05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

91. mál, iðnfræðsla

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh, fyrir svör hans. Mér sýnist, að málið stefni hjá honum í rétta átt með skipun þeirra tveggja n., sem hann minntist á, því að ég hef þann kunnugleika af þeim tveimur mönnum, sem þar hafa valizt til forustu, að mér finnst líklegt, að góður árangur náist af starfi þessara n. En það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, að þessu starfi verði hraðað og helzt stefnt að því, að þær till., sem þessar n. hafa fram að færa, komi fram ekki síðar en á næsta Alþ. Að því finnst mér, að menntmrh. eigi að stefna og gefi n. fyrirmæli um það.

Þetta mál er áreiðanlega miklu stærra og meira aðkallandi en þm. hafa yfirleitt gert sér ljóst til þessa. Á undanförnum þingum hefur verið unnið verulega að því að auka menntaskólanámið og styrkja menntaskólana og styrkja háskólann, en ég held, að nú sé svo komið, að næst því að koma grunnskólamálinu í höfn komi það að auka iðnfræðsluna og verkkunnáttuna og skipa henni nægilega virðulegan sess og aðstöðu til þess, að ungt fólk vilji leita þangað ekki síður en á menntaskólabrautina. Ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur falið áhugasömum og fróðum mönnum að hafa forustu í þessum málum, og ég vænti þess, að till. þeirra komi fram ekki síðar en á næsta þingi.