18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

131. mál, vegalög

(Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hér er nú tekið til umr. frv. til l. um breyt. á vegal. Í frv. felast breytingar á þremur gr. vegal., 85., 86. og 87. gr. Með frv. er að því stefnt að auka nokkuð fjármagn til framkvæmda vegáætlunar og draga jafnframt úr lántökuþörf vegna framkvæmda í vegamálum. Er rétt að vísa um síðarnefnda atriðið til aths. við frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973, en það frv. liggur nú fyrir Alþ.

Í þessu frv. er lagt til, að innflutningsgjald af benzíni hækki um 2 kr. af lítra og gúmmígjald og þungaskattur hækki í sama hlutfalli, að undanskildum þó þungaskatti af benzínbílum, en þungaskattur af þeim verður óbreyttur. Innflutningsgjaldið hækkar úr 7.87 kr. í 9.87 kr., 2 kr. á lítrann, eins og ég áðan sagði. Samkv. vegáætluninni eru tekjurnar af innflutningsgjaldinu á árinu 1973 áætlaðar af 90.2 millj. lítra, en sú áætlun hefur ekki staðizt og er því lækkuð í 88.6 millj. lítra. Reynslan á árinu 1972 varð sú, að áætlunin stóðst ekki og varð 1.4 millj. lítra undir áætlun. Það er staðreynd, að endurgreiðslur vegna ársins á undan koma ekki fram sem hækkun fyrr en á árinu 1974, og ber að taka það með í reikninginn. Almennur þungaskattur af dísilbifreiðum er nú 22 þús. kr. á ári fyrir bifreiðar allt að 2 tonn að þyngd að viðbættum 750 kr. fyrir 100 kg varðandi dísilbifreiðar allt að 5 tonna þunga. Með hlutfallslegri hækkun miðað við innflutningsgjald verður hækkunin annars vegar í 27500 kr. á móti 22 þús. og hins vegar í 950 kr. pr. 100 kg umfram 2 tonn, sbr. hins vegar 750 kr. Þungaskattur af dísilbifreiðum yfir 5 tonna þunga eigin þunga, sem er innheimtur með km-gjaldi samkv. mælum, hækkar líka hlutfallslega samkv. frv.

Áætlaðar tekjur af þungaskatti á árinu 1973 eru samkv. vegáætluninni 223.1 millj. kr. og má gera ráð fyrir, að um 50% af þeirri upphæð sé vegna km-gjaldsins. Km-gjaldið er því áætlað 111.6 millj. án hækkunar. Innheimta á fyrsta ársfjórðungi 1973, sem er vegna aksturs á 4. ársfjórðungi þessa árs, er áætluð 22.3 millj. Hækkun km-gjaldsins kemur því aðeins á 89.3 millj. kr. á árinu 1973 og verður um 22.7 millj. Af almenna þungaskattinum, sem er áætlaður 111.5 millj. kr. á árinu 1973, eru um 44.3 millj. kr. vegna þungaskatts benzínbifreiða, þannig að hækkunin kemur á 67.2 millj. kr., og verður sjálf hækkunin þannig 17.1 millj. kr. Þar sem um er að ræða endurgreiðslur vegna ársins á undan, kemur hækkun á þeim ekki fram fyrr en á árinu 1974, eins og ég tók fram. Heildarhækkun á þungaskatti verður því árið 1973 um 39.8 millj.

Gúmmí-gjald, sem nú er 36 kr. á kg, verður 45 kr. á kg. Skv. vegáætluninni er reiknað með, að tekjur af gúmmígjaldi árið 1973 verði 50 millj. kr., en hækkunin mundi gefa af sér 12.1 millj. kr. á næsta ári. Hér er svo í fskj. gerð grein fyrir því, hvernig þessar hækkanir kæmu fram á árunum 1973, 1974 og 1975 skv. vegáætluninni, og verður upphæðin á næsta ári 204 millj., á árinu 1974 246.6 millj. kr. og á árinu 1975 262.2 millj. kr. Samtals er áætlað, að þessar hækkanir, sem fara allar í vegasjóð, kunni að nema um 220–225 millj. kr.

Ég held, að þetta frv. skýri sig sjálft. Það er ætlað til fjáröflunar fyrir vegasjóðinn til þess að komast hjá lántökum og svo að ekki verði samdráttur á framkvæmdum. Ég hygg, að allir þm. séu sammála um það, að ekki megi slaka á, af því að verkefnin, sem óleyst eru, eru svo mikil og að svo mörgu að hyggja. Allir vilja fá umbætur á vegum og til þess verður að taka fé. Ég undirstrika það, sem sé, að lokum máls míns, að tekjuöflun skv. þessu frv. fer öll í vegasjóð og að engu leyfi inn í það dæmi, sem verið er að leysa með annarri löggjöf, varðandi fjárbag ríkissjóðs eða aðra þætti þess vandamáls, en þar er fyrst og fremst verið að leysa vanda útflutningsatvinnuveganna. Ég held, að ég láti þessar skýringar nægja á frv. Það er alveg ljóst, hver tilgangur þess er, og það liggur alveg fyrir, hvaða hækkanir verða hér á benzíni, þungaskatti og gúmmígjaldi. Það eru tekjustofnarnir, sem þessar hækkanir koma á.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að umræðu lokinni vísað til hv. samgn.