12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

106. mál, viðbótarritlaun til rithöfunda

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur tekið af mér ómakið við að greina frá því, hvers vegna ástæða var til að leita til Framkvæmdastofnunarinnar. Ég vil þó aðeins bæta því við, að sú tala, sem nefnd var í grg., þegar till. var upphaflega flutt, þ.e.a.s. 19 millj., var þaðan komin, og var að því leyti alveg fyllilega réttmætt, að til Framkvæmdastofnunarinnar yrði leitað aftur, þegar endanlega væri gengið frá þessu máli.

Að öðru leyti vil ég einungis ítreka ánægju mína yfir áhuga þingmanna á þessu máli og vil taka fram sem einn nm. í þeirri n., sem fjmrh. skipaði, að í henni ríkti fullt samkomulag um að skila störfum nægilega snemma til þess, að unnt yrði að taka tillit til þessa máls við gerð fjárlaga næsta árs. Um þetta ríkti fullur samhugur innan n. Ég vil taka það fram, að lokum, að nefndin væri búin að skila af sér, ef einn nm. hefði ekki þurft utan vegna starfa sinna, og ekkert annað er eftir en að nm. komi saman og skrifi undir sameiginlegt nál.