12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér finnst alveg óþarfi í alvarlegu máli, sem hér er verið að ræða og ekki hefur verið rætt í neinum ádeilutón á stjórnvöldin í landinu, að hæstv. heilbrmrh, þurfi að koma hér enn einu sinni á þessu þingi til þess að áminna um. um að vera svolítið siðlegri í sínum talsmáta heldur en honum finnst þeir vera, eins og hæstv. heilbrmrh. var að gera nú, þegar hann vék máli sínu til hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar, sem talaði hér áðan.

Ég tel, að þungamiðjan í þessu máli, sem hér hefur verið gert að umtalsefni og mætti kannske oftar ræða hér í þinginu, séu þau sjónarmið, sem komu fram hjá tveimur hv. þm., hv. þm. Jóni G. Sólnes og hv. þm. Halldóri Blöndal. Það er einmitt uppeldishliðin á málunum og tengsl yngri kynslóðarinnar við heimilin og þar af leiðandi við eldi kynslóðina. Og það var einmitt einkenni bændaþjóðfélagsins, sem hæstv. heilbrmrh. kom nú að líka, það voru þau ríku tengsl, sem voru á milli eldri og yngri kynslóðarinnar, og sú festa, sem var í heimilishaldinu. En þegar menn líta þannig á málin, að mest hættan sé í því, að það sé töluverð kaupgeta í þjóðfélaginu og kaupmáttaraukning, það sé hættulegast, þá er eðlilegt, að menn leiðist til ályktana, eins og hæstv. heilbrmrh. gerði, að gengislækkanirnar væru upphafið að glæpafaraldri unglinga eða afbrotum þeirra í þjóðfélaginu.

Nú vitum við það, án þess að við brjótum nokkurn trúnað, því að það er búið að segja frá því í öllum blöðum meira og minna, að í till. valkostanefndar, sem ríkisstj. hefur nú til meðferðar, — og ég vil fyrir mitt leyti láta í ljós óskir um, að henni megi takast að velja beztu kostina, þegar loksins kemur að því, að eitthvert val verður framkvæmt, — þá er m.a. verið að tala um gengislækkun, sem nú er kölluð uppfærsla, sem eina af þeim leiðum, sem líklegastar séu til að tryggja mesta kaupmáttaraukningu í þjóðfélaginu. Ég vona bara, að þessi undarlega ræða, sem hér var haldin áðan af hæstv. heilbrmrh., standi ekki í neinu sambandi við umræður þær, sem fram hafa farið innan hæstv. ríkisstj. um það, hvort ætti að velja gengislækkun eða uppfærsluleiðina sem valkost eða einhverjar aðrar leiðir, og gengislækkun verði ekki hafnað af þeim sökum, að þá muni fjölga afbrotum unglinganna og hættulegri glæpafaraldur eiga sér stað en fram til þessa.

Við höfum í raun og veru fyrir okkur ýmiss konar hugmyndir og hugsjónir og heimspekilegar bollaleggingar, sem nokkuð hafa blandazt inn í þessi mál, um það, hvernig eigi að ala unglinga upp og hvernig uppeldi þjóðfélagsins eigi að fara fram. Og það eru til mjög áhrifaríkar kenningar um, að það sé um að gera að slíta unglingana úr tengslum við heimilin, við eldra fólkið og við foreldrana. Og það hefur verið notað í stórum þjóðlöndum til þess að hafa pólitísk áhrif á uppeldi unglinganna, ekki til þess að gera þá siðbetri. Og við vitum líka, að það eru til þjóðfélög, sem virðast hafa nóg af geðveikrarhælum, að dyr þeirra geðveikrahæla standi nægjanlega opnar fyrir ýmsum mönnum, án þess að siðferðið batni nokkuð. En það er þá ekki siðferði sjúklingana, sem settir eru inn á bælin, sem er ábótavant, heldur siðferði stjórnvaldanna. En í þessum umr., sem hér hafa farið fram, hefur algerlega verið sneitt hjá því að vera með neinar getsakir í garð stjórnvalda eða að ástandið hér sé nokkuð verra vegna þeirra manna, sem nú sitja í ríkisstj. og fara með stjórnvöld landsins. Og ég held, að við eigum að spara okkur það alveg fullkomlega og umr. færu þá langt út fyrir þann ramma, sem þeim var settur með aths. hv. 7. þm. Reykv., og langt út fyrir þann ramma, sem hæstv, forsrh. markaði hérna. Flest af því, sem hér hefur verið sagt í þessum umr. getur verið okkur öllum umhugsunarefni. En ég held, að við getum vel sparað okkur siðferðismat hæstv. heilbrmrh. í þeim umr., sem hér hafa farið fram, og lagt á hilluna eða lofað gengislækkun eða uppfærsluleið af þeim sökum að hvíla sig í þeim umr., sem hér fara fram.