06.12.1972
Efri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að lýsa ánægju minni með þau skjótu vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í þessu máli og hæstv. iðnrh. Hæstv. ráðh. hefur lýst því ítarlega í ræðu sinni, hvers vegna þessi vinnubrögð eru svo nauðsynleg, og skal ég forðast að endurtaka það, en vil aðeins í örfáum orðum undirstrika nokkur atriði þessa máls.

Mér hefur virtzt bera á því nokkuð í umr. um málið, m.a. í blöðum, að misskilningur ríki um þörungavinnsluna, grundvallarmisskilningur, sem vill oft leiða til þess, að niðurstöður verða þá rangar. Svo virðist sem margir geri sér ekki grein fyrir því, að þörungar eru margs konar. Ber þar að sjálfsögðu mest á tveimur tegundum, þ.e.a.s. þara og þangi, sem er iðulega ruglað saman. Eins og hæstv. iðnrh. rakti, hafa rannsóknir á vegum raforkumálastjóra og síðar orkumálastjóra og loks Rannsóknaráðs ríkisins fyrst og fremst beinzt að þaravinnslu. Þarinn er þörungur, sem vex nokkuð djúpt og getur orðið æði hávaxinn, e.t.v. nokkrir metrar. Úr þaranum eru unnin alginsölt, eins og ráðh. rakti. Þangið vex hins vegar grunnt á fjörum, er ekki nálægt því eins hávaxið. Úr því eru einnig unnin svipuð sölt, en sölt þessi hafa öll nokkuð breytilega eiginleika, og ræður það miklu um markaðsmöguleika. Það eru einnig tölvert meiri erfiðleikar í meðferð þarans heldur en þangsins. Þarinn hefur meiri raka, og þurfa þurrktæki að vera stærri og flóknari við vinnslu þara en þangs. Þetta eru aðeins örfá orð til að skýra þennan mismun.

Þari og þang vex hvort tveggja mjög ríkulega á Breiðafjarðarsvæðinu og má segja, að hvort tveggja hefði átt að skoðast fyrr. En staðreyndin er sú, að af ýmsum ástæðum beindist athyglin fyrst og fremst að þaranum allt fram á haustið 1970, þegar við getum sagt, að botninn hafi dottið úr þeim rannsóknum, vegna þess að markaðurinn fyrir þarann reyndist lakari en við höfðum gert ráð fyrir, en hins vegar betri fyrir þangið. Þetta eru grundvallaratriði, sem ég vil, að menn geri sér grein fyrir. Skýrsla rannsóknarráðs hefur e.t.v. stuðlað að þessum misskilningi, þar sem hún nefnist þang- og þaraþurrstöð á Reykhólum við Breiðafjörð, en í raun og veru er þar um tvö verkefni að ræða.

Meginforsendur þangverksmiðjunnar við Breiðafjörð, að Reykhólum, eru — við getum sagt þrjár: Í fyrsta lagi mjög góð þangmið við Breiðafjörð. Sumir fullyrða, að þau séu með þeim mestu, sem þekkjast. Í öðru lagi jarðhiti á Reykhólum. Og í þriðja lagi vil ég nefna markaðsforsendurnar. Allt þetta og tækniþættir, sem tengja þessar forsendur saman, þarf að haldast í hendur. Markaður fyrir þang og raunar þara einnig er að vísu nokkuð stór, en þó ekki í höndum margra fyrirtækja. Þang hefur lengi verið þurrkað fyrst og fremst við sól, og hafa lengi verið unnin úr því alginsölt, en líklega eru fyrirtækin, sem framleiða þá lokavöru, sem ráðh. lýsti, ekki fleiri en 4–5 og sum þeirra mjög veik. Stærstu fyrirtækin eru fyrirtækið Alginate Industries í Skotlandi og amerískt fyrirtæki, sem Kelco heitir. Markaðsforsendurnar eru því mjög ráðandi í allri framgöngu þessa máls. Og ég vil undirstrika það, sem hæstv. ráðh. nefndi, að svo vill til nú, að mjög góðir samningar að okkar mati bjóðast við annað af þessum stóru fyrirtækjum, Alginate Industries, um kaup á allri framleiðslu þessarar verksmiðju. Þetta fyrirtæki er á hnotskóm eftir auknu hráefni til framleiðslu sinnar og þarf að fá afgreidd 4000 tonn þegar á árinu 1974, ef áætlanir fyrirtækisins um aukningu framleiðslu þess eiga ekki að riðlast. Því hafa forstöðumenn fyrirtækisins lagt á það ríka áherzlu, að þeir þurfi að vita nú þegar á þessum vetri, hvort unnt megi reynast að standa við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um framleiðslu á þangmjöli að Reykhólum. Ef það tekst ekki vil ég ekki fullyrða, að málið sé þar með úr sögunni, en ég vil leyfa mér að fullyrða, að það getur orðið æðilöng bið, þar til svo hentugur markaður fæst að nýju sem nú býðst.

Ég vil upplýsa í þessu sambandi, að á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur verið haldið áfram eins og unnt er söfnun upplýsinga. M.a. hefur ráðinu borizt tilboð frá þýzku fyrirtæki í þurrktæki í slíka verksmiðju, og það er ánægjulegt, að allar þær upplýsingar, sem borizt hafa, benda til, að sú áætlun, sem sett hefur verið fram, sé fremur of íhaldssöm heldur en haldin of mikilli bjartsýni. Sömuleiðis hefur fyrirtækið Alginate Industries sett sérstakan mann í að fylgjast men þessu máli og aðstoða við það. Þær upplýsingar, sem hann hefur safnað og eru mikilvægar, benda í sömu átt. Það er því skoðun okkar, sem þekkjum þetta mál, að allar niðurstöður muni reynast fremur jákvæðar heldur en hitt, þegar málið er skoðað í heild sinni.

Tilgangurinn með þessu undirbúningsfyrirtæki, eins og hæstv. ráðh. rakti, er að sjálfsögðu sá, að fyrirtækið sé fyrir hendi, þegar athuganir, sem nú fara fram á vegum rn., liggja fyrir, þannig að þá þurfi engin töf að verða á frekari framgangi málsins. Fyrir þessa málsmeðferð vil ég sérstaklega þakka og lýsa ánægju minni.

Ég vil einnig leggja áherzlu á það, að gott samstarf hefur verið við alla meðferð þessa máls við heimamenn, sem hafa stofnað eigið fyrirtæki, að vísu tölvert smærra í sniðum en gert er ráð fyrir um það fyrirtæki, sem framleiðir og selur til útflutnings og um er rætt nú. En það fyrirtæki, sem þeir hafa stofnað, getur að mínu viti orðið ágætur kjarni að virkri þátttöku heimamanna í rekstri stærra fyrirtækisins. Ég vil upplýsa það, að ég hef margsinnis átt viðræður við formann þess fyrirtækis, og hefur hann og stjórnarmeðlimir þess fylgzt vel með gangi málsins og lýst ánægju sinni með þann hraða og þá meðferð, sem það hefur fengið.

Ég vil einnig undirstrika það, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að mál sem þetta, þótt e.t.v. sé það ekki mjög stórt, mælt sem eining í þjóðarbúinu í heild, getur riðið baggamuninn fyrir byggðarlag eins og það, sem hér á hlut að máli. Það er ljóst, að á eftir þessu mun fleira fylgja. Þarna skapast mjög góð aðstaða til frekari iðnaðar. Þarf enginn að efast um það, það sýnir okkur margendurtekin reynsla, að slíkur kjarni sem þessi mun draga annað að sér. Það er einnig á þeirri forsendu, sem ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt, að hið opinbera leggi ríflegt fjármagn fram til þess að skapa þá aðstöðu, sem nauðsynleg er hvers konar iðnaði.

Í þeirri skýrslu, sem minnzt hefur verið á frá Rannsóknaráði ríkisins, er að vísu gerð tilraun til að meta tekjur hins opinbera af þessum rekstri. Þótt ég geri enga aths. við þá útreikninga, vil ég, að það komi fram, að ég lít ekki á þá sem neitt meginatriði í þessu máli. Það má lengi um þennan þáttinn deila. Þessar tekjur hins opinbera eru fyrst og fremst opinber gjöld, sem slíkur rekstur mundi greiða, og ekki sízt sá fjöldi manna, sem þar mundi vinna. En vitanlega má halda því fram, að þær tekjur hefðu fengizt á öðru sviði, ef ekki þarna. En við höfum þess fjölmörg dæmi, nánast við hverja framkvæmd á sviði iðnaðar, sérstaklega úti í dreifbýlinu, að af opinberri hálfu hefur verið nauðsynlegt og talið sjálfsagt að leggja fram fjármagn til grundvallarframkvæmda. Ég vil því jafnframt lýsa ánægju minni með þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj. er reiðubúin til að afla þess fjármagns, sem þarf til opinberra framkvæmda í þessu sambandi, þegar sýnt er, að fyrirtækið er arðvænlegt og ákveðið að halda áfram þessu máli.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. upplýsti, að það er erfitt að komast inn í þá lokaframleiðslu, sem hér er um að ræða, af þeim ástæðum, sem hann rakti. Ég bind þó nokkrar vonir við það, að þetta fyrirtæki geti orðið grundvöllur að þeirri milliframleiðslu, sem hann nefndi, og það mundi þýða verulega aukna verðmætasköpun á þessu sviði.

Ég vil svo með þessum orðum enn á ný lýsa ánægju minni með meðferð málsins, og ég vil jafnframt heita því sem formaður iðnn. þessarar hv. d., að málinu mun verða hraðað þar.