07.12.1972
Sameinað þing: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

100. mál, réttarstaða tjónaþola vegna skaða af völdum flugumferðar

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 11. landsk. og hv. 1. þm. Reykn. leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 124 um könnun á réttarstöðu tjónaþola vegna skaða af völdum flugumferðar í nágrenni flugvalla. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna réttarstöðu sveitarfélaga, einstaklinga og fyrirtækja, sem eru í nágrenni flugvalla, gagnvart eigendum flugvéla, er slysum og tjóni valda, og lögfesta úrbætur, sé þess þörf.“

Stærstu flugvellir okkar, Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöllur, hafa verið í notkun síðan í síðustu heimstyrjöld. Reykjavíkurflugvöllur er sem kunnugt er inni í sjálfri höfuðborginni, og í nágrenni Keflavíkurflugvallar eru blómleg og fjölmenn byggðarlög, svo sem Keflavík, Sandgerði, Njarðvík o.fl. Er flugvélar lenda eða hafa sig á loft, fljúga þær oft lágt yfir húsþökum þessara byggðarlaga, og er þá augljóst, að ef flugslys yrði í lendingu eða við flugtak, væri mikil hætta á því, að íbúar þessara byggðarlaga, sem minnzt hefur verið á, yrðu fyrir stórtjóni. Svo mikið er þó öryggi flugsins, að þrátt fyrir áratuga starfrækslu þessara flugvalla hefur ekki komið til stórra óhappa. Augljóst er þó, að hættan er fyrir hendi, og vaxandi umferð risastórra flugvéla leiðir hug þeirra, er þarna búa, daglega að þessari hættu. Umferð um þessa áminnztu tvo flugvelli hefur aukizt mjög á undanförnum árum. Lendingar og flugtök á Keflavík árið 1971 munu hafa verið yfir 65 þús. og lendingar og flugtök á Reykjavíkurflugvelli sama ár yfir 111 þús. Og það er vitað, að það hefur legið nærri stórslysum við Keflavíkurflugvöll, og kunnugir segja frá einu slíku atviki, að sá atburður varð, þegar farþegaflugvél var í aðflugi úr skýjum til Keflavíkurflugvallar og skauzt niður úr skýjalaginu með meira en 500 km hraða á klukkustund, að allt í einu birtist önnur flugvél beint á móti rétt neðan skýjalagsins á engu minni hraða. Flugmenn farþegavélarinnafi beygðu þá frá með sína 200 farþega, og það sama gerði hinn flugmaðurinn, og þrátt fyrir gott skyggni neðan skýja höfðu þeir aðeins örfáar sekúndur til þess að forðast árekstur, enda nálguðust vélarnar hvor aðra með um 18 km hraða á mínútu. Ekki var annað vitað en öllum öryggiskröfum hefði verið fullnægt í þessu tilviki. Fyrir nokkrum árum féll hurð af flugvél niður á milli húsanna í Ytri-Njarðvík. Og það eru margar frásagnir til af atburðum sem þessum á þessum slóðum og benda til þess, að heppni og sérstök hæfni flugmanna hafi afstýrt stóróhöppum.

Margt hefur verið gert á undanförnum árum til að anka öryggi í flugumferð, flugbrautir lengdar, tækjabúnaður flugvalla og flugvéla aukinn og endurbættur og kennsla og þjálfun starfsliðs bætt. Allt þetta eykur flugöryggi og gerir umferðina minna háða veðurfari. Á móti kemur svo það, að síaukin umferð hinna risastóru flugvéla krefst styttri tíma til afgreiðslu og meiri nákvæmni, og sú spurning vaknar óneitanlega, hvort hættan á óhöppum sé í raun og veru ekki frekar vaxandi heldur en minnkandi þrátt fyrir umbæturnar. Þessari till. er þó aðeins ætlað að fá kannaðan ákveðinn, afmarkaðan þátt þess vanda, sem byggðarlög í nágrenni flugvalla eiga við að búa. Við treystum því, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að auka flugöryggið, að flugvellir séu búnir fullkomnustu tækjum og mannafla til þess að gera umferðina sem öruggasta. Það er að sjálfsögðu meginkrafa og megináhugamál þeirra, sem við flugvellina búa. En það, sem við með þessari till. óskum hins vegar eftir, er, að sérfræðingar á vegum hins opinbera kanni m.a. eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, hvort öruggt sé, að aðilar, sem verða fyrir eigna- eða heilsutjóni vegna flugslysa, fái fullar bætur, jafnvel þótt ábyrgðartryggingar viðkomandi flugvéla nægi ekki til greiðslu á bótum. Reynist svo við athugun, að þetta sé ekki öruggt, teljum við nauðsynlegt, að þeir, sem sjá um rekstur flugvallanna, gefi sveitarfélögum í nágrenninu ákveðnar yfirlýsingar um, að þeir eða hið opinbera muni bæta það, er ávantar, þegar greiðslugetu trygginganna lýkur.

Í öðru lagi er nauðsyn, að það liggi ljóst fyrir, hver ábyrgðina ber, ef bótaskylda verður vegna mengunar, t.d. vegna olíu er kynni að renna út af flugvöllum eða frá geymslutönkum þeirra og inn í viðkomandi sveitarfélög.

Í þriðja lagi er vitað, að hávaði af völdum risaþota getur valdið varanlegri örorku og mjög miklum truflunum og jafnvel taugatruflunum. Fullkomin nauðsyn er á, að þetta atriði verði kannað til hlítar og rannsóknir sérfræðinga komi þar til.

Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir nákvæm áætlun hjá sveitarfélögum, hvernig hjálpar- og björgunaraðgerðum verði hagað, ef flugvél dettur niður í byggð og fjöldi manna slasast. Þar er þörf skipulagðra og margháttaðra aðgerða, sem nauðsynlegt er, að sveitarfélögum séu kunnar, svo sem brunavarnir, slysahjálp og sjúkrahúsaðstaða, og er líklegt, að meta þurfi sjúkrahús Keflavíkur með þetta í huga, og virðist sjálfsagt, að endurbótum og uppbyggingu, sem þar stendur yfir, verði hraðað af þessum ástæðum.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði lögð fyrir allshn. og umr. frestað.