12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég er vissulega sammála því sjónarmiði, sem hér hefur komið fram, að þau dæmi, sem hér hefur verið rætt um, eru sjúkdómseinkenni. Það er alveg vafalaust. En þetta er ekki aðeins sjúkdómseinkenni á þeim einstaklingum, sem þarna eiga hlut að máli, heldur sjúkdómseinkenni á þjóðfélagi okkar. Og ég er hræddur um, að okkur muni illa takast að vinna bug á þessum sjúkdómseinkennum, jafnvel þótt við fjölgum hér geðsjúkrahúsum feiknalega og reynum að lækna mein af þessu tagi í slíkum stofnunum. Þetta vandamál ristir miklu dýpra og það er nátengt vandamálum þess þjóðfélags, sem við lifum í.

Ég er ekki sammála hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni og hæstv. forsrh. um það, að þetta mál sé eitthvað allt annað en þau efnahagsmál. sem við erum að fjalla um. Ég held, að þessi mál séu ákaflega samanslungin. Það, sem gerzt hefur hér á Íslandi, er, að á tiltölulega stuttum tíma hefur þjóðfélag, sem var í rót sinni bændaþjóðfélag og var tengt þeim siðferðilegu verðmætum, sem voru í bændaþjóðfélaginu, það hefur breytzt, ekki aðeins í borgarþjóðfélag, heldur líka í neyzluþjóðfélag. Og viðhorf þessa neyzluþjóðfélags hafa ekki aðeins komið fram í sambandi við stjórnsýslu hér á hinu háa Alþ. eða í öðrum valdastofnunum, þau hafa haft áhrif á þjóðfélagið allt, á svo til hverf einasta heimíli í landinu. Og hver eru einkenni slíks neyzluþjóðfélags? Einkennin eru þau, að í stað siðferðilegra verð mæta, sem áður þóttu ákaflega mikils virði, hefur komið keppnin að eignast fleiri og fleiri hluti, að keppa eftir fleiri og fleiri svokölluðum veraldargæðum. Fyrir þessu hafa vikið þau siðferðislegu viðhorf, sem hljóta að vera hyrningarsteinn í hvers konar þjóðfélagi. Þjóðfélag án siðferðilega viðhorfa stendur ekki lengi.

Á tímanum eftir stríð hefur hér allt verið á tjái og tundri, gengislækkanir á gengislækkanir ofan. Krónan hefur haldið áfram að hrapa. Öll þau efnahagslegu einkenni, sem menn bundu áður hugmyndir sínar við, hafa sundrazt fyrir augum manna. Það er þetta, sem hefur þau áhrif, að fólk veit ekki, hvernig það á að standa í þessu þjóðfélagi. Fólk veit ekki, við hvað það á að miða í hegðun sinni, og við skulum ekkert undrast það, þó að slíkt ástand, slíkt andrúmsloft hafi áhrif á unglinga og börn. Þetta er það, sem þau heyra á heimilum sínum, að það skipti máli að komast yfir sem allra mest af munum, og þeim finnst sjálfsagt, að þau hegði sér í samræmi við það. Ég held, að það sé okkar stóri vandi að gefa þessu neyzluþjóðfélagi einhver siðferðileg markmið, og við getum aldrei unnið hug á þeim sjúkdómum, sem við erum hér að ræða um, nema við komumst fyrir rætur þeirra, nema við áttum okkur á því, hvað það er, sem sjúkdómnum veldur. — Það eru aðeins þessi sjónarmið, sem mig langaði til að kæmu hér fram, að ég held, að þessi vandamál séu í mjög nánum tengslum við allan efnahagsvanda þessa þjóðfélags.