15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér varðandi brtt. þeirra félaga. Það er allt saman rétt, sem hann sagði um þeirra för á minn fund og undirtektir mínar undir það að taka fjárveitingu til Þorlákshafnar á fjárl. nú eða framkvæmdaáætlun. Ég ber þetta mál mjög fyrir brjósti og tel þess mjög ríka þörf, að hægt verði að ljúka þessum áfanga, sem hér um ræðir, en hann er upp á 80 millj. að kostnaði, og væri hægt að framkvæma hann í tvennu lagi og fyrri hlutanum væri hægt að ljúka með því að taka 40 millj. eða um það bíl á framkvæmdaáætlunina. Það var líka eftir fund minn með þeim þm. Sunnl. till. mín og hugmynd, að sú upphæð, 40 millj., yrði tekin á framkvæmdaáætlunina í þessu skyni, því að ég taldi þörfina mjög brýna. Það eru varla í nokkurri höfn á Íslandi önnur eins ofsaþrengsli og í Þorlákshöfn, og hún annar ekki því verkefni, sem henni ber að anna, fyrr en hún hefur verið stækkuð til mikilla muna. En þessi áfangi mundi koma að fullu gagni, með hvaða hætti sem framkvæmdum yrði hagað um framtíðarstækkun hafnarinnar, kæmi að sama gagni, hvor leiðin sem þar væri farin, en tvær leiðir eru þar helzt til umr. En þegar til kastanna kom, var talið, að það væri ekki hægt að taka að þessu sinni á hina áhlöðnu framkvæmdaáætlun slíka upphæð, 40 millj. kr., til þessarar einu hafnar.

Menn sjá, að heildarupphæðin til landshafna er núna aðeins 19 millj. kr. og skiptist í þrennt: aðeins 2 millj. til Þorlákshafnar, 11 millj. til landshafnarinnar í Njarðvík og 6 millj. til Rifshafnar. Þegar hv. þm. Sunnl. höfðu verið á mínum fundi og rætt við mig um hina brýnu þörf á þessari fjárveitingu til Þorlákshafnar, þá komu einnig fulltrúar landshafnarinnar í Njarðvík og tjáðu sína nauðsyn á því, að höfnin væri gerð nothæf, því að hún væri nánast ónothæf nema í blíðskaparverði, þegar hafna er minnst þörf. Þetta er orðið mikið og dýrt mannvirki, en svo mikil hreyfing og súgur er í höfninni, að menn nota hana helzt, ef eitthvað ber út af með veður, þannig að þeir koma bátunum fyrir utan á hafnargörðunum. Það var talið hægt að bæta verulega úr og gera höfnina til muna nothæfari með því að taka 11 millj. kr. fjárveitingu núna á framkvæmdaáætlunina, og á það var af ýmsum fallizt. Þar sem ekki var hægt að fá upphæð, sem nægði neitt til hálfs áfangans í Þorlákshöfn, en minna dugði þar ekki, 40 millj. kr. eða svo, þá var sem sé Þorlákshöfn þar með byggt út að þessu sinni, og er leitt til þess að vita. En svona er það. Það vantar hér og það vantar þar 4050 millj. kr. til nauðsynlegra framkvæmda, og rúmast það ekki innan þeirra háu fjárl. og framkvæmdaáætlunar, sem við erum að afgreiða. Með öðru orðinu er fjargviðrazt yfir því af stjórnarandstæðingum, að allt þetta sé yfirspennt og of hátt, en samt komast þeir sömu menn ekki hjá því að flytja sitt mál um svona 40–50 eða 100 millj. kr. fjárveitingar að auki, sem ekki hafa komizt með á fjárlög eða framkvæmdaáætlanir. Þannig stendur þetta með Þorlákshöfn, að fyrir þann 40 millj kr. áfanga, sem er viðurkennt af öllum aðilum, að sé brýn nauðsyn að ráðast í, reyndist ekki pláss að þessu sinni, og ber að harma það, en unnt að taka minni áfanga, sem kæmu þó að gagni, fyrir 11 millj. kr. í annarri landshöfn, Njarðvíkurhöfn.

Þetta er niðurstaðan, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ég geri mér litlar vonir — um að geta áorkað því að hækka fjárveitinguna, sem hér er um að ræða, um 38 millj. eða svo. Það væri algert lágmark. En engum leiðum skal þó lokað, fyrr en fullreynt er, og mundu þá a.m.k. stjórnarandstæðingar ekki gera veður út af því, þó að hér yrði hækkun enn um 40 millj. kr.