15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Við fjórir þm. höfum leyft okkur að flytja brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Er brtt. okkar á þskj. 186 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undan 1. gr. komi ný gr. svo hljóðandi: 6. gr. l. orðist svo:

Á eftir 4. mgr. 14. gr. komi ní• mgr., 5. mgr., svo hljóðandi:

Auk frádráttar samkv. 1.–4. mgr. þessarar gr. skal frá hreinum tekjum sjómanna, sem lögskráðir hafa verið eigi skemur en 6 mánuði við fiskveiðar á íslenzkum fiskiskipum, draga upphæð, sem nemur hálfri kauptryggingu, eins og hún er á hverjum tíma, áður en skattur er á þær lagður.“

Eins og fram kemur af tillgr., hljóðar till. um aukinn frádrátt til handa sjómönnum í sambandi við álagningu tekjuskatts. Reglur um sjómannafrádrátt, eins og það er orðað, er að finna í 14. gr. l. nr. 68 frá 15. júní 1971 og 6. gr. l. nr. 7 frá 23. marz 1972. Þessi umrædda gr. I. frá 1972 hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Auk frádráttar samkv. 1.–4. mgr. þessarar gr. skal frá beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenzkum fiskiskipum draga 8% teknanna, áður en skattur er á þær lagður.“

Vel má vera, að einhverjum finnist, að ekki sé ástæða til þess að ganga lengra til móts við óskir sjómanna um aukinn frádrátt en gildandi lög gera ráð fyrir. Ef svo er, tel ég, að um alvarlegan misskilning sé að ræða, og kemur þar margt til: Í fyrsta lagi gerbreytt atvinnuaðstaða manna hin síðari ár miðað við það, sem áður var. Áður fyrr var það svo, að sjómennska var betur launuð en landvinna, jafnvel þó að miðað væri við jafnlangan vinnutíma. Ungir menn sáu sér því hag í því fjárhagslega að gera sjómennsku að ævistarfi sínu, þó að sjómennska sé, eins og allir vita, bæði erfiðari og hættulegri atvinna en mörg störf, sem unnin eru í landi. Hin síðari ár hefur þetta breytzt mjög á þann veg, að mörg störf í landi, sem henta sjómönnum vel, eru orðin eins vel, ef ekki betur launuð en störf sjómanna, ef miðað er við sambærilegan vinnutíma. Þetta hefur óneitanlega dregið úr áhuga ungra manna á að gera sjómennsku að ævistarfi og hefur beinlínis orsakað það, að erfiðara hefur orðið með hverju ári, sem liður að fullmanna bátaflotann á vetrarvertíð. Eftir að 40 stunda vinnuvikan var lögfest hjá landverkafólki, hefur þetta versnað enn til muna, eins og við mátti búast. Hér hefur því skapazt vandamál, sem á einhvern hátt verður að leysa. Flm. till. gera sér alveg ljóst, að hér er um allerfitt vandamál að ræða. Hins vegar þýðir ekki annað en horfast í augu við það og reyna að finna leið til þess að snúa við þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þessum málum á undanförnum árum. Einhverjir kunna að halda, að hægt sé að leysa þetta með því að hækka hlut sjómanna í heildartekjum útgerðarinnar, en ég dreg mjög í efa, að svo sé. Útgerðin greiðir nú um helming af brúttótekjum bátaflotans, sem bolfiskveiðar stundar, til og vegna skipshafnar. Ég hygg, að ef þessum hlutföllum yrði raskað nokkuð sem heitir, mundi það skapa verulegan samdrátt hjá útgerðinni, og yrði það engum til góðs, hvorki sjómönnum né þjóðfélaginu í heild. Það nærtækasta og sennilega eina leiðin til úrbóta er að veita sjómönnum frekari skattfrádrátt en nú er.

Eins og fyrr er sagt, nemur aukafrádráttur til sjómanna samkv. 6. gr. l. frá 23. marz 1972 8% af beinum tekjum þeirra. Ef miðað er við 10 mánaða úthald skips og 500 þús. kr. aflahlut háseta, gerir þetta 40 þús. kr. Ef till. okkar yrði samþykkt, mundi þetta hins vegar verða, miðað við sama úthaldstíma og sama aflahlut, um 160 þús. kr., og telja flm. það algert lágmark og eru vissulega tilbúnir að styðja frekari skattafrádrátt sjómönnum til handa, ef um það næst samkomulag. Við teljum réttara að miða frádráttinn við upphæð kauptryggingar, eins og hún er á hverjum tíma, frekar en prósentur af brúttótekjum, eins og nú er gert. Með því að miða frádráttinn við kauptrygginguna helzt hið rétta hlutfall, sem með frjálsum samningum hefur verið ákveðið milli undirmanna og yfirmanna á fiskiflotanum, og getur ekki farið út í neinar öfgar, þó að um háar tekjur yfirmanna sé að ræða. Ég vil mjög undirstrika þetta og vil biðja hv. þm. að gera sér ljóst, að það er ekki einvörðungu hagsmunamál sjómanna, að aðstaða þeirra verði bætt, heldur ekki síður þess fólks, sem í landi vinnur, og reyndar þjóðarheildarinnar. Talið er, að um 5000 sjómenn séu nú starfandi hér á landi, og það væri sjálfsblekking, ef við gerðum okkur ekki fulla grein fyrir því, að það er starf þessara manna frekar en nokkurra annarra, sem þjóðfélagsheildin byggir afkomu sína á. Ef sjómannastéttinni fækkar eins og nú er því miður mjög mikil hætta á vegna þeirrar röskunar, sem orðið hefur á afkomugrundvelli þeirra miðað við aðrar stéttir, sem í landi vinna, verður því miður óhjákvæmilega um samdrátt að ræða í útflutningstekjum okkar og gjaldeyrisöflun. Ég sé það af blöðunum í dag, að stjórn Farmanna- og fiskisambands Íslands hefur bent hæstv. ríkisstj. á, að neyðarástand, eins og þeir orða það, ríki við að manna fiskiskipaflotann fyrir næstu vetrarvertíð. Ég tel, að Alþ. og ríkisstj. beri að taka þessa ábendingu samtaka skipstjórnarmanna mjög til greina. Flm. þeirrar till., sem ég hér hef rætt, vænta þess fastlega, að þessi mál verði tekin til alvarlegrar athugunar eftir þeirri leið, sem till. gerir ráð fyrir, eða þá annarri, sem stefnir að sama marki og er sjómönnum a.m.k. ekki óhagstæðari.

Ég vænti þess að lokum, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, skoði þetta mál mjög rækilega.