12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal ekki lengja þessar umr., sem ég tel, að hafi verið mjög nytsamlegar, enda mjög skynsamleg sjónarmið komið fram. Það var aðeins til þess að undirstrika, að ég er algerlega sammála hv. 3. þm. Reykn. og hæstv. forsrh. Ég vildi aðeins vekja athygli á eða minna á, að það var einmitt ástæðan til þess, að ég vakti máls á þessu hér, að það er mín skoðun og margra fleiri, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykn. og hæstv. forsrh., að hér er ekki fyrst og fremst um refsimál að ræða, afbrotamál í venjulegum skilningi, heldur miklu fjölþættara vandamál. Ég er ekki sérfróður um þessi atriði, þannig að ég vilji fella um það nokkurn dóm eða láta í ljós um það nokkra skoðun, að hversu miklu leyti hér er um heilbrigðismál, þ.e.a.s. hrein sjúkdómstilfelli að ræða, eða að hve miklu leyti vandamálið kann að vera félagslegt eða uppeldíslegt að einhverjum verulegum þætti. Tilgangur minn var sá einn að vekja athygli á því, að á málið væri litið sem heilstætt mál frá þessu sjónarmiði séð, frá mínu leikmannssjónarmiði séð fyrst og fremst sem sjúkdómstilfelli, í öðru lagi sem hluta af félagslegu vandamáli og í þriðja og allra síðasta lagi sem afbrotamál eða refsimál.