13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég treysti mér ekki á þessum vettvangi að fara út í bollaleggingar eða hugleiðingar um hlut sveitarfélaganna fyrr og nú, enda má segja, að það sé kannske ekki til umr. í sambandi við þetta mál. En þó var það greinilegt af þeim tölum, sem hæstv. fjmrh. las upp, að sums staðar skortir sennilega töluvert á, að hækkunin umfram tekjur til rekstrarþarfa sé í samræmi við það, hve mikið tilkostnaðurinn við verklegar framkvæmdir hefur hækkað á sama tíma í landinu. Og ef við hefðum vísitölu verklegra framkvæmda, þá væri náttúrlega fyrst hægt að bera þetta nákvæmlega saman. En það, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs nú, voru einkum hugleiðingar í sambandi við skattlagningu aldraða fólksins, sem sérstaklega er um að ræða í þessu frv. Ég vil aðvara hæstv. fjmrh. alvarlega um það, að hann þurfi ekki að gefa út ný brbl. til breytinga á þessum brbl., sem nú á að fara að staðfesta. Og ég held, að hann mætti mjög gjarnan endurskoða hugleiðingar sínar, sem hann lýsti sem sínum persónulegu skoðunum, um aðstöðubreytingar aldraða fólksins í þjóðfélaginu nú og fyrr. Hann telur, að það skipti öllu máli, hvað fólkið hefur í tekjur, og þess vegna eigi að hafa ákveðin tekjubil og láta þá borga, sem hafa hærri tekjur, m.a. vegna þess, segir hæstv. ráðh., að breytingarnar eru þær, að almannatryggingagjöldin eru afnumin og síðan eru komnar eftirlaunatekjur hjá ýmsum aðilum, opinberum starfsmönnum o.fl. En þó að almannatryggingagjöldin sem nefskattur séu afnumin, þá er ekki lokið því, að einstaklingarnir borgi til tryggingakerfisins, og sumir borga miklu meira en áður til tryggingakerfisins. Þess vegna er þetta eins konar innlegg, þetta er sparifé í þjóðfélaginu, sem þetta fólk er að fá til baka. Það hefur sjálft borgað þetta fé inn að verulegu leyti. Fólkið hefur á aldursskeiðinu fram til þessa tíma líka borgað sína skatta, og það er ekki fyrr en þeir eru greiddir, sem það getur bætt sína aðstöðu, bæði eignalega og á annan hátt. Og ef menn vilja líta á þessi mál frá því sjónarmiði, að það sé spurning um það, hvað menn skili í arf til eftirkomendanna, þá álít ég, að það sé mjög varhugaverð skoðun að miða skattlagninguna við það, að arfurinn eigi að verða sem minnstur, því að það er einmitt það, sem hefur gengið sem grundvallarregla í gegnum okkar erfðafjárskatt og skattlagningu á slíkum tekjum, að hafa hann takmarkaðan og lágan, og það hefur tekizt allt fram til þessa, af því að menn hafa lagt mikið upp úr því, að eignamyndun í þjóðfélaginu geti orðið mikil, og þetta er ekki fé, sem fólk hefur eignazt af sínum tekjum, sem einhvers staðar liggur í handraðanum og enginn hefur gagn af. Ef eitthvað er afgangs af því og verður afgangs af því á eldri árum þessa fólks, þá er það til ráðstöfunar í þjóðfélaginu, annaðhvort sem sparifé þess og þá til ráðstöfunar í sparisjóðum og bönkum landsins, eða með öðrum hætti og m.a. með þeim hætti, sem ég held, að sé ekkert veigaminni nú heldur en áður, að aldraða fólkið í þjóðfélaginu er að hjálpa unga fólkinu. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að það er erfið aðstaða unga fólksins, sem er að byggja upp sín heimíli og ala upp sín börn o.s.frv. En þetta gamla fólk var einu sinni ungt fólk, og það stóð í þessum erfiðleikum, og það er búið að lifa þessa erfiðleika. Svo er það einnig í ríkum mæli, einmitt á gamals aldri, ef það hefur eitthvað aflögu, í fjölmörgum tilfellum að aðstoða unga fólkið í erfiðri lífsbaráttu þess. Og það hefur alls ekki dregið úr því í þjóðfélagi okkar í dag, nema síður sé.

Ég held þess vegna, að það sé mjög eðlilegt sjónarmið, sem sett er fram í brtt. og gerð var grein fyrir af hv. 1. þm. Reykn., að ellilaunin skuli vera skattfrjáls. Með því fyrirkomulagi losnum við einnig við þá erfiðleika, sem hljóta ævinlega að koma, þegar miðað er við ákveðið tekjubíl, eins og sýnt var fram á hér áðan, að einhver aðili upp að vissu marki fær svo og svo mikla ívilnun og annar aðili, sem er rétt fyrir ofan markið, fær enga ívilnun. Þetta yrði áberandi ágalli á löggjöfinni, og hann mundi ekki fara fram hjá gamla fólkinu, og það mætti segja mér, að það gætu orðið jafnáberandi gallar á þessu fyrirkomulagi og því, sem var lögfest á síðasta þingi, og hæstv. fjmrh. mundi þá finna til þess, að hann þyrfti að laga þetta aftur.

Þess vegna beini ég því eindregið til hæstv. fjmrh., að gaumgæfilega séu athugaðar þær till., sem hér eru fram settar. Ég get fallizt á með honum, að við skulum láta flokkspólitíska togstreitu liggja á milli hluta í því sambandi, en umfram allt að afgreiða ekki í annað skipti skattalög, sem snerta aldraða fólkið í landinu, þannig, að það þurfi að breyta þeim síðar meir, vegna þess að reynslan staðfesti, að í þeim er of áberandi ranglæti, til þess að gamla fólkið geti unað við það og þeir, sem eru yngri, vilji láta gamla fólkið una við slíkt.

Ég skal svo ekki að öðru leyti blanda mér í þessar deilur, nema það voru mjög athyglisverðar tölur, sem fram komu hjá hv. 1. þm. Reykn. um skattbyrðina, sem við deildum um á síðasta þingi, hvort hún yrði meiri eða minni í hinu nýja skattakerfi, og þær tölur sýna ótvírætt, að þegar tekjurnar hafa vaxið um tiltekna prósentu, hækkar skattbyrðin eða skattarnir um miklu hærri prósentu. Þetta er auðvitað ótvíræður vottur þess, að skattbyrðin hefur orðið meiri á borgurunum. Það gengur líka eins og rauður þráður í gegnum póltísk skrif hv. stjórnarberra nú í blöðum og í ræðuhöldum, að eitt sé þó víst eftir allt það, sem á undan er gengið, að beinu skattarnir verði ekki hækkaðir, þeir séu komnir í hámark. En ég held, að ég muni það rétt, og nú er óhætt að tala um það, að valkostanefndin hafi einnig komizt að þeirri niðurstöðu, hún geti ekki gefið ríkisstj. nein ráð um að ná meiri tekjum með beinum sköttum, ef hún vilji fara einhverja skattlagningarleið, verði það á sviði óbeinna skatta. Betri og ótvíræðari sönnun fyrir réttmæti gagnrýni okkar á síðasta þingi verður ekki fengin heldur en með viðurkenningu valkostanefndarinnar sjálfrar, — þetta mat þessarar sérfræðinganefndar og viðurkenning stjórnarlíðsins einnig á því, að þessi leið sé þrotin, leið hinna beinu skatta. Það eru að vísu til í samhandi við vissar leiðir þær hugmyndir í sambandi við efnahagsmálin nú að lækka beinu skattana. Og við sjálfstæðismenn höfum einmitt sett fram alveg ákveðnar kröfur um, að það verði lækkaðir beinu skattarnir í þjóðfélaginu, því að verði þeir ekki lækkaðir með einu eða öðru móti, þá verði það til þess að draga úr löngun manna til fjáröflunar í þjóðfélaginu og rýri þar af leiðandi tekjuöflun þjóðfélagsheildarinnar. Þetta er höfuðgallinn á þeim geysilegu beinu sköttum, þeirri miklu skattpíningu, sem lögleidd var á síðasta þingi. Reynslan staðfestir, að gagnrýni okkar í þessu máli var alveg réttmæt.