta var ábending hæstv. ráðh. og beinlínis þessum aðilum tilkynnt, að þeir gætu ekki komið í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins með öðrum hætti en þessum. Þess vegna er ekkert að undra, þó að það hljómi næsta einkennilega í eyrum manna, þegar hæstv. ráðh. stendur hér upp og heldur því fram, að hann hafi staðið dyggan vörð um sjóðinn og reynt að hindra, að honum væri ekki tortímt í þeirri aðför, sem að honum hafi verið gerð af eigendum sjóðsins. Hér er málinu svo gersamlega snúið við, að míg undrar það, að jafnglöggur maður og hæstv. ráðh. er og margreyndur skuli reyna til að snúa málinu svo við. Það eru sem sagt aðilar sjóðsins, sem er sagt hreint og klárt: Þið fáið enga opinbera aðstoð til að koma í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins. Þið megið nota ykkar eigið sparifé, sem átti að vera til erfiðu áranna, þegar verðfall yrði, til þess að mæta ykkar vanda nú. Og ég skal góðfúslega fallast á það, að þið notið ykkar eigin peninga. — Þannig liggur málið einfaldlega fyrir. Og þetta er það, sem Alþ. er beðið um að lögfesta, af því að með öðrum hætti hefði það ekki verið framkvæmanlegt.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að vera að vefja þetta mál. en gat ekki stillt mig um að láta þetta sjónarmið koma hér fram, þar sem málið horfir á allt annan veg við heldur en hæstv. ráðh. leggur það fyrir, ekki á þann hátt, að það væri ekki full þörf á þessu fé, heldur að því leyti til, að málið ber að með allt öðrum hætti en hæstv. ráðh. vill vera láta. Það var aldrei vilji aðila verðjöfnunarsjóðs og eigenda hans að nota hann í þessu skyni, heldur voru þeir neyddir til þess. Þetta liggur ljóst og skilmerkilega fyrir, og tjóar ekki fyrir hæstv. ráðh. að hrista höfuðið út af því. (Gripið fram í.). Ég veit ekki — það getur vel verið, að Landssamband ísl. útvegsmanna fari með ósannindi í sínu bréfi, ég veit það ekki. Hæstv. ráðh. þá kannske upplýsir það hér á eftir, og þá liggur það fyrir, ef þeir fara með ósannindi. Ég hef ekki fyrir mér önnur rök en þeir hafa tilkynnt Alþ. sjálfu, að hæstv. ráðh. hafi vísað þeim á, að þeir skyldu nota sitt eigið fé með þessum hætti. Hann telur sig hins vegar hafa orðið að standa vörð um það, að þeir eyddu ekki of miklu af sínu fé, og gert það af miklum drengskap að sjá til þess að gera það ekki og hann hafi ekki neitað, eftir því sem mér skilst þó eftir innskoti hans hér, að veita aðstoð í þessu skyni. En ég veit, að hann hefur lesið þetta bréf, og því er fullkomlega haldið fram þar, að það hafi verið synjað um þá aðstoð, sem um var beðið, og vísað á þennan sjóð, þannig að ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ráðh. telji neitt undarl., þó að ég bendi á þetta atriði hér. Ég legg ekki allt upp úr þessu, þó að það sé auðvitað mikils virði að fara rétt með staðreyndir í málinu, en frá mínum bæjardyrum séð álit ég, að það hefði ekki átt að nota sjóðinn á þennan hátt, vegna þess að hann á að notast með þeim hætti, sem hann efnislega er hugsaður til. þ.e.a.s. mæta verðfalli á sjávarafurðum, og það hefur sannarlega ekki orðið neitt verðfall á sjávarafurðum. Það er rétt, að það hefur orðið samdráttur í afla, það er allt annað mál og er annað vandamál, sem við þurfum auðvitað hverju sinni að horfast í augu við, að getur orðið, en sjóðnum er ekki ætlað að mæta þeim vanda, heldur verðfalli. Það er a.m.k. fróðlegt fyrir þingmenn að vita, hver fer hér með rétt mál, en ég tel hins vegar, að það breyti á engan hátt a.m.k. minni afstöðu. Jafnvel þó að þessir aðilar hefðu beðið um þetta, þá væri ég á móti ráðstöfun sjóðsins á þennan hátt.

Ég vonast til þess, að það sé a.m.k. efnislega ekki ágreiningur um það atriði, sem skiptir meginmáli, að hér verði um algjöra bráðabirgða ráðstöfun að ræða, sem gildi aðeins til áramóta, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort því megi treysta örugglega, að það verði ekki reynt að leysa vanda sjávarútvegsins á næsta ári með því að nota verðjöfnunarsjóðinn og eyða honum til að mæta þeim vanda. Í því sambandi vil ég jafnframt leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti upplýst hv. þd. um það, hver sá vandi er, eða hvort nokkuð liggi fyrir um það, með hvaða hætti hugsunin sé að leysa vandann. Ég vil ekki endilega krefja hæstv. ráðh. um svar við þessu, það kann að vera, að þetta sé allt mjög óljóst, en hann ætti þó e.t.v. að geta svarað okkur um það, hvort hann er ekki sammála mér um, að hver sem þessi vandi verður, þó að hann geti ekki svarað, hver hann sé, þá verði ekki gripið til þess óyndisúrræðis, og ég vil segja fráleita úrræðis að éta upp Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í þann vanda, nema til komi verðlækkanir, sem geri það eðlilegt, það er önnur saga.

Eins og ég sagði, gildir þetta frv. aðeins til áramóta, þannig að um það tjóar ekki að fást út af fyrir sig. En það hefur verið á það bent í hv. Nd., að hér sé um algjörlega ranga notkun sjóðsins að ræða, sem ríkisstj. og ríkissjóði ber með einhverju móti að bæta aftur, því að eftir þeim venjum, sem alltaf hefur verið fylgt varðandi afkomu sjávarútvegsins, þá hefur það alltaf verið á þann veg, eins og ég sagði áðan, að ríkið hefur með einhverjum hætti útvegað þetta fé. Því tel ég eðlilega þá tillögu, sem kom fram í Nd., að ríkissjóður í sambandi við framhaldsráðstafanir fyrir sjávarútveginn á næsta ári útvegi þetta fé og endurgreiði verðjöfnunarsjóði það, sem út hefur verið lagt til bráðabirgða með þessum hætti. Ef gæti orðið um það samkomulag að fara þá leið, þá á áreiðanlega ekki að þurfa að vera nein deila um málið efnislega hér í þessari hv. d., en hæstv. ráðh. hefur algjörlega á sínum valdi að ráða, hvort um þetta verður friður eða ekki friður.