29.11.1972
Neðri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

95. mál, almannatryggingar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú fylgt frv. þessu úr hlaði með greinargóðri ræðu, eins og hans var von og vísa, en ég tel rétt að segja um það nokkur orð á þessu stigi málsins.

Í grg. segir, að frv. þetta gegni fyrst og fremst því hlutverki að afnema endanlega einstaklingsgreiðslur til lífeyris- og sjúkratrygginga og greiðslur sveitarfélaga til lífeyristrygginga. Þetta er þó aðeins formleg staðfesting á því, sem áður er búið að ákveða, og því ekkert nýmæli. Hæpið er því að telja þessi ákvæði kjarna málsins, eins og sagt er í grg.

Þá segir í ákvæði til bráðabirgða, að sýslusamlög eigi að taka við hlutverki núverandi héraðs- og hreppasamlaga. í almannatryggingal. frá 1971 eða þeirri breytingu, sem þá var gerð, var ákveðið að leggja sjúkrasamlög hreppanna niður, sbr. 37. gr. þeirra laga. Þó var fram tekið í ákvæði til bráðabirgða, að fresta skyldi gildistöku þeirra ákvæða l., er vörðuðu fækkun og stækkun sjúkrasamlaga, til ársloka 1972. Ákvæði almannatryggingal. um héraðssamlög áttu einnig að haldast í gildi þangað til. Varla geta þessi ákvæði frv. því talizt ný af nálinni. Nefna má þó sem nýmæli eða nýyrði sýslusamlög, sem virðast benda til þess, að hinni viðurkenndu umdæmaskiptingu landsins eigi þó að fylgja að einhverju leyti enn um stund, að því er varðar sjúkratryggingar.

Þá er tekið fram í grg. frv., að gert sé ráð fyrir nokkrum minni háttar lagfæringum á heildarlöggjöfinni, fínpússningu á smíðinni. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en telst þó varla stórtíðindum sæta, því að það hefur að einhverju leyti verið gert í hvert einasta skipti, sem löggjöfin hefur verið endurskoðuð. Hún hefur oft verið endurskoðuð, og henni hefur oftlega verið breytt. Sem dæmi má nefna, að þegar almannatryggingal. voru sett árið 1971, voru afnumin, 18 lög, ef ég man rétt, 18 lagabreytingar, sem gerðar höfðu verið á l. frá 1963.

Hið eina raunverulega nýmæli þessa frv. er að finna í 2. gr. þess. Sú gr. felur í sér þýðingarmikla skipulagsbreytingu á samskiptum Tryggingastofnunarinnar og bótaþega að dómi höfunda frv., sbr. grg. með 2. gr. En hver er þessi þýðingarmikla skipulagsbreyting, þessi dásemd, sem allur landslýður á í vændum? Ég ætla að leyfa mér að fara um þetta efni nokkrum orðum.

Verður þá fyrst að gera grein fyrir þeirri skipan, sem gildir nú og gilt hefur lítt breytt frá upphafi almannatrygginga hér á landi árið 1936. Sú skipan er í aðalatriðum á þann veg, að utan Reykjavíkur hefur landinu verið skipt í 25 almannatryggingaumboð. Umboðsmenn hafa verið og eru enn bæjarfógetar og sýslumenn, hver á sínu svæði. Þetta var að vísu ekki lögboðið í fyrstu, þótt svo yrði í framkvæmd strax, heldur byggðist það á frjálsum samningum. En n. sú, sem skipuð var af ríkisstj. 7. maí 1954 til að endurskoða löggjöf um almannatryggingar í heild, orðar frv. sitt, sem síðar varð að l., þannig í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Utan Reykjavíkur skulu sýslumenn og bæjarfógetar annast umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina, hver í sínu umdæmi.“

Um þetta atriði segir svo í aths. við 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Það nýmæli er í þessari gr., að hún ákveður, að sýslumenn og bæjarfógetar fari með umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina. Stofnunin hefur til þessa samið við stjórn Félags héraðsdómara um þessi umboðsstörf. Samkv. því samkomulagi hafa bæjarfógetar og sýslumenn annazt umboðsstörfin viðast hvar. Á nokkrum stöðum hafa sjúkrasamlögin annazt umboðsstörfin. Umboðsstörf sýslumanna og bæjarfógeta hafa yfirleitt gefizt vel að dómi Tryggingastofnunarinnar, og vill því n. lögbjóða þessa skipan.“

Á þessa skipan var þá komin nær 20 ára reynsla. Í n., sem svo hagaði orðum sínum, sátu m.a. hv. 1. þm. Norðurl. e. og Gunnar J. Möller hrl., sem hæstv. ráðh. hefur vottað traust sitt með því að endurskipa hann formann tryggingaráðs, og er það vel, því að þar fer maður með mikla þekkingu og reynslu í þessum málefnum. 8, gr. almannatryggingal., sem ég nú nefndi, hefur staðið óbreytt síðan. Þó hefur aðeins orðið vart hræringa til að hagga því skipulagi, og á ég þar við till. til þál. um endurskoðun l. um almannatryggingar, sem flutt var árið 1969 af hv. 10. landsk. þm., að ég ætla, núv. formanni fjvn. og fulltrúa í tryggingaráði. Þar tæpir hann á þeirri hugmynd að breyta um í þessum efnum og telur, að sú skipan, að sýslumenn og bæjarfógetar hafi slík umboðsstörf á hendi, sé óheppileg, þar sem — eins og segir í grg.flm. telja þessa skipun að ýmsu leyti óeðlilega og um of mótaða af innheimtusjónarmiðum. Og fleira færir hann þar fram í þessu efni. En þessi hugmynd, sem þarna er tæpt á, virðist hafa fengið byr undir báða vængi í frv. því, sem hér um ræðir. Hvernig er þá hin nýja skipan, hið nýja skipulag, sem hæstv. trmrh. gerir að fagnaðarboðskap?

Í 2. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Utan Reykjavíkur skal Tryggingastofnunin hafa umboðsskrifstofur, og fer um staðarval eftir ákvörðun ráðh. að fengnum till. tryggingaráðs.

Í hverju sveitarfélagi, þar sem ekki er umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins, skal sveitarstjórn tilnefna sérstakan trúnaðarmann tryggingaskrifstofunnar, sem annast upplýsinga störf og tengsl íbúa sveitarfélagsins við umboðsskrifstofu. Tryggingastofnunin ákveður og greiðir þóknun til trúnaðarmanna.“

Samkv. þessu á það að vera ráðh. og ráðh. einn, sem ákveður fjölda umboða, staðarval og annað í þessum málum. Hann á m.ö.o. að skipta landinu í umdæmi að eigin geðþótta. Ætla má, að með þessum hætti yrði byggt upp frá grunni nýtt dreifikerfi almannatryggingabóta um gervalla landsbyggðina. Varla yrðu höfuðstöðvarnar færri en 25. Að vísu hefur þeirri hugmynd verið hreyft, — og ég get aðeins nefnt það hér, — úr þessari sömu átt eða svipaðri átt að gera landið allt að einu umdæmi og senda bætur almannatrygginga út um allt land eftir allsherjar gírókerfi frá einni höfuðmiðstöð í Reykjavík, og þær yrðu þá væntanlega sendar á nafnnúmer, þegar fram líða stundir. En sleppum því. Sú hugmynd virðist ekki hafa öðlazt nægilegt fylgi enn sem komið er.

Þá er rétt að athuga tvennt. Eru horfur á því, að hið nýja dreifikerfi verði ódýrara í uppbyggingu og rekstri en það, sem nú er? Í öðru lagi: Eru líkur til þess, að hin nýja skipan yrði hagkvæmari og hentugri fyrir allan almenning, fyrir bótaþegana, fyrir fólkið í landinu? Um hið fyrra atriði má segja eða spyrja: Var nokkur að tala um sparnað eða hagsýni? Slíkt er fáséð í ræðum og ritum hæstv. núv. ríkisstj. Þó segir á einum stað í Ólafskveri, þar sem rætt er m.a. um almannatryggingar, að jafnframt skuli gerð ítarleg athugun á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja í þeim tilgangi að gera reksturinn einfaldari og draga úr kostnaði. Ég held, að óhætt sé að segja, að næsta lítil líkindi séu fyrir því, að hin nýja dreifiveita mundi draga úr heildarkostnaði við tryggingakerfið. Þá er á hitt að líta, hvort þessi skipan hentar betur fólkinu í landinu. Um það segir svo í aths. með 2. gr., 2. mgr.:

„Þessi breytta skipan stefnir að miklu nánari samskiptum fólksins í landinu við Tryggingastofnunina. Hún ætti að stuðla að betri þjónustu og aukinni þekkingu hvers og eins á rétti sínum.“

Þetta eru fögur fyrirheit. En á þessu stigi málsins leyfi ég mér aðeins að segja það, að ég dreg mjög í efa, að hin nýja skipan samræmist betur óskum og þörfum fólksins. Ég held, að hinir nýju umboðsmenn og hinar nýju, væntanlegu umboðsskrifstofur muni varla þekkja betur til í þessum efnum en þeir umboðsmenn og það starfsfólk, sem að þessum málum hefur unnið samfellt um langan aldur í náinni samvinnu við aðalskrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins í Reykjavík og átt mjög góð samskipti við bótaþega. En þar sem ég þekki til, hefur í hvívetna verið reynt að greiða götu bótaþega og veita þeim fullnægjandi upplýsingar. Með hliðsjón af þessu mun ég, ef ekki fæst breyting á þessu frv. á annan hátt, flytja brtt. við frv., þar sem ég mun leggja til, að 2. gr. þess verði felld, og láta reyna á það, hvort ég fæ einhverja meðflm. eða einhverja, sem eru sama sinnis og ég í þessu máli.